Hjartað mitt er fullt af gleði eftir góða helgi. Helgin einkenndist af góðum félagsskap, gleði og góðum mat en hápunktur helgarinnar er auðvitað gleðigangan. Þangað mættum við litla fjölskyldan, ég, bumbubúinn, Gísli og Aron ásamt vinafólki okkar og fylgdumst með göngunni sem mér fannst til fyrirmyndar. Fólk hefur haft orð á því að gangan hafi verið pólitísk sem hún jú var að einhverju leiti en við megum ekki gleyma því að þó gangan heiti gleðiganga er þetta samt sem áður mannréttindaganga. Það er ósköp eðlilegt að vekja athygli á mannréttindabrotum sem samkynhneigðir verða fyrir út um heim allan í göngu sem þessari og það hefði verið fáránlegt ef ekki hefði verið minnst á vetrarólympíuleikana sem haldnir verða árið 2014 í Rússlandi, landi sem fordæmir samkynhneigð.
Ég er stolt að búa á Íslandi. Ég gleðst yfir því að Íslendingar safnist saman og fagni þeim sjálfsögðu mannréttindum fólks að fá að vera eins og það er. Ég gleðst líka yfir því að búa í landi þar sem meirihluti þjóðarinnar er laus við fordóma vegna kynhneigðar fólks. Mér fannst því nokkuð slæmt að sjá bloggfærslu manns nokkurs en hann ákvað að smella í einn pistil svona í tilefni gleðigöngunnar. Pistilinn getur þú nálgast hér en maðurinn sem skrifaði pistilinn virðist vera í mótsögn við sjálfan sig.
Hann byrjar á því að segja:
“Ofbeldi samkynhneigðra finnst mér orðið meira en góðu hófi gegnir. Mér finnst það skemma jafnréttisboðskapinn sem ég styð heilshugar. ”
Hann virðist halda að hann tali fyrir alla karlmenn og “streitara” eins og hann orðar það þegar hann segir:
” Við venjulegir karlmenn eigum að þola að horfa á karlmenn í sleik á almannafæri. Þeir virðast heimta að við segjum að okkur finnist þetta flott og allt í lagi. Okkur streiturum finnst þetta hinsvegar viðbjóðslegt og viljum ekki horfa á þetta. Okkur er auðvitað sama þó þeir geri þetta en látið augu okkar í friði. Almennt velsæmi er ekki úrelt.”
Hann heldur svo áfram og segir:
“Við látum allt þetta öfuguggashow yfir okkur ganga. Við getum alveg horft á borgarstjóra Reykjavíkur í sínum fíflabúningi vera með sínar fettur og brettur. Gott og vel. En það eru takmörk.
Af hverju er þetta þessu liði ekki nóg? Af hverju vill það eitthvað meira. Af hverju vill það stjórna hugsunum okkar líka?”
Það sem vekur furðu mína er það að til að byrja með talar hann um að hann styðji jafnrétti en talar svo um að samkynhneigðir séu “öfuguggar” og virðist svo ýja að því að samkynhneigðir brjóti í bága við velsæmi og að samkynhneigðir karlmenn séu ekki “venjulegir karlmenn.”
Ég velti því fyrir mér hvort honum sé líka svona misboðið þegar gagnkynhneigt par kyssist eða þegar tvær konur kyssast? Hann minnist bara á að öllum “venjulegu karlmönnunum” finnist viðbjóðslegt að sjá tvo karlmenn kyssast. Ég verð að leyfa mér að efast um að svona pistill hefði verið skrifaður um gagnkynhneigt par í sleik. Ég leyfi mér líka að efast um að maðurinn hafi í raun mætt á Gleðigönguna. Ég verð að viðurkenna að ég sá bara ekki nokkurn mann kyssast í göngunni en kannski var ég bara ekki jafn upptekin af því og “streitarinn.”
Þar sem ég væri líklega flokkuð sem “streitari” vil ég hér með lýsa því yfir að þessi maður talar ekki fyrir mig og er ég nokkuð viss um að meirihluti “streitara” á Íslandi eru mér sammála. Mér finnst ekki karlmennska að fordæma annað fólk vegna kynhneigðar, þvert á móti. Ég hef alist upp með alvöru karlmönnum og þeir spá lítið í því hvern eða hverja aðrir karlmenn elska eða kyssa. Ef það fer í fólk að sjá fólk kyssast þá er líklega bara ágætt ráð að líta undan.
Pistillinn sem ég vísa í hér að ofan sýnir okkur það að þó við séum langt á veg komin í baráttunni fyrir réttindum samkynhneigðra hér á landi eigum við enn langt í land.
Mig langar að lokum að þakka öllu því frábæra fólki sem stóð að Gleðigöngunni fyrir frábæran dag, við sjáumst aftur að ári!