Við hjónin erum með dreng í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði og kom hann þangað frá skóla í Reykjavík árið 2011, þá 10 ára gamall. Honum gekk illa að fóta sig í skólanum í Reykjavík, svo illa að oft kom hann grátandi heim eftir skóla. Einelti, stríðni og fleira viðgengst því miður í skólum í dag og virðist sem sumir skólastjórnendur eigi erfitt með að kveða niður þann draug. Skólastjórnendur eru í mínum huga allir starfsmenn skólans, því það þurfa allir að koma að lausn þessa máls.
Í Hvaleyrarskóla er unnið vel með einelti og þeim málum sem upp koma er fylgt vel eftir.
Sonur okkar á við töluverða erfiðleika að etja, en hann er greindur með ódæmigerða einhverfu, mikinn athyglisbrest, þráhyggju og á einnig erfitt félagslega. Ofan á þetta allt saman er hann með Tourette, sem var á þessum tíma mjög slæmt.
Þegar hann byrjaði í Hvaleyrarskóla voru skólastjórnendur þegar búnir að afla sér upplýsinga um drenginn frá fyrri skóla og búnir að undirbúa kennara og bekkinn sem hann gekk í svo vel að drengnum fannst hann vera nánast heima hjá sér. Strax var óskað eftir stuðningsfulltrúa og hefur sonur okkar haft stuðning frá því hann byrjaði. Viðtökurnar voru hreint út sagt stórkostlegar og framfarir hans hófust fyrir alvöru.
Eineltið hvarf á fyrsta degi í Hvaleyrarskóla. Bekkjarfélagar vissu allt um strákinn sem var að byrja og því gekk syni okkar svo vel að aðlagast. Umsjónarkennari hans hefur síðan haldið einstaklega vel utan um drenginn og hennar þáttur er ekki hvað stærstur í velgengni hans.
Í dag erum við að sjá einkunnir sem við höfum aldrei séð og þorðum varla að vona, því frammistaða úr fyrri skóla lofaði ekki góðu. Tár láku niður kinnar foreldranna þegar einkunnarblaðið og umsögn kennara kom í fyrra og það voru svo sannarlega gleðitár.
Enn er þó töluvert í land hvað varðar getu í öllum námsgreinum, en þetta eru samt svo miklar framfarir á þessum stutta tíma.
Félagslegi þátturinn er að lagast hægt og bítandi og reglulega eru bekkjarfélagar í heimsókn hjá syni okkar og hann hjá þeim.
Besta dæmið um það hvernig syni okkar líður í dag, má lesa í ritgerð sem hann átti að gera heima um daginn og átti sagan að fjalla um einelti. Strákurinn okkar skrifaði sögu um dreng sem var strítt svo mikið í skólanum, svo mikið að hann langaði ekki út á morgnana, og hugsaði meira að segja um að taka eigið líf. Hann fluttist svo í annað sveitarfélag, byrjaði í nýjum skóla og eineltið hætti, og honum leið svo vel, síðasta setning ritgerðarinnar er á þessa leið: ,,Og loksins á ég vin.“
Stjórnendum Hvaleyrarskóla viljum við þakka fyrir einstaklega fagmannleg vinnubrögð og góða viðkynningu.
Börnunum þökkum við einnig fyrir það hversu vel þau hafa tekið syni okkar og eru þau honum bæði stoð og stytta.
Sigurður G. Gunnarsson
Hilda Bára