Mexíkóskar pönnukökur bjóða upp á endalausa möguleika fyrir allar máltíðir dagsins. Það má smyrja þær með hverju sem er og áleggið getur verið það sem hugurinn girnist. Á mínu heimili eru þessar pönnukökur álíka nauðsynlegar og klósettpappír, hnetusmjör og geisladiskar með Bubba. Hlutir sem verða að vera til staðar. Alla daga. Alltaf.
1 stykki mexíkósk pönnukaka
rjómaostur
bláber (frosin)
1 banani
kókospálmasykur/púðursykur/hrásykur
kókosflögur
Smyrjið pönnukökuna með rjómaostinum. Það er bannað að spara hann. Þykkt lag af osti hefur jú aldrei drepið neinn. Skerið bananann í sneiðar og raðið þeim á hálfa kökuna. Smellið fáeinum bláberjum yfir sama helming. Stráið kókospálmasykri og kókosflögum yfir herlegheitin. Lokið pönnukökunni og steikið hana á vel smurðri pönnu þar til hún verður gyllt á lit.
Í raun má nota hvaða sykur sem er. Ég er lítill sykursnobbari og stendur nokkuð á sama um hvernig minn sykur er á litinn. Ástæða þess að kókospálmasykur varð fyrir valinu er einfaldlega sú að ég fann slíkan poka inn í skáp hjá mér síðast þegar ég eldaði þessa quesadillu. Ég veit ekkert hvaðan hann kom. Hef mig þó grunaða um að hann hafi fokið ofan í körfuna hjá mér í einu hollusturallýinu í gegnum Bónus. Slík rallý tek ég á mánudögum. Ég er krónískur mánudagsmegrari.
Skora á ykkur að prófa þessa. Hún er algjört hnossgæti.
Tengdar greinar:
Mexíkósk tortillapizza með kjúklingi
Mexíkóskur brauðréttur – Uppskrift
Tortillur með kjúklingi, mangó salsa og lárperusósu – Uppskrift
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.