Pöddusveppur og svefnleysi

Mig langaði að segja ykkur sögu mína. Ég byrjaði að hugsa um heilsutengd málefni eftir að ég var búinn að vera að glíma við ofþyngd. Ég hafði reynt ýmis úrræði en ekkert virtist virka. Ég ákvað svo að breyta alveg um mataræði. Ég fór á hið svokalla hráfæði, þ.e.a.s ég hætti að borða unninn mat og mat hitaðan yfir 40 gráður. Og viti menn, þetta svínvirkaði. Á fyrstu 3 mánuðunum missti ég 40 kíló. Nú eru liðin 9 ár og ég hef allt í allt misst 60 kíló með þessum lífsstíl.

Ég hins vegar lét ekki þar við sitja. Mér fannst rosalega merkilegt hvað ég gat breytt líkamanum, útliti heilsu og vellíðan mikið með mataræðisbreytingum svo að ég fór að lesa mikið um mat, jurtir og fleiri heilsutengda hluti.

Einn daginn rakst ég á myndband á netinu þar sem fróður maður var að tala um kínverskar jurtir og spekina á bak við þær. Ég held reyndar að það sé búið að taka þetta myndband niður núna en í því var verið að ræða um áhrif kínverskra jurta á hina svokölluðu jing orku. Þessi maður talaði um að vandamál tengd blöðruhálskirtli tengdust oft skorti á jing orku í líkamanum, sérstaklega hjá eldra fólki sem átti víst að hafa minna af henni. Hann nefndi nokkrar kínverskar jurtir sem áttu að vera mjög jing-styrkjandi. Ein þeirra var Cordyceps. Cordyceps er mjög merkilegur sveppur sem vex meðal annars á hálendinu í Kína. Þetta er nefnilega pöddusveppur. Hann fer inn í líkama paddna og drepur þær smám saman og svo vex hann út um dauðan skrokk pöddugreysins. Í sögu Kínverja er mikil virðing borinn fyrir þessari jurt. Áhrifamáttur hennar þótti svo mikill að keisarinn í Kína dæmdi til dauða alla þá sem fundust með þennan svepp vegna þess að keisarinn vildi alla þessa örfáu pöddusveppi fyrir sjálfan sig.

Nýlega fundu vísindamenn leið til að rækta cordyceps út frá hrísgrjónum og er þetta þess vegna í dag mjög aðgengileg og ódýr jurt.

Cordyceps hefur margs konar virkni og hafa meðal annars kínverskir ólympíufarar á 10. áratug seinustu aldar þakkað sveppnum fyrir frækinn árangur sinn (sem er eitthvað sem ég held að íslenskir íþróttamenn ættu að skoða).

En svo við víkjum nú aftur að sögunni. Þannig var mál með vexti að karl faðir minn hafði um áratuga skeið búið við svefntruflanir. Hann gat aldrei náð djúpsvefni vegna þess að á 2 klukkutíma fresti þurfti hann að fara á klósettið. Hann er nefnilega með of stóran blöðruhálskirtil sem veldur óþægilegum þrýstingi og truflar svefn. Hann hafði hitt lækna og farið eftir ráðum þeirra en ekkert virkaði. Þannig að í yfir 2 áratugi hafði hann aldrei sofið út nóttina.

Þegar ég horfði á áður umrætt myndband á netinu setti ég 2 og 2 saman. Kannski myndi Cordyceps sveppurinn hjálpa blöðruhálskirtlinum hans. Á ferðalagi í Bandaríkjunum var ég staddur í heilsubúð og ákvað að kaupa 90 hylki af þessum svepp sem ég gaf honum þegar ég kom aftur á klakann. Hann samþykkti að prófa þetta þar sem það var svo sem engu tapað við að reyna.

Viti menn. Þetta virkaði. Hann var farinn að geta sofið stundum 10 klukkutíma í senn. Við vorum auðvitað lifandi fegnir að hafa loks fundið lausn á þessu. Það næsta sem gerist er að við kaupum meiri Cordyceps á netinu.

En þá kom babb í bátinn. Þegar varan var kominn í tollinn gerði Lyfjaskoðun hana upptæka og eyddi sendingunni. Þeir sögðu að þeir þyrftu meiri upplýsingar um sveppinn áður en þeir gætu leyft hann til innflutnings. Ég reyndi að verða við því. Ég fór á vef amerísku læknasamtakanna PubMed og fann þar 65 rannsóknir sem gerðar höfðu verið á þessum svepp. Engar þeirra sýndu fram á að Cordyceps væri hættulegt að neinu leyti. Ég sýndi þeim þessi gögn. Þeir sögðust ætla að skoða málið.

En sveppurinn er ennþá bannaður til innflutnings og faðir minn verður því bara að reyna að finna aðra leið til að sofa á nóttunum.

Þessum reglum vil ég að verði breytt. Þetta er spurning um grundvallarréttindi sem neytanda að geta borðað þær jurtir sem maður vill og sem maður hefur trú á. Þess vegna er ég meðlimur í samtökunum Heilsufrelsi.

Reynslusaga eftir Davíð Ragnarsson

Þessi grein birtist upphaflega á Heilsufrelsi.is og er birt með leyfi.

Screen Shot 2014-11-24 at 16.06.43

 

Tengdar greinar:

Saga af mjólkurofnæmi ungrar stúlku

Krabbameinstíðni tvöföld á erfðabreyttum ræktarsvæðum 

Eru lífræn matvæli hollari en önnur?

SHARE