Þetta konfekt er algjörlega unaðslegt. Betri mola er varla hægt að hugsa sér með kaffinu. Þeir hreinlega æpa á mann að borða sig og þess vegna er gott ráð að fela þá vandlega í ísskápnum, að öðrum kosti hverfa þeir eins og dögg fyrir sólu.
Athugið að ef þið eruð hrifnari af hvítu súkkulaði en dökku getið þið notað einungis hvítt súkkulaði eða öfugt. Gætið þess að trönuberin (eða kirsuberin) sem þið kaupið séu án viðbætts sykurs en af því þau eru svolítið súr í eðli sínu þessi ber, eru þau oft sykurhúðuð. Athugið einnig að þið þurfið matvinnsluvél eða góðan blandara fyrir þessa uppskrift.
Innihald
Gerir um 25 konfektmola
- 100 g pistachiohnetur (ósaltaðar og ekki í skelinni)
- 100 g kókosmjöl
- 1 lúka þurrkuð trönuber eða kirsuber (án viðbætts sykurs), söxuð smátt
- 2 msk kókosolía
- 2 msk agavesíróp
- 2 msk hlynsíróp
- 35 g hvítt súkkulaði með hrásykri, saxað gróft og brætt
- 35 g dökkt súkkulaði með hrásykri, saxað gróft og brætt
Aðferð
- Setjið pistachiohneturnar í matvinnsluvél og blandið í um 10 sekúndur eða þangað til þær eru orðnar mjög fínmalaðar (eins og duft) en án þess að þær verði olíukenndar og klesstar. Setjið í skál.
- Bætið kókosmjölinu út í skálina og hrærið vel.
- Saxið trönberin smátt og setjið út í skálina.
- Saxið súkkulaðið gróft og setjið til hliðar.
- Hrærið saman agavesírópi, hlynsírópi og kókosolíu og setjið út í skálina. Hrærið vel saman.
- Setjið skálina inn í ísskáp í um klukkustund (eða frystinn í 30 mínútur) svo að blandan stífni aðeins.
- Þegar blandan er orðin svolítið stíf skuluð þið móta litlar kúlur með höndunum. Blandan er svolítið klístruð og því er gott að bleyta hendurnar með svolitlu vatni til að auðveldara sé að móta kúlur. Setjið kúlurnar á disk eða plötu með bökunarpappír og stingið í frystinn í 15 mínútur.
- Á meðan molarnir kólna alveg skuluð þið bræða súkkulaðið.
- Bræðið fyrst dökka súkkulaðið yfir vatnsbaði. Setjið svolítið vatn í lítinn pott. Setjið skál ofan á pott þannig að skálin sitji á brúnunum. Setjið súkkulaðið ofan í skálina og bræðið yfir vægum hita. Takið af hitanum og látið kólna eilítið (í um 15 mínútur). Setjið til hliðar.
- Setjið aðra skál ofan á pottinn og bræðið hvíta súkkulaðið.
- Takið kúlurnar úr ísskápnum eða frystinum og dýfið hverri og einni ofan í súkkulaði.
Gott að hafa í huga
- Nota má hvítt súkkulaði eða dökkt súkkulaði einungis ef ykkur líkar önnur hvor tegundin betur en hin.
- Nota má carob í staðinn fyrir súkkulaði en bragðið verður auðvitað ekki eins.
- Nota má mjólkurlaust súkkulaði ef þið hafið mjólkuróþol.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesírópið.
Birt með góðfúslegu leyfi Café Sigrún
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.