Ég þreytist aldrei á því að bera íslenskuna fram. Mér finnst svo hryllilega fyndið að heyra útlendingana basla við orðin. Svo bý ég auðvitað erlendis – rétt eins og mér dreymdi um sem barn – og tala tungumál sem enginn skilur.
Ég er að vinna með einum grískum. Voða hressum dreng sem sagði mér í trúnaði fyrir stuttu að hann hefði eytt heilum degi fyrir framan YouTube, þar sem hann æfði íslenska framburðinn og stautaðist við að læra orðið E Y J A F J A L L A J Ö K U L L.
Svo bar hann orðið fram, hreykinn og stoltur með óaðfinnanlegum framburði.
Iss, þetta er ekkert – svaraði ég. Prófaðu að segja U M F E R Ð A R Ö N G Þ V E I T I.
Svo tók ég sopa af kaffinu með táknrænu handapati, hallaði mér aftur og þagði.
Traffic Jam – útskýrði ég svo letilega. That’s how we say it back home.
Já, já. Ég hef bara svona létt gaman að þessu. Manninum langar ægilega að fara til Íslands og yfirveguð á svip samþykkti ég að veita honum upplýsingar um land og þjóð í skiptum fyrir leiðargögn um grísk ferjufyrirtæki. Lofaði meira að segja að hnýta nokkrar vel valdar þjóðsögur aftan við ef hann aðeins gæti bent mér á afdankaða jazzbúllu í Aþenu og sagt mér nafnið á smábátahöfninni – svona ef vera skyldi að ég álpist fljótlega til að festa kaup á flugmiða til að bera Akrópólis augum.
Fyrir stuttu spurði hann mig út í íslenska vorið. Ég sagði ekki orð. Stuttus seinna sendi honum þessa mynd:
.
.
Sjálfri finnst mér þetta allt ægilega fyndið. Enda stórskemmtilegt að hlýða á mjúkmælta útlendingana staulast gegnum hljómsterka íslenskuna – eitt orð í einu – og hrósa happi í hvert sinn sem þeir hnýta setningu saman.
Ekki er ég nokkru betri á erlendum tungumálum.
Þetta lærist manni sem útlending í öðru landi. Að upplýsingar um fóstjörðina eru gulls ígildi – að fátt jafnast á við hreina innsýn í annars fjarlæga menningarheima og spjall yfir kaffibolla sem snýst um tilgerðarlegan framburð á erlendri þjóðtungu sem enginn botnar í nema örfáir.
Þannig verð ég brátt aðhlátursefni suður-Evrópubúa, hygg á heimsókn til Spánar yfir páskana og í framhaldinu ferðast ég til Frakklands með Rassa sposkan á svip að venju. Tek með mér frasabók, geri mig að fífli á fyrsta degi og hlæ svo að öllu seinna meir.
Ef í hart fer hreyti ég íslensku í heimamenn og hugsa til Grikkjans sem lærði að bera fram E Y J A F J A L L A J Ö K U LL til þess eins að reka augun í það næsta, eftir sólarhringslegu yfir YouTube þar sem hann stúderaði afdönkuð íslensk staðarheiti í þaula.
U M F E R Ð A R Ö N G Þ V E I T I er yndislegt orð. Ef tungumál eru í raun lykillinn að heiminum, eins og hann afi minn sagði forðum daga – hlýtur óbilandi hlátur að leynast bak við hverja þá hurð sem orðin ljúka upp.
Tengdar greinar:
Guði sé lof að nær enginn skilur íslensku!
„Ég er í leik við vini mína; að negla konur frá öllum þjóðríkjum“
„Nei, ég bý erlendis …“
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.