Á morgun föstudaginn 26. október gefur hljómsveitin Nóra út sína aðra breiðskífu sem nefnist Himinbrim. Platan fylgir eftir fyrstu plötu sveitarinnar, Er einhver að hlusta?, sem kom út árið 2010 og hlaut afbragðsviðtökur. Upptökur stóðu yfir frá febrúar og fram í júlí í Orgelsmiðjunni, Stúdíó Sýrlandi og æfingahúsnæði hljómsveitarinnar og þær annaðist Magnús Árni Øder og hljómsveitin sjálf. Platan inniheldur 11 lög og er afrakstur tveggja ára vinnu en gríðarlegur metnaður hefur verið lagður í lagasmíðar, útsetningar sem og upptökur og er útkoman eftir því, platan þykir með eindæmum vel heppnuð.
Platan var meðal annars fjármögnuð í gegnum síðuna www.pledgemusic.com en þar bauðst aðdáendum sveitarinnar að heita á hana og kaupa nýju plötuna fyrirfram, ásamt öðrum vörum. Viðbrögðin voru framar vonum og söfnuninni lauk 3 vikum fyrr en áætlað var. Er von á að fleiri íslenskar hljómsveitir muni nýta sér þessa leið við fjáröflun í framtíðinni.
Til að fagna útgáfunni heldur Nóra hlustunarpartí á Faktorý við Smiðjustíg kl. 20.30 samdægurs og eru allir velkomnir. Platan mun rúlla á fóninum og veigar verða í boði meðan birgðir endast.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.