Þegar hausinn og hjartað slást svo hratt og kröftuglega að ég missi tökin á því hvað, í raun og veru, snýr upp og hvað snýr niður. Stundum ná hugsanirnar svo miklu flugi að ég hreinlega veit ekki hvað ég er að hugsa. Hugsanir koma og fara, koma svo aftur annan hring. Hugsanir þjóta í gegn á leifturhraða svo að ég næ ekki tökum á þeim. Allir hlutir í kringum mig virðast annaðhvort gerast á leifturhraða eða hreinlega í „slow motion“. Ég næ ekki að stoppa. Hvorki hugsanir né annað raunverulegt. Ég næ ekki að klára, næ ekki að hugsa heila hugsun, næ ekki að gera, næ hreinlega ekki andanum. Ég fyllist kvíða, fyllist óöryggi, fyllist sorg.
Ég þarf eitt augnablik eða tvö, þarf augnablik til að greiða í gegn, en ekkert vill stoppa. Það virðist engin leið til að stoppa tímann, engin leið til að stoppa tilveruna. Ég þarf að minna sjálfa mig á að anda, að láta hjartað slá í réttum takti, að láta hugan hægja á sér.
Ég sannfæri sjálfa mig um að ef ég bara næ þessu augnabliki, þessu augnabliki sem ég þarfnast svo nauðsynlega, til að hægja á hugsununum mínum, þá geti ég greitt úr hugsanaflækjunni sem ég virðist vera komin í. Ég er hrædd við flækjuna, ég hef upplifað flækju áður, það að vera í flækju er ekki góð tilfinning. Ég veit það, ég hef verið þar.
Fyrsta skrefið er að gera mér grein fyrir því að þetta sé ímyndað ástand, í hausnum á mér. Næsta skref er að samþykkja að þetta sé raunverulega að gerast. Því það að vera með ímyndað ástand í hausnum á sér, sem er samt raunverulega að gerast, er það sem er erfiðast að samþykkja. En þegar ég er búin að samþykkja bæði, þá fyrst get ég get eitthvað í því.
Þá get ég hægt á mér, hægt á hugsunum, hægt á hjartslætti, látið axlirnar síga og náð andanum. Ástandið er nefnilega raunverulegt, ofhugsun, kvíði og hræðsla eru raunverulegt ástand, ekki bara eitthvað sem er ímyndun í höfðinu. Allt sem gerist í höfðinu er raunverulegt ástand. Það er eins raunverulegt fyrir mér, manneskjunni sem á hugsanirnar, eins og sólin og tunglið. Því allar tilfinningar sem ég upplifi eru raunverulegar fyrir mér. Allt sem ég hugsa er þar af leiðandi raunverulegt fyrir mér.
Fyrsta skrefið til að leysa úr þessu er þar af leiðandi komið. En það, að upphugsa lausn, þegar það er ofhugsun í gangi í höfðinu, er flókið verkefni. Ég þarf að búta niður fyrir mér, sortera og skipuleggja. Ákveða hvað eru mikilvægar hugsanir og hvað eru síður mikilvægar hugsanir. Geymi svo þessar sem eru mikilvægar og set þær til hliðar á meðan ég vinn með þessar sem eru síður mikilvægar, því það eru þær sem í raun þjóna engum tilgangi og eru í raun þær sem eru að þvælast fyrir.
Síður mikilvægu hugsanirnar eins og “ég get þetta ekki”, “ég kann þetta ekki” og “ég er ekki nógu góð í þessu”, eiga það sameiginlegt að innihalda orðið ekki. Þegar ég er búin að greina þær frá mikilvægu hugsununum þá vinn ég með það að taka orðið „ekki“ út úr þeim, en ef ég tek það bara út þá verður eftir tómarúm í hugsun, og tómarúm í hugsun býður uppá að hugurinn fylli uppí það tómarúm með annarri neikvæðri hugsun. Þannig að ég skipti því út, meðvitað, fyrir betri orð eins og „ég get þetta alveg“, „ég kann þetta eins vel og ég kann“ og „ég er alveg eins góð í þessu eins og ég þarf að vera“.
Það að stoppa ofhugsun, kvíða og hræðslu getur verið flókið verkefni en ekki ógerlegt og eina manneskjan sem getur stoppað er manneskjan sem er að upplifa tilfinninguna.
Höf. Jóhanna Ingólfsdóttir Nlp-markþjálfi