Nokkur orð um þakklæti

Síðastliðið ár eða svo hefur verið alveg heill hellingur af áskorunum og erfiðum verkefnum. Það hefur einkennst af veikindum og baráttu við veikindin. Oft verið ansi töff en líka skilið eftir sig sigra og ný gildi.

Ég get sannarlega mælt með því að stunda þakklæti sér til hjálpar á erfiðum tímum, hljómar undarlega en það er einu sinni bara þannig að þakklæti er magnað verkfæri og þegar við lærum að beita þessu verkfæri þá verður tilveran svo miklu auðveldari og við förum að sjá tækifæri sem voru okkur ekki sýnileg áður.

 

Hvernig stundar maður svo þetta þakklæti?

Það má gera á ýmsa vegu og stundum þarf maður bara að þykjast vera þakklátur til þess að komast þangað.

En öll höfum við alltaf eitthvað til að vera þakklát fyrir, eins og t.d að hafa sjón eða heyrn, fætur sem bera okkur, eiga mat á disknum okkar, kalda vatnið í krananum, fólkið okkar, tannburstann, bros frá náunganum.

Sama hvað lífið er töff er alltaf eitthvað sem er þakkarvert og með því að sækja þessa þakkaverðu hluti og hugsa um að þarna sé ljós punktur þá finnur maður fleiri ljósa punkta og þar með fleiri þakkarefni. (töfrabrögð)

Með þessu breytir maður líðan sinni og fer að finna þessa góðu þækklætistilfinningu sem er ótrúlega notaleg í kroppnum.

Ein leið sem ég hef nýtt sjálf og oftar enn ekki bent fólki á sem ég hef stutt við er að halda þakklætisdagbók.

Fá sér fallega bók og gefa sér stund á hverjum degi, mér finnst persónulega best að gera þetta á kvöldin og skrifa niður minnst þrjú atriði sem þú er þakklát/ur fyrir, þetta er ekki erfitt verkefni.

Það sem gerist er að þessi þrjú atriði opna fyrir þakklætisaugun og viðkomandi sér fleira og fleira sem er þakkarvert og að endingu sjáum við þakklæti í erfiðleikunum, því jú erfiðleikar skila okkur alltaf einhverjum þroska.

Njótum þess að finna til þakklætis og á þann hátt gera heimin jákvæðari.

Í dag er ég þakklát fyrir svo margt en til þess að nefna eitthvað þá er ég þakklát fyrir fjölskylduna mína, vini mína, góðan kaffibolla í morgun og já íslenska rigningarloftið hér í höfuðstaðnum ( það kennir mér að elska sólina heitar þegar hún loksins kemur).

Þakklæti til ykkar mínu kæru lesendur ***

SHARE