Ömmuhornið – dónaskapur í gamla daga

Amma, hvernig var þetta þegar þú varst stelpa- var það til í myndinni að menn áreittu lítil börn eins og í dag? (þegar börn eru beðin að koma upp í bíl hjá ókunnugum mönnum t.d.)

 

Já, já, þessi fjandi hefur fylgt mannkyninu eins lengi og sögur herma. Það er nefnilega ekkert nýtt undir sólinni! Þegar ég var að alast upp við Laugaveginn hélt fólk enn skepnur í Reykjavík. Víða voru kindakofar á baklóðum, hesthús voru þar líka og auðvitað þurfti hlöður fyrir heyið svo að nóg var af kofunum. Á baklóðinni þar sem Landsbankinn stendur nú við Laugaveg 77 var t.d. bæði kindakofi,  hesthús og hlaða og í þessum húsum margar skepnur. Okkur krökkunum þótti mjög gaman að vera innan um dýrin, áttum þar okkar vini og fengum að vera með. Allflestir eigendur dýranna voru bestu menn og á allan hátt góðir við okkur. Þó var í einum kofanum í hverfinu  maður sem hagaði sér illa við okkur, hafði ánægju af að bera sig og hrista göndulinn framan í okkur. Við sögðum foreldrum okkar af þessu og þau sögðu okkur að fara alls ekki í kofann til þessa manns. Ég man að pabbi sagði að hann ætti líklega að vera í þynnri buxum úr því honum væri svona heitt á typpinu. Þá hló mamma. Við fórum ekki í kofann og við vorum ekki hrædd.

Atvik alvarlegri en þetta komu svo sem fyrir. Líklega var björgun okkar á mínu heimili í því fólgin að við gátum sagt foreldrum okkar frá atvikunum bæði þau sem hentu okkur og vini okkar. Okkur var sagt að forðast viðkomandi, þetta væri líklegast óttalegur aumingi. Við værum hins vegar í lagi. Þetta held ég að hafi verið góð viðbrögð.  

Einhverju sinni um vor, þegar við krakkarnir í götunni vorum í hópleikjum tókst manni úr bakhúsinu heima að króa mig af í skoti- við vorum í feluleik- og upphóf hann þar gerðir sínar. Ég var 10 ára þegar þetta var, stór og sterk og viðbrögð mín voru fyrst og fremst reiði, alveg ægileg reiði. Það var ekki angi af hræðslu. Mér tókst að rífa mig lausa- með rifin föt og gargaði á krakkana að koma strax til mín. Og nú stjórnaði ég aðgerðum. Við stilltum okkur upp fyrir utan íbúð hans, sem var á jarðhæð og æptum ókvæðisorð inn til hans í vorblíðunni. Hæst bar þar orðið graðfoli sem ég stjórnaði að væri kallað því að ég hafði séð til fola í sveitinni. Oft tókst mér að ná saman hópi til að elta hann og kalla á eftir honum hvað  okkur fannst um hann og hegðun hans.

Þegar ég hugsa um þetta eftirá orðin fullorðin skil ég auðvitað að  sál mín var særð og mjög reið. En reiðin fékk útrás. Foreldrar mínir vissu af hefndaraðgerðum mínum en gerðu aldrei athugasemdir við þær, leyfðu mér að vinna úr reiðinni.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here