Undirrituð varð fyrir því að taka þetta líka ofurfallega flækjuspor sem endaði með því að vinstri ökklinn þríbrotnaði en sá hægri tognaði og marðist svona líka listrænt að það er leitun að öðru eins mari.
Undirituð tók upp á því að framkvæma þennan gjörning á fallegasta og kyrrlátasta stað landsins, þar sem ég og minn ekta karl ætluðum að njóta okkar alla leið og gista í 3 nætur í Djúpavíkinni.
Við náðum einni nótt, jebb og alveg frábærum kvöldmat.
Eftir fallið fallega var brennt á Hólmavík og ökklinn myndaður og í kjölfarið féll dómur læknis;
„Þú ert brotin og á leið suður í aðgerð“
Frábært! eða ekki…
Leiðin suður gekk greiðlega og bráðamótakan tók vel á móti mér enda læknirinn á Hólmavík búin að hringja og láta vita af komu drottningarinnar.
Ég ætla nú ekkert að fara þreyta ykkur með mjög ýtarlegum lýsingum af myndatöku og svoleiðis smámunum, nei ég ætla að lýsa því í smáatriðum hvernig settur var upp þvagleggur hjá mér!
Sjá meira: Er píkan mín í lagi?
Já ég er að meina það…. Það er góð saga!
Ég var alltaf að fá svona pissutilfinningu og alltaf verið að troða undir mig „bekken“, því ég gat hvorugan fótinn notað.
Ég upplifði mig pissa, fann bleytu og allt en aldrei piss í „bekken“!
Hjúkka sótti ómtæki og kíkti á þvagblöðruna sem var svo full að hún var eiginlega að springa, en í henni var yfir líter af þvagi!!
Skilaboð frá lækni: HÚN HEFUR UNNIÐ SÉR INN ÞVAGLEGG!
Bingó ég vann heilan þvaglegg með uppsetningu og viti menn, ekki bara með einni hjúkku heldur tveimur, hversu heppin.
Það er einmitt þarna sem sagan verður góð.
Ég, ber að neðan í sjúkrarúmi með brotin fót og hinn illa tognaðan. Hjúkkurnar koma mér í glennta stöðu, það þarf jú að finna þvagrásaropið sem er þarna fyrir neðan snípinn en ekki endilega svo sýnilegt. Það var frekar léleg birta í herberginu og ég lánaði annarri símann minn, en hann er með vasaljósi. Þarna eru þær tvær á kafi í klofinu á mér að leita af þessu blessaða þvagrásaropið með símann minn að vopni, ekkert gekk, þurfti betra ljós!
Önnur skaust að leita að vasaljósi og ég lá bara í þessari glenntu stöðu svo ég myndi nú ekki týna þvagrásaropinu alveg!
Hjúkkan kom til baka vopnuð vasaljósi og með þær upplýsingar að það væri dimmer á herberginu það þyrfti bara að ýta og þá yrði ofurbjart og viti menn það varð ofurbjart þegar hún ýtti á slökkvarann.
Aftur voru þær tvær á kafi í klofinu á mér (sem betur fer fór ég í sturtu um morguninn).
Leituðu og fundu, byrjuðu að troða leggnum inn um gatið en viti menn þetta var ekki gatið…. Nýr þvagleggur opnaður og leitin að gatinu komin á fullt og þá er bankað á dyrnar!
Yfirþvagleggshjúkka að tékka hvort hún þyrfti að aðstoða, nei þær fengu einn sjens og viti menn inn um þetta líka ofurfínlega þvagrásarop þræddist leggurinn og pissið fór sína leið!
Ég gat nú ekki annað en stungið upp á Rauðvínskvöldi þar sem við værum nú orðnar svo nánar að mínar bestu vinkonur hafa ekki komist svona nálægt mér.
Leggurinn er enn á sínum stað og þvagið rennur ljúflega nú þremur dögum seinna og kella bíður eftir aðgerð á ökklanum.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!