Konur hafa margar kynnst pressunni sem fylgir því að koma sér aftur í form eftir barneignir. Við erum allar misjafnar en það eru fáar konur sem eru komnar með sléttan maga degi eftir fæðingu, það tekur smá tíma, þó mislangan, að ganga til baka. Við göngum með barn í 9 mánuði sirka og það er bara eðlilegt að við verðum ekki eins og fyrir fæðingu á einum degi.
Mikið hefur verið fjallað um Katrínu hertogaynju bæði á meðgöngunni og nú þegar henni er lokið. Katrín kom af spítalanum stuttu eftir fæðingu þar sem hún var mynduð í bak og fyrir ásamt litla prinsinum. Katrín var stolt af barni sínu og líkama sínum en hún var ekkert að reyna að fela þá staðreynd að hún var að eignast barn og gekk eðlilega ekki út í gömlum gallabuxum af sér. Hún var einstaklega glæsileg en auðvitað þurfti einhver að tala um að hún væri nú á leið að grenna sig hratt. OK! Magazine birti forsíðufrétt um líkama nýbökuðu mömmunnar. Rætt var við einkaþjálfara hennar sem sagði: “Hún er í ótrúlega góðu formi – maginn á henni mun dragast saman fljótt!”
Fjölmiðlakonur hafa gagnrýnt forsíðu blaðsins og segja að þetta sé í besta falli óviðeigandi fréttaflutningur. Ein konan, Katy Hill birti mynd af líkama sínum tveimur mánuðum eftir fæðingu og hvatti aðrar mæður til að láta þrýsting sem þennan ekki hafa áhrif á sig.
Það er óraunhæft fyrir margar mæður að ætla að koma sér í topp form aftur á 2 mánuðum. Það eru ekki allar mæður sem hafa barnfóstrur og starfsfólk sem getur hjálpað þeim að koma sér í form. Er ekki mikilvægast að aðlaga sig að nýju lífi með barninu fyrstu vikurnar og rækta svo líkama og sál þegar tími gefst?