Heimilisofbeldi gagnvart karlmönnum er eitthvað sem kemur upp í umræðunni af og til en þó alltof sjaldan. Málefnið er viðkvæmt og lítið til af rannsóknum um það. Þannig má fullyrða að um sé að ræða vandamál sem er falið rétt eins og ofbeldi gagnvart konum var fyrir ekki svo löngu síðan.
Menn sem orðið hafa fyrir ofbeldi hafa ekki verið framarlega í umræðunni hvort sem talað er um ofbeldi í æsku af völdum foreldra eða systkina eða ofbeldi sem á sér stað síðar meir á ævinni af hálfu maka. Ofbeldi hefur alvarleg áhrif á alla sem fyrir því verða. Skömmin sem karlar er verða fyrir ofbeldi upplifa, er mikil, karlmennskan bíður hnekki og menn kenna sjálfum sér um aumingjaskapinn. Þetta er ekkert skrítið þar sem karlmenn eru flestir aldir upp við slík viðhorf karlasamfélagsins. Það að almennt sé gert ráð fyrir því að karlmenn séu líkamlega sterkari en konur, hefur líklega haft áhrif á það að karlmenn kæra sjaldan ofbeldi kvenna gagnvart sér. Margir karlmenn sem hafa verið beittir ofbeldi af konum sínum bera því við að þeir hafi ekki varið sig þar sem þeir vilji ekki berja konur. Auðvitað er reginmunur á því að neyta aflsmuna til að verja sig og á því að beita ofbeldi.
Það er ljóst að þegar karlmenn sæta ofbeldi hefur það alvarlegar afleiðingar á líðan þeirra og sjálfsmynd rétt eins og annarra sem fyrir slíku verða. Karlmenn rétt eins og konur búa í mörgum tilfellum lengi með maka sem beitir þá ofbeldi, þá er ekki spurt um stétt né stöðu og vandinn hverfur ekki af sjálfu sér. Það er mikilvægt að þekkja eigin mörk þegar kemur að því að skilgreina ofbeldi. Hvenær er maki manns að beita ofbeldi. Gerist það þegar ýtt er við honum eða hann niðurlægður með orðum. Biðst makinn afsökunar eftir að hafa komið fram með ofbeldisfullum hætti og lofar að ,,gera þetta aldrei aftur?“ Bætir hann ráð sitt? Þegar fólk vill bæta fyrir brot sitt er mikilvægt að það sé þá gert alla leið og að fólk sýni breytingar á hegðun sinni í verki. Það er fátt dapurlegra en þegar einhver biðst margoft afsökunar á sama brotinu og óhætt að fullyrða að slík afsökunarbeiðni sé lítils virði.
Það er mikilvægt að leita sér hjálpar þegar út af ber og aðstæður skapast þar sem fólk ræður ekki við eigin tilveru. Þegar sársauki og vanlíðan verða óbærileg. Það gæti verið gott að byrja á því að ræða við einhvern sem hægt er að treysta, vin eða ráðgjafa. Karlmenn virðast eiga erfiðara með að stíga fram og horfast í augu við það að þeir hafi verið beittir ofbeldi. Hvað þá að viðurkenna það fyrir öðrum. Skömmin er mikil og langflestir tengja ofbeldið við sjálfsvirði sitt. Með markvissum viðtölum geta menn öðlast meira sjálfsvirði, heilbrigt sjálfsmat og meiri sjálfsþekkingu. Einnig geta þeir lært að setja eigin mörk, að vernda sig í samskiptum og öðlast þannig bæði hamingju og frelsi.
Við hjá “Ég er” bjóðum upp á ýmis úrræði til bóta.
Kynnið ykkur síðuna okkar og stígið skrefið. Síminn okkar er 783-4321
Einnig er hægt að senda netpóst á namskeidin@gmail.com
Díana Ósk og Fritz Már fyrir Heilsutorg