Hér ber að líta öllu alvarlegri auglýsingu en þær sem hafa flögrað fyrir augum netverja og aðdáendum Ofurskálarinnar undanfarna daga, en tilkynningin hér að neðan – sem er áminning um alvarleika heimilisofbeldis – hófst sem REDDIT póstur frá fyrrum starfsmanni Neyðarlínunnar í Bandaríkjunum þar sem hann rakti neyðarsímtal sem hann segist aldrei munu gleyma.
Um er að ræða raunverulegt neyðarkall konu sem hringdi eftir hjálp en gat ekki greint frá aðstæðum. Svo hún laug. Í þeirri von að starfsmaður Neyðarlínunnar gæti lesið milli línanna og sent lögreglumenn á vettvang.
Nú hefur sjálft símtalið, sem má sjá hér í textaformi að neðan, verið gert opinbert og úr varð 30 sekúndna auglýsing sem keyrð var á auglýsingatíma Ofurskálarinnar – en myndbandið sjálft ber heitið NO MORE; LISTEN og er ógleymanlegt á að hlýða.
Þess má geta að No More eru samtök sem berjast fyrir aukinni vitundarvakningu almennings um alvarleika heimilisofbeldis og afleiðingar kynferðisofbeldis, en samtökin stóðu að baki birtingu auglýsingarinnar í auglýsingatíma Ofurskálarinnar.
Redditt notandinn, sem ber heitið Crux1836 sýndi fram á með deilingunni sjálfri að stundum eru það ekki orðin sjálf sem opinbera merkinguna – heldur það sem liggur undir orðunum sjálfum:
Ég tók á móti neyðarsímtali sem byrjaði alveg fáránlega, en var í raun og veru alveg grafalvarleg beiðni um hjálp:
911: Neyðarlínan – hvar ertu stödd?
Kona: 123 Main Street.
911: Ok, hver er staðan?
Kona: Gæti ég pantað pizzu heim … (frábært, annar símahrekkur)
911: En frú, þú ert að hringja í Neyðarlínuna.
Kona: Já, ég veit. Ég ætla að fá eina stóra með pepperoni á helming og sveppi og pipar á hinn helminginn?
911: Uh, þú veist að þú ert komin í samband við Neyðarlínuna, ekki satt?
Kona: Jú, ég veit. Hvað tekur heimsendingin langan tíma?
911: Ok, frú. Er allt í lagi þarna hjá þér? Er hættuástand hjá þér?
Kona: Já, einmitt.
911: … og þú getur ekki sagt mér hvað er að, því það er einhver annar inni í herberginu með mér? (Fattar loks hvað konan á við)
Kona: Já, það er rétt. Veistu hvað þetta tekur langan tíma?
911: Næsti bíll er í sirka 1.5 kílómetra fjarlægð frá þér. Eru einhver vopn á heimilinu?
Kona: Nei.
911: Geturðu haldið símtalinu gangandi með mér?
Kona: Nei. Þá segjum við það, takk.
Þegar konan lýkur samtalinu, renni ég yfir söguna sem er skráð í kerfinu og tengist viðkomandi heimilisfangi og sé að fjölmargar tilkynningar hafa borist lögreglu vegna heimilisofbeldis. Einmitt á þetta sama heimilisfang. Þegar lögreglumaðurinn mætir svo á staðinn verður þar fyrir honum par; en konan var talsvert lemstruð og bar sýnilega áverka sökum barsmíða en eiginmaður hennar var einnig á staðnum, drukkinn.
Eiginmaður konunnar var handtekinn þegar konan hafði sagt lögreglumanninum að hann hefði lagt á hana hendur það kvöld og að barsmíðarnar hefðu staðið yfir í talsverðan tíma. Mér fannst konan talsvert klók að snúa á ofbeldisfullan eiginmann sinn með þessum hætti og verð að segja sem er, að þetta er eitt af minnisstæðari símtölum sem ég tók á móti sem starfsmaður Neyðarlínunnar.
Hér má hlýða á raunverulegt samtalið sem var spilað á Ofurskálinni:
Tengdar greinar:
Lítt þekktar staðreyndir um nauðganir
Við höfum fengið NÓG af heimilisofbeldi
Niðurstaða gerir lítið úr upplifun konunnar – Lögfræðingur bloggar
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.