Ég er stundum spurð að því hvernig var hjá mér þegar ég var að eiga börnin mín og fyrstu árin þeirra.
Það væri alveg hægt að spyrja mig hvernig er núna 50 árum seinna! Mín reynsla er nefnilega þannig að börnin okkar hætta aldrei að vera börnin okkar þó að vissulega breytist umhyggjan þegar þau eru komin af höndum. Svo eignast þau börn og jafnvel barnabörn ef maður er heppinn og fær að lifa lengi og þá verður til nýr hópur til að elska og hugsa um!
En snúum okkur að spurningunni. Ég á tvö börn- eða á ég að segja: mér var treyst fyrir tveim börnum til að annast og ala upp. Þau fæddust bæði víðs fjarri ættjörð og fjölskyldu því að við bjuggum í Boston. Þetta var fyrir daga farsíma og jafnvel var sími ekki í allra húsum. Við höfðum t.d. ekki síma þegar dengurinn okkar, sem er eldri fæddist, svo að ekki var nú mikið um símtöl heim- til mömmu! Ég hringdi aðeins einu sinni heim á öllu ferlinu og það var til að segja mömmu að von væri á barni. Svo hringdi maðurinn minn heim þegar drengurinn var fæddur.
Ég las greinar sem þið birtuð á Hún.is og má finna hér og hér, sem fjölluðu um að sumar konur tækjust á við kvíða út af ýmsu á meðgöngunni. Ég slapp blessunarlega við þetta. Þegar ég velti fyrir mér af hverju meðgangan var svona átakalítil held ég að ýmsar ástæður kunni að vera fyrir því.
*Barnið var mjög velkomið og var aldrei efi eða ótti af neinu tagi um velferð hans. Það var ekki eins og við værum efnuð en við áttum alveg nóg af kærleika! Satt að segja ræddum við foreldrarnir þetta aldrei. Ég hefði orðið mjög undrandi ef einhver hefði sagt við mig: Heldurðu að þú getir nú hugsað um barnið þitt?!!!
* Eins og siður er í Bandaríkjunum velur maður sér lækni sem annast eftirlit á meðgöngu og er svo við fæðinguna. Ég treysti lækni mínum mjög vel og hann reyndist mér á allan hátt vel og ég vissi að ég gæti náð sambandi við hann ef eitthvers þyrfti með. Það veitti mér mikið öryggi.
* Ég var búin að velja mér barnalækni áður en barnið fæddist og fylgdist hann mjög vel með drengnum og sagði mér til. Hann sagði mér líka að barnið væri í góðum höndum, sem var gott að heyra!
* Maðurinn minn hafði aldrei hugsað um ungbarn- frekar en ég – og ég ætlaði ekki að láta hann missa af því að tengjast drengnum náið með því að gera alla hluti sjálf fyrir hann. Þegar við svo komum heim af spítalanum á fjórða degi og drengurinn hóf upp raust sína, kröftuga, hreyfði ég mig ekki heldur lá afvelta í rúminu en ég var mikið veik. Pabbinn var kominn heim úr vinnunni og nú voru góð ráð dýr. Ég sagðist bara því miður ekki geta farið á fætur til að sinna drengnum, hann yrði að gera það. „En ég kann það ekki“, sagði hann. „Ekki ég heldur“, sagði ég, „þú skalt bara reyna“. Og er ekki að orðlengja það að hann hugsaði mikið og vel um þetta barn og með þeim var mikil vinátta alla tíð.
* Við vorum samtaka í því, foreldrarnir að gera okkar besta. Það yrði að vera nóg og við treysum því líka að það yrði harla gott. Nei, þetta er ekki hroki, heldur sagt í auðmýkt og þakklæti. Það komu upp erfið augnablik, einkum fyrstu dagana því að ég gat ekki mjólkað barninu. Sársaukinn var í mörgum lögum. Ég man t.d. eftir kvöldi þegar barnið grét mikið og pabbi hans hljóp niður í lyfjabúð sem var þó nokkuð langt í burtu til að kaupa túttur á pelana því að tútturnar höfðu eyðilagst hjá okkur í suðu. Þá var manni sagt að sjóða allt í ungbörnin. En hann kom með tútturnar, barnið fékk að drekka og hætti að gráta! Smám saman komst jafnvægi á og taktur í tilveruna. Og við vorum að gera okka besta!
* Stuðningsnetið. Við bjuggum á heimavistarskóla og áttum mikið af kunningjum og vinum. Í vinahópnum voru margar lífsreyndar konur sem höfðu eignast börn og alið þau upp. Þessar konur voru mér góðar, komu oft og aðgættu hvort okkur vantaði eitthvað eða þær komu með góða köku og við hituðum okkur kaffi og spjölluðum saman um heima og geyma eða gáfu mér ráð um eitt og annað sem þær töldu að væri gott fyrir mig að vita. Ég veit að margar ungar mæður verða einmana með barni sínu. Í mínu tilviki var það ekki svo eins og þú getur ímyndað þér. Það var frekar þannig að ég fékk of mikið af fólki í heimsókn. Það er vandratað meðalhófið!
Sambandið við börnin mín var alltaf og er enn náið. Þau eru vinir mínir og það er mikil gæfa. Aldrei myndi ég segja að ég hafi verið hið fullkomna foreldri. Mér þætti raunar gaman að hitta þá manneskju og hef ekki heldur heyrt skilgreininguna. En hitt segi ég án þess að hika að ég gerði alltaf eins vel og ég gat bæði eins og orkan leyfði og vitið bauð. Og án þess að hiksta segi ég að meira megum við ekki heimta af okkur sjálfum. Og nú á ég barnabörn og bráðum langömmubarn. Hvað er hægt að biðja um meira?
Það eru mikil forréttindi, finnst mér að fá að fylgja barni í uppvextinum og sjá heiminn með augum þess. Mér fannst börnin mín ung þegar þau voru farin að kenna mér. Og þau eru enn að kenna mér. Í fjölskyldu okkar voru oft mikil veikindi og vinnuálagið á mér þá mikið. Ég vann mikið heima við þegar ég var komin úr „vinnunni“. Hugsunin var ævinlega að geta byggt upp fyrir framtíðina, geta veitt börnunum eitthvað, farið í ferðalög o.s.frv. Einhverju sinni á laugardegi var ég niðursokkin í skriftir og þá kemur sonur minn, þá um 13 ára til mín og segir: „Mama, you have got to stop and smell the flowers“! (enska var honum jafn tiltæk og íslenska). Ég hrökk við og fór að hugsa minn gang. Auðvitað var þetta rétt hjá honum. Maður á að lifa í nú-inu, njóta dagsins og lífsins í kringum okkur. Njóta þess að vera með börnunum okkar í augnablikinu. Það þarf ekki alltaf einhverjar miklar tilfæringar til að eiga góðar stundir saman, bæta í fjársjóð minninganna.
Ég óska ykkur, ungu mömmur með börnin ykkar góðra daga og gleði.
Í ömmuhorni birtast pistlar frá áttræðri ömmu, mömmu og bráðum langömmu. Tímarnir breytast og mennirnir með en alltaf elskar fólk börnin sín jafn mikið!