Miðasala hafin á hátíðartónleika Sigríðar Thorlacius og Sigurðar Guðmundssonar í Eldborg og nýtt lag, Freistingar, væntanlegt.
Tveir af ástsælustu söngvurum landsins, þau Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson, taka höndum saman og slá upp tónleikum í Eldborgarsal Hörpu þann 17. desember næstkomandi. Sigríður og Sigurður munu ásamt hljómsveit sinni reiða fram sérstaka hátíðardagskrá í anda jólanna.
Þau Sigríði Thorlacius og Sigurð Guðmundsson þarf vart að kynna en þau hafa lengi verið á meðal þekktustu og dáðustu söngvara landsins. Bæði hafa þau gert garðinn frægan með hljómsveitum sínum, Sigríður með Hjaltalín og Sigurður með Hjálmum, en jafnframt státa þau af glæstum sólóferlum.
Það eru einmitt tvær hljómplötur þeirra sem verða í forgrunni á tónleikunum í Hörpu – jólaplöturnar Nú stendur mikið til með Sigurði og Jólakveðja með Sigríði. Auk laga af þessum plötum verða á dagskránni hátíðarlög úr öllum áttum sem Sigurður og Sigríður munu syngja bæði saman og í sitthvoru lagi.
Hér verður um einstaka kvöldstund að ræða þar sem reynt verður að nálgast hið sanna og hátíðlega inntak jólanna.
Sigríður og Sigurður luku nýlega við nýtt lag, sem tekið var upp í Hljóðrita í Hafnarfirði. Lagið ber nafnið Freistingar og er væntanlegt í spilun á næstunni.
Mynd: Baldur Kristjánsson
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.