Niðurstaða gerir lítið úr upplifun konunnar – Lögfræðingur bloggar

Mikil óánægja hefur verið meðal almennings vegna dóms hæstaréttar þar sem maður var dæmdur saklaus af því að hafa beitt unga konu kynferðisbroti þegar hann stakk fingrum sínum upp í leggöng og endaþarm hennar. Við fjölluðum um þetta og afstöðu hæstaréttarlögmanna til kynferðisbrota nú á dögunum.

Lögfræðingur bloggar

Nú hefur Rún Knútsdóttir lögfræðingur skrifað greinargott blogg um þennan dóm á femíníska vefritinu Knúz. Þar segir hún meðal annars þetta:

„Meirihluti dómenda virðist telja að þar sem ásetningur geranda hafi ekki verið kynferðislegur, heldur sá að meiða brotaþola, falli brotið ekki undir það að vera samræði eða önnur kynferðismök.

Það er ýmislegt við þessa niðurstöðu að athuga. Í fyrsta lagi bera að líta til þess að kynferðisbrot eru í eðli sínu ofbeldisbrot. Sú háttsemi að beita einhvern ofbeldi eða þröngva honum á annan hátt til þess að ná fram vilja sínum gagnvart viðkomandi gæti oftar en ekki fallið undir ákvæði hegningarlaganna um líkamsárás eða aðra ólögmæta nauðung.“

Upplifun hlýtur að skipta máli

Rún segir líka í bloggi sínu:

„Upplifun brotaþola, sem lendir í því að hlut eða fingrum er stungið upp í leggöng eða endaþarm hlýtur að vera sú að brotið sé gegn honum kynferðislega. Slíkt brot hlýtur því að teljast brot gegn kynfrelsi einstaklings, alveg óháð því hvort að gerandinn hafði eitthvað kynferðislegt í huga. Verndarandlagið er kynfrelsi viðkomandi og þá hlýtur upplifun hans af atburðinum að skipta máli, en ekki endilega afstaða geranda.“

Rún segir að spurningin sem hafi vaknað við það að lesa dóminn hafi verið hvort að það sé vilji réttarins að fara þá leið að láta afstöðu hins ákærða ráða því undir hvaða ákvæði brot hans verði heimfært. Hún segir einnig að svona niðurstaða geri lítið úr upplifun konunnar sem að sjálfsögðu upplifir kynferðisbrot.

„Er það von mín að Hæstiréttur endurskoði afstöðu sína, komi slíkt mál aftur til kasta dómsins, og taki sömu afstöðu og minnihluti dómenda gerir í þessu máli,“ segir Rún að lokum.

 

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here