Of fóðruð og feit

Ísland á nú þann vafasama heiður að vera feitasta þjóð Evrópu.  Offita er orðin útbreiddasta heilsufarsvandamál meðal iðnvæddra þjóða. Árið 1980 voru færri en einn af hverjum tíu of feitir í OECD löndunum en það hefur nú tvö- og þrefaldast í mörgum löndum. Ef áfram heldur sem horfir er því spáð að tveir af hverjum þremur verði of þungir eða of feitir í a.m.k. sumum OECD löndum innan tíu ára. Helsta ástæða þessarar þróunar er óheilbrigt mataræði, of stórir matarskammtar, breyttir lifnaðarhættir og vinnu umhverfi, minni hreyfing og aukin streita.

Dýrt fyrir samfélagið

Það má öllum vera ljóst að þetta er grafalvarlegt vandamál. Rannsóknir hafa sýnt fram á að lífslíkur feitra einstaklinga eru allt að tíu árum styttri en þeirra sem eru í kjörþyngd. Einnig fylgja offitu gjarnan ýmsir sjúkdómar eins og sykursýki, of hár blóðþrýstingur, hjarta- og æðasjúkdómar, öndunarfæra sjúkdómar s.s. astma og beina sjúkdómar s.s. gigt. Offita hefur þar af leiðandi mikil áhrif á heilsugæslukostnað samfélagsins í heild. Allt eru þetta alvarlegir sjúkdómar sem oftar en ekki er hægt að koma í veg fyrir með breyttum lífsstíl.

Offita er heilsufarslegur skaðvaldur sem er í raun orðinn að faraldri.

Finnst okkur í lagi að yfir 60% Íslendinga séu of þungir? Heilbrigðisyfirvöld settu fram heilsustefnu árið 2008 sem átti að stuðla að heilbrigðari lífsháttum landsmanna með það að markmiði að efla heilbrigði þeirra en hægt hefur gengið að fylgja þeirri stefnu, Lýðheilsustofnun setur reglulega fram fræðsluefni um heilbrigt mataræði og hvetur fólk til heilbrigðari lífshátta. En þetta er ekki nóg. Það þarf að verða öflugri vitundarvakning meðal þjóðarinnar á hversu alvarlegt heilsufarsmein offitan er og kostnaðinn sem við þurfum að bera vegna sjúkdóma af völdum offitu. Endalaust framboð af skyndibita, sætindum, gosdrykkjum o.s.frv. freistar fólks og það er gaman og gott að hlamma sér í sófann og gæða sér á góðgætinu og hafa það náðugt. En einhverstaðar gleymdist hið gamla góða; Allt er gott í hófi. 60% þjóðarinnar innbyrðir of mikið magn hitaeininga, borðar of stóra matarskammta og hreyfir sig of lítið og ómarkvisst.

Sjá einnig: Er offita arfgeng?

Ofmetin hreyfing og vanmetin neysla

Hluti af vandanum er sá að fólk hefur tilhneigingu til að ofmeta hitaeiningabrennslu sína og vanmeta hitaeininganeyslu sína. Margir hamast í 45-60 mín. á uppáhalds þoltækinu sínu og þegar tækið gefur til kynna að 500 hitaeiningar hafi fokið þá fer hinn sami frekar ánægður með sig og gúffar í sig hamborgara með frönskum og ís í eftirmat í góðri trú um að vera réttu megin við hitaeiningamörk dagsins. Staðreyndin er þó sú að þoltækin gefa upp gróft meðaltal yfir nýttar hitaeiningar og jafnvel þó að þyngd og kyn sé stimpluð inn er ekki hægt að treysta á þessar tölur. Meðal manneskja sem er 68 kg brennir um 1800 he á dag án þess að hreyfa sig aukalega. Það er u.þ.b. 75 hitaeiningar pr. klst. Brennsluhraði á 45-60 mín æfingu getur verið á bilinu ca 300-600 hitaeiningar eftir hæð, þyngd og ákefð við æfingarnar. Það er því ljóst að ein góð æfing er ekki ávísun á að geta gætt sér á 1000 hitaeininga veislu án þess að vigtin þokist upp á við. Það sem margir átta sig ekki á, er að vænn hamborgari, stór skammtur af frönskum með kokteilsósu og ís með sósu í eftirmat getur auðveldlega farið vel yfir 1000 hitaeiningar. Þrjár sneiðar af pizzu með pepperóni og osti og ½ L af kók innihalda u.þ.b. 750 hitaeiningar. Í einum 170 gr. poka af söltuðum kartöfluflögum eru 843 hitaeiningar.
Það ættu allir að afla sér upplýsinga um næringargildi þess sem þeir setja ofan í sig. Til að komast í kjörþyngd þurfum við réttar upplýsingar. Við reynum ekki að komast á ókunnan áfangastað öðruvísi en með einhverskonar leiðbeiningum . Það sama á við um að komast í kjörþyngd.

Allt hefur áhrif og einkum við sjálf.

Þetta var yfiskrift átaks sem Lýðheilsustofnun stóð fyrir ekki alls fyrir löngu og orð að sönnu. Það er gott að hafa þau ávallt í huga… og jafnvel í daglegri augsýn, t.d. á ísskápnum.

Gleymum því ekki að við berum ábyrgð á eigin heilsu. Frá því við vöknum á morgnana og þar til við leggjumst á koddann á kvöldin stöndum við frammi fyrir óteljandi valkostum sem hafa áhrif á heilsu okkar og líðan. Á ég að taka stigann eða lyftuna? Á ég að fá mér lúku af gotteríinu sem Jói kom með í vinnuna af því hann var að koma frá útlöndum? Á ég að setja kexpakka í innkaupakörfuna sem ég veit að heimilismeðlimir hafa ekkert gott af? Á ég að fara á æfingu í dag eða frest a því til morguns? Á ég að fá mér aftur á diskinn eða láta gott heita af því að ég veit ég hef fengið nóg í bili? Okkar er valið! Settu þér markmið og áætlun um hvernig þú ætlar að ná því. Reyndu að hreyfa þig a.m.k. 30 mínútur á dag, flesta daga ársins. Regluleg styrktarþjálfun með lóðum eykur grunnefnaskiptahraða líkamans og er raunhæf leið til að komast í kjörþyngd og auðvitað skiptir öll hreyfing máli. Þú getur lesið allt um grunnbrennsluna og reiknað út þína hér. Hafðu yfirsýn yfir daglega hitaeininganeyslu þína. Haltu dagbók yfir verkefnið þitt og gerðu þér grein fyrir að það tekur tíma að ná árangri.

 

Sjá einnig: Offita og yfirþyngd á Íslandi

Við getum orðið heilbrigðasta þjóð heims!

Við íslendingar erum kraftmikil þjóð sem erum með fullt af heimsmetum miðað við höfðatölu. Ísland…best í heimi!! Við getum ekki verið þekkt fyrir að vera í hópi feitustu þjóða heims. Við eigum þvert á móti að vera heilbrigðasta þjóð heims með okkar ferska loft og hreina vatn. Við eigum að vera öðrum þjóðum fyrirmynd. Ísland árið 2020-heilbrigðasta þjóð í heimi. Upp með eldmóðinn, snúum þessari þróun við í snatri, bætum líf okkar og heilsu með reglubundinni þjálfun allan ársins hring og skynsamlegri og hóflegri matarneyslu. Hver og einn byrjar á sjálfum sér. Ekki seinna, ekki bráðum….. Í DAG!

Höfundur greinar:

Teitur Guðmundsson

 

SHARE