Ómskoðun á meðgöngu við 19 vikur hefur staðið öllum konum til boða frá árinu 1986. Öllum konum eldri en 35 ára hefur einnig verið boðin legvatnsrannsókn til litningagreiningar.
Allar ómskoðanir og litningarannsóknir eru þitt val.
Hvað er ómun?
Við ómun eru notaðar hátíðni-hljóðbylgjur , sem gera okkur mögulegt að skyggnast inn í vefi líkamans. Svarthvít sneiðmynd birtist á sjónvarpsskjá. Þéttir vefir (bein) birtast hvítir og vökvi (vatn) svartur. Aðrir vefir koma fram í ýmsum gráum tónum.
Ómtæknin gerir okkur kleift að skoða líffæri fóstursins mæla stærð, meta blóðrás og fylgjast með hreyfingum þess. Konan liggur á skoðunabekk og er geli dreift yfir kviðinn sem ómhausnum er strokið yfir og er það sársaukalaust fyrir konuna. Ómskoðun er skaðlaus móður og fóstri .Engu að síður er þetta rannsókn sem einungis á að gera þegar tilefni er til. Ljósmæður og læknar sem hafa sérhæft sig í fósturgreiningu og ráðgjöf til foreldra framkvæma skoðunina. Ómskoðanir eru framkvæmdar á Kvennadeild Landspítalans, Heilsugæslunni Akureyri, Akranesi, Ísafirði, Stykkishólmi, Vestmannaeyjum, Keflavík, Sauðárkróki, Neskaupstað, Seyðisfirði, Blönduósi og Selfossi.
Hver er tilgangur 19 vikna ómskoðunar?
- Að staðfesta meðgöngulengd og áætla fæðingardag.
- Að meta fjölda fóstra.
- Að staðsetja fylgju.
- Að skoða fóstrið með tilliti til heilbrigði þess.
19 vikna ómskoðun
Aldur fóstursins er áætlaður með mælingum á höfði, lærlegg og upphandlegg og væntanlegur fæðingadagur reiknaður út frá því. Aldursgreining á þessum tíma er nákvæm þar sem öll fóstur eru svipuð að stærð fyrstu 20 vikurnar. Fylgjustaðsetning er athuguð og legvatnsmagn metið. Ef fylgja er lágsæt eða fyrirsæt er staðsetning endurmetin síðar, oftast við 34 vikur. Fóstrið er skoðað nákvæmlega með tilliti til heilbrigði þess og einstök líffæri metin. Kyn fóstursins er oft hægt að greina en það er ekki gert nema óskað sé eftir því. Hægt er að kaupa myndir af fóstrinu en ekki myndbandsupptöku. Vinsamlega látið vita í upphafi skoðunar ef þið óskið eftir myndum. Skoðanir á öðrum tímum eru einungis gerðar samkvæmt beiðni frá lækni eða ljósmóður í mæðravernd.
Helstu ábendingar utan venjubundis tíma:
- Ef grunur er um afbrigðilega þungun á fyrstu 12 vikum t.d. vegna blæðinga eða verkja.
- Ef legbotn hækkar ekki samkvæmt mælingum eða móðirin þyngist ekki, getur það vakið grun um vaxtarseinkun, þá þarf oftast ómskoðun.
- Ef kona er með sykursýki, háþrýsting eða aðra alvarlega sjúkdóma sem geta haft áhrif á fylgjustarfsemi og fósturvöxt.
- Ef kona hefur áður fætt vaxtarseinkað barn.
- Í fleirburameðgöngu, en þá er aukin hætta á vaxtarseinkun.
- Ef grunur er um lágsæta eða fyrirsæta fylgju samkvæmt 19 vikna skoðun.
Ef fólk óskar nánari upplýsingar um ómskoðanir eða legvatnsástungur liggja bæklingar frammi á öllum heilsugæslustöðvum.