Göngum saman fagnar 10 ára afmæli í ár og af því tilefni er ýmislegt á döfinni. Hlín Reykdal ríður á vaðið nú í mars en hún hefur hannað nisti í tveimur litum sem verða seld á næstu dögum til styrktar grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini. Omnom verður með sérstakan súkkulaðiglaðning í apríl, Hildur Yeoman hannar boli og fleira fyrir mæðradagsgönguna 14. maí og Landsamband bakameistara leggur félaginu lið með sölu á brjóstabollum mæðradagshelgina eins og undanfarin ár. Í haust er svo fyrirhugað afmælismálþing félagsins.
Styrktarfélagið Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini og hefur veitt íslenskum vísindamönnum 70 milljónir í styrki frá upphafi. Göngum saman leggur áherslu á mikilvægi hreyfingar til heilsueflingar og vikulegar göngur félagsins eru opnar öllum áhugasömum. Upplýsingar um stað og stund er að finna á heimasíðu samtakanna og á facebook síðu félagsins.
Salan á nistunum hefst laugardaginn 18. mars klukkan 15:00 með gleðistund í verslun Hlínar á Fiskislóð 75. Nistin verða seld hjá Hlín í tvær vikur, eða meðan birgðir endast. Einnig er tekið við pöntunum í gegnum skilaboð á Facebook síðu félagsins ef fólk vill fá nisti í póstkröfu.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.