Dísætt hunang hefur löngum verið talið fæða guðanna. Guðdómlegt bætiefni í andlitsmaska, hörundsmýkjandi efni og svo einnig bráðhollt að mati heilsusérfræðinga.
En hvernig fer þegar hunangi er hellt yfir naktar fyrirsætur af báðum kynjum og ýmsum stærðum? Hvað gerist þegar ljósmyndari nokkur fær þá hugdettu að láta flytja 900 sneisafull ílát af dísætu, ólseigu og lífrænu hunangi til þess eins að láta aðstoðarmenn sína hella úr fötunum yfir nakta líkama svo hann geti myndað útkomuna?
Þeirri spurningu svarar verðlaunaljósmyndarinn Blake Little í nýútkominni ljósmyndabók sinni, sem ber nafnið PRESERVATION en þar má sjá hvað gerist þegar viðfangsefnin eru mótuð í hunang – ef svo má að orði komast.
Í myndbandinu hér að neðan má einnig sjá hvernig myndatökurnar fóru fram, en þar segja fyrirsæturnar sjálfar með eigin orðum hvernig tilfinning það er að vera þakin hunangi … og engu öðru.
Kalt. Hunangið var ískalt viðkomu. Fyrst fór hrollur um allan líkamann. Svo var eins og hunangið hlýnaði við hörundið og skyndilega fannst mér eins og ég væri þakin silkimjúkum verndarhjúp. Það var mjög sérstök upplifun að vera þakin hunangi og mynduð nakin undir öllu hunanginu í bak og fyrir.
PRESERVATION kom út í takmörkuðu prentupplagi fyrr á þessu ári og eru eintök óðum að seljast upp, en hér má sjá magnað ferlið að baki myndatökunni sjálfri þar sem sjá má upplifanir þeirra sem sátu fyrir í máli og myndum:
Sjá einnig: DIY – Ertu með viðkvæma húð þá er hunang svarið fyrir þig
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.