Orð geta líka meitt mig!

Að ala upp börn getur reynt á þolrifin hjá foreldrum.  Hér á landi hefur ekki tíðkast að “taka í” börnin eða beita þau einhvers konar líkamlegum refsingum eins og að slá þau utan undir eða rassskella þó það sé mjög algengt í öðrum löndum.  Það er nánast að öllu leiti fordæmt hér á landi og ekki viðurkennd uppeldisaðferð.  Það sem þykir algengara hér á landi er að barnið fær að gjalda afleiðinga sinna á annan hátt, sumir skamma, aðrir velja hljóðlátari aðferðir eins og hlé eða útaf.  Í hita leiksins má ekki gleymast að orð geta meitt, sært og rist djúpt þó það sjáist kannski ekki utan á barninu.  Orð geta haft mjög alvarlegar afleiðingar, leitt til þess að sjálfstraust barnsins minnkar og getur jafnvel skaðað samband barnsins við foreldrið.  Því er mikilvægt að uppalendur vandi sitt mál og orðaval við börnin ásamt því að æfa þolinmæðina.  Þó það geti reynst erfitt að leiðrétta sig, þá er mikilvægt að átta sig á afleiðingum orða sinna.  Hér eru nokkrir hlutir sem þú ættir aldrei að segja við barnið þitt og ástæður þess.  Lestu þá og hugsaðu þig tvisvar um ef þú lendir í erfiðum aðstæðum með börnunum.

 

Ég skal bara gera þetta – það er auðvelt að taka stjórnina af barninu ef verkefni sem barnið fékk gengur ekki vel eða óþarflega hægt, en ef þau fá ekki að æfa sig þá getur það leitt til þess að þau læri aldrei og vilji jafnvel ekki prufa sjálf.

Ekki gráta – börn ættu að geta tjáð tilfinningar sínar óhindrað.  Að segja barninu að hætta að gráta getur gefið til kynna að það sé óeðlilegt að tjá tilfinningar sínar með þessum hætti þegar það er fullkomlega eðlileg tjáningaraðferð.

Af hverju getur þú ekki hagað þér eins og…. – það er ekkert verra fyrir barn en að heyra að það sé ekki eins gott og duglegt og systkini eða félagi.  Foreldrar ættu frekar að einbeita sér að því að hrósa því fyrir styrkleika þeirra.

Ætlar þú virkilega að borða þetta? – Það er betra að tala við börnin sín á uppbyggilegan hátt um þeirra matarvenjur og hreyfingu.  Orðavalið getur gert gæfumuninn á því hvernig barnið sér líkamsmynd sína og þar með haft áhrif á sjálfstraustið.

Bíddu bara þangað til ______kemur heim! – Það er tvennt sem stingur í stúf hér.  Í fyrsta lagi þá verður barninu ekki refstað strax fyrir það sem það gerði og með því gefur þú barninu tækifæri til að halda áfram að haga sér illa.   Í öðru lagi þá lítur út fyrir að þú hafir ekki stjórn á aðstæðum og þurfir til þess hjálp.

Það er ekkert að þér – Smá skráma er kannski ekki mikið mál fyrir okkur fullorðna fólkið, en þetta getur verið það agalegasta sem hefur komið fyrir barnið.  Sýnið barninu umhyggju en ekki vera að gera meira úr þessu en þarf.

Ég lofa! – Þegar loforð eru brotin þá minnkar þú vægi orðanna og barnið treystir síður á þig.  Þú skalt því vara þig á því að taka svo stórt til orða jafnvel ef aðeins eru ofur litlar líkur á að það geti klikkað.

Þú þarft ekki að vera hrædd/ur – að segja barninu að vera ekki hrætt breytir ekki upplifun barnsins eða gerir það minna hrætt.  Talaðu heldur við barnið um hvað hræðir það og hjálpaðu því að komast yfir hræðsluna.

Ég hata þig líka… – á einhverjum tímapunkti lenda flestir foreldrar í því að barnið segir, “ég hata þig!” Passaðu þig að fara ekki sömu leið (…sumir foreldrar eiga það til!), segðu frekar ég mun samt alltaf elska þig.

Af því bara… – bara… er ekki svar!  Barnið sér ekki ástæðu til að hætta að haga sér á einhvern hátt ef það fær ekki útskýringu á því af hverju það á að hætta.

Þegiðu! – Þetta er harkalegt orð, svo er hægt að biðja barnið um að hafa hljóð á vingjarnlegri hátt, eða biðja það um að hvíla munninn og eyrun í smá stund 🙂

Heimild: Popsugar

 

Tengdar greinar: 

Nokkrar pottþéttar leiðir til að klúðra uppeldinu

Þolinmóðasti faðir heims gefur út nýtt uppeldismyndband

Sjálfstæðisbaráttan „Terrible two“ – 1. hluti

SHARE