Maskar eru nauðsynlegir fyrir húðina alveg eins og við notum djúpnæringu í hárið. Andlitsmaskar eru öflugasta heimameðferð sem við finnum, sama hvort þeir eru heimagerðir eða keyptir í búð. Maskar eru öðruvísi uppbyggðir en andlitskremin og eru þróaðir til að smjúga dýpra niður í húðina og eru ríkir af virkum efnum.
Til eru mjög margar gerðir og ættu allir að geta fundið maska sem hæfir þeim. Gott er að eiga fleiri en einn maska til að nota til skiptis eða til að nota sitthvorn maskann á mismunandi svæði. Flestir eru með svokallaða blandaða húð sem þýðir að húðin er ekki alveg eins yfir allt andlitið, algengast er að húðin á svokölluðu T-svæði framleiði meiri fitu en á kinnum. Oft eru kinnarnar svo viðkvæmar og getur þá verið erfitt að finna maska sem hæfir öllu andlitinu og því gott að nota hreinsimaska á T-svæðið og svo raka- eða styrkjandi maska á kinnar. Gott er svo að setja maskann alveg niður hálsinn og jafnvel bringuna líka nema þú sért að nota hreinsimaskann, hann mundi ég einungis ráðleggja að nota á andlitið og svo dúmpa á bólur ef þær eru á hálsi eða bringu, við viljum ekki þurrka þetta svæði of mikið.
Mikilvægt er að nota ekki andlitsmaskann á augnsvæðið heldur vera með þar til gerðan augnmaska. Eins og augnkremin, eru augnmaskarnir öðruvísi uppbyggðir og eru framleiddir sérstaklega til að smjúga vel niður í hina þéttu, þunnu og fíngerðu húð sem er kringum augun.
Ef við byrjum snemma að hugsa vel um húðina, munum við búa að því seinna meir. Hreinsum húðina alltaf kvölds og morgna, notum gott raka krem og maska u.þ.b. tvisvar í viku.
Gangi ykkur vel!
Inga er fædd og uppalin í Reykjavík fyrir utan 2 ár sem hún bjó fyrir vestan í Bolungarvík. Þessi gifta, þriggja barna móðir er menntuð snyrtifræðingur og hefur unnið við það síðan 2006. Snyrtifræðin á stóran hluta af hug hennar og fagnaði hún þessu tækifæri að fá að skrifa greinar og jafnvel fá að aðstoða lesendur við vanda/spurningar sem þeir mögulega hafa.