Engifer er æðislegt að mínu mati. Það er gott í mat og í þeytinginn og jafnvel bara eitt og sér, þó það sé frekar sterkt. Ég bý stundum til engiferskot heima og frysti svo í klakapoka. Algjör snilld.
Engifer getur hjálpað við ótal margt. Það getur bætt meltinguna, dregið úr bílveiki og morgunógleði. Það er einnig talið geta minnkað líkurnar á of háum blóðþrýstingi, MS, heilablóðföllum og hjartaáföllum. Það getur meira að segja hjálpað þér að grennast.
Sjá einnig: Húsráð: Hvernig er best að flysja engifer?
Það sem ég var hinsvegar bara að komast að núna er að maður getur ræktað sitt eigið engifer. Það tekur smá tíma en það er samt ekkert mál þegar maður byrjar.
Þú gerir þetta svona:
Veldu lífrænt ræktað engifer til að rækta með. Þú borgar aðeins meira en þá ertu að fá allar olíur og öll efni sem eiga að vera í engifer.
- Láttu engiferrótina liggja í vatni í eina eða tvær nætur þannig að hún fari að spíra.
- Hvort sem þú setur rótina í jörðina eða í pott þarftu að passa að moldin sé rosalega góð, jafnvel að setja smá áburð í hana líka. Láttu rótina í pottinn/moldina og svona 3 cm af mold yfir. Láttu spírurnar snúa upp. Hafðu hana á björtum stað en ekki í beinu sólarljósi.
- Engifer þarf mikinn raka svo moldin má ekki þorna alveg. Það má heldur ekki vökva það of mikið svo það er best að nota spreybrúsa í þetta.
- Ef þú ert að rækta innan dyra er sniðugt að „tjalda“ yfir pottinn svo rakinn haldist sem best.
- Potturinn ætti að vera á hlýjum stað, í glugga við ofn helst.
- Úðaðu á engiferið daglega svo það fái nægan raka.
Sjá einnig: Kunnið þið að skræla engifer?
Eftir nokkrar vikur ættirðu að sjá fyrstu laufin fara að birtast og eftir 8- 10 mánuði ættirðu að geta dregið úr vökvuninni. Það er best að taka upp engiferið þegar laufin verða gul. Ef þú ert með engiferið í potti, geturðu sturtað úr pottinum og valið þau engifer sem þú vilt og sett svo restina í pottinn aftur og haldið áfram að rækta.
Heimildir: smarticular.net
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.