Public House Gastropub er nýr veitingastaður á Laugaveginum. Ég smellti mér þangað ásamt vinnufélögum mínum fyrir stuttu og almáttugur minn – þvílíkt og annað eins samkvæmi fyrir bragðlaukana. Andrúmsloftið á staðnum er virkilega skemmtilegt. Dimmt og dálítið þungt en samt svo notalegt. Þig langar ekkert heim aftur. Alls ekkert. Þig langar heldur ekkert að elda í þínu eigin eldhúsi aftur. Bara borða þarna. Alla daga. Alltaf.
Við hófum leikinn á bjórsmökkun. Eins og fólk gerir í hádeginu á föstudegi. Public House er með 10 bjóra á krana. Hvorki meira né minna. Og þú getur fengið smakk af þeim öllum. Himnaríki bjórunnendans. Eða bjórsvelgsins, eins og í mínu tilviki.
Maturinn, ó maturinn. Fólk var farið að gefa okkur hornauga. Þarna sátu sex fullorðnir einstaklingar emjandi og stynjandi. Otandi mat að hvort öðru, sleikjandi fingur og strjúkandi vömbina. Matseðilinn einkennist af smáréttum og er mælt með því að fólk panti sér 2-5 rétti. Við pöntuðum örugglega allt á matseðlinum. Eða svo gott sem. Það var föstudagur. Allt var leyfilegt.
Ég get einfaldlega ekki mælt nógsamlega með þessum stað. Og er ég handviss um að samstarfsmenn mínir séu sammála mér. Bragðið, framsetningin, ferskleikinn – 12 stig.
T Ó L F S T I G !
Public House Gastropub á Facebook
Heimasíða Publie House Gastropub
Public House Gastropub á Instagram
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.