Mörg okkar alast upp við erfið skilyrði sem skilja eftir sig allskonar sárar tilfinningar.
Sársauki sem oft er djúpur og hræðilega sár. Sumir lifa með þennan sársauka allt sitt líf en aðrir finna leiðir til þess að takast á við hann.
Mörgum lánast að vinna vel úr þessum sársauka með hjálp sem hentar viðkomandi, hvort sem það er með aðstoð fagaðila, sjálfshjálparsamtaka eða hvoru tveggja. Einhverjir finna hjálp í trúnni og leita til kirkjunnar og aðrir kjósa náttúrulegri leiðir.
Engin ein leið er sú rétta að mínu mati, leiðin sem hentar hverjum og einum er rétt fyrir hvern og einn. Við manneskjurnar erum svo ólík að ekki er hægt að setja alla í sama flokk og því er mikilvægt að hver og einn fái það frelsi sem þarf til að finna leið við sitt hæfi. Leiðin þar sem einstaklingurinn finnur að hann getur tekist á við erfiðu tilfinningarnar og með því eignast nýja fortíð sem er full af þroskandi verkefnum enn ekki bara sársauka.
Mín leið hefur verið margsskonar, hjálp frá fagaðilum, sjálfshjálparsamtök, náttúrulegar lausnir. Ég hef nýtt mér dáleiðslu, nálastungur, hómapatíu, kjarnaolíur allar þessar aðferðir hafa styrkt mig í því að vinna með mitt sjálf og losna undan erfiðum tilfinningum fortíðar.
Ég á góða fortíð í dag, margt erfitt í henni en ég kýs að sjá það jákvæða við þessa þroskabraut mína.Fortíðin mín á sinn þátt í því að mér tókst að verða sú sem ég er og í sannleika sagt langar mig ekki að vera nein önnur.
Ég veit að þeir sem eru hluti af mínu lífi hafa alltaf gert sitt besta og það er mitt, eftir að ég varð fullorðin, að hlúa að sjálfri mér og ala mig upp, upp á nýtt.
Í dag er ég hæfari til þess að takast á við erfið verkefni í lífinu á heilbrigðan máta, játa tilfinningar mínar og vera í núinu.
Þú getur það líka ?
Eitt af því sem hefur hjálpað mér er að losa mig undan öllum fórdómum gagnvart andlegri vinnu, já ég þurfti þess enda alinn upp af þeirri kynslóð sem leit á það sem aumingjaskap að veikjast andleg. Bítur bara á jaxlin og bölvar í hljóði var svolítið mottóið.
Ég lærði það snemma á lífsleiðinni að tilfinningar ættu ekki rétt á sér, ef ég fór að gráta var mér skipað að hætta þessu væli og ef ég var ótrúlega ánægð með eitthvað sem ég gerði þá var mér sagt að hætta að monta mig.
Skýr skilaboð um að tilfinningar væru rangar og já ég þurfti að endurforrita mig. Sem sagt verða fullorðin og bera ábyrgð á eigin líðan. Það gerði ég með þeim leiðum sem ég nefndi áður og á þann hátt eignaðist ég ekki bara MIG heldur líka nýja fortíð sem olli mér ekki lengur sársauka.
Gleðilegt nýtt ár megi það verða ykkur lesendum hamingjuríkt.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!