ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is
Ég sá frétt á DV núna um daginn sem fjallaði um mann sem var að stíga fram og segja frá kynferðisofbeldi af hálfu stelpu sem hann hafði lent í á menntaskólaaldrinum. Fyrir mér er þessi maður algjör hetja og á hrós skilið fyrir að manna sig upp í það að stíga fram og segja frá!
Mér blöskraði þegar ég las kommentakerfið undir þessari frétt og sá komment og umfjallanir um að þetta væri bæði fyndið og kjánalegt að vera að gera mál útaf þessu.
Eitt kommentið var: „Hvað er hann að væla, ég væri alveg til í að láta gellu totta mig þegar ég væri dauður í sófanum.“
Þetta er ekkert annað en fáfræði. Kynferðisofbeldi er aldrei fyndið og það er heimska að halda það.
Gerendur kynferðisofbeldis eru líka konur og þar af leiðandi eru þolendur líka karlmenn. Heimurinn er fullur af karlmönnum sem eiga við erfiðleika að stríða í daglegu lífi vegna kynferðisofbeldi sem þeir hafa lent í hvort sem það er af hálfu karlmanns eða kvenmanns. Þessir karlmenn loka sig kannski inni og detta í gríðarlegt þunglyndi og það er útaf fólki eins og þessum í kommentakerfi DV. Þeir þora ekki að stíga fram eða leita sér aðstoðar af því samfélagið hefur kennt okkur að það er „asnalegt“ að líða illa því kona hafi gert kynferðislega hluti við þá án þeirra samþykkis, það á ekkert að vera rangt við það.
Þroskumst upp úr þessum hugsunarhætti!
Sá sem stígur fram og segir frá þessari reynslu er miklu meiri maður og algjör hetja í mínum augum, miklu meira heldur en þeir sem hlæja og gera lítið úr þessu!