Nýfætt barn fannst á sunnudaginn í klóakröri í Kína. Ungabarnið sem er talið vera tveggja daga gamalt og 2,3 kg fannst í klóakröri sem leiddi frá almenningsklósetti, á fjórðu hæð í blokk í Junhua, Zhenjiang. Fréttir bárust af málinu í dag.
Íbúi blokkarinnar heyrði grátur sem kom frá rörinu og kallaði á slökkviliðið sem mætti á svæðið og björguðu barninu. Barnið var fast inn í röri sem var 10 cm. á breidd.
Rörið var klippt og sagað í sundur þar til þeir komust að barninu. Barnið sýndi viðbrögð og var sent á spítala þar sem það er sagt vera í ágætu ástandi þrátt fyrir miklar bólgur og marbletti.
Verið er að rannsaka málið en mál sem þessi hafa komið upp áður í Kína og það var síðast í apríl sem fréttir bárust af því að kona hafði reynt að fæða barn sitt á almenningsklósettið. Þegar barnið fæddist missti hún það niður í klóakrörið, barnið lifði það ekki af.
Hægt er að sjá myndband af barninu og björgunaraðgerðinni hér.