Ræktin: Af hverju gengur þetta ekki upp?

Tvær sárar staðreyndir viðkoma því ferli að koma sér í form. Fyrsta staðreyndin er sú að viðkomandi þarf að taka til í mataræðinu og leggja mikið erfiði á sig í ræktinni. Þetta er erfitt ferli, óþægilegt. Tekur tíma og krefst fórna. Sársaukinn getur orðið svo óbærilega mikill sökum harðsperra fyrstu vikurnar að flestir ganga um geispandi og gólandi, geta ekki beðið eftir því að dagurinn endi svo hægt verði að fara heim og slaka á.

Þetta á að sjálfsögðu aðeins við um vinnudaginn og sjálfa ræktina. Enn á eftir að hugsa um allt sem eftir á að gera heima fyrir (taka til, þvo þvotta, elda mat o.sv.frv.) Ofan á allt annað kemur svo allt upplýsingaflæðið sem varla sér fyrir endann á og virðist ekki koma að miklu gagni nema auka við ákveðna grunnþekkingu.

Paleo eða Atkins? Carb-Back Loading eða Ketosis? Danski kúrinn eða ráðleggingar Lýðheilsustofnunnar? Er nokkur furða að fólk sé ruglað í ríminu! Staðreyndin er sú að meirhluti þeirra sem “vill komast í form” gefst upp á miðri leið, mistekst á leið sinni að markmiðinu. Þetta þykir okkur þjálfurum vera sorgleg staðreynd og sjáum gerast á fjölda námskeiða hvert ár. Allt frá þeim sem ráða sér einkaþjálfara með tilheyrandi kostnaði og til þeirra sem sækja hin og þessi bumbunámskeið. Alltaf kemur þetta niður á það sama.

Þetta virkar einfaldlega of sjaldan!

En af hverju? Það veit ég og byggi þar á reynslu fjölda einstaklinga. Oft er talað um að hugurinn beri mann hálfa leið. Utan þeirra örfáu og stálheppnu sem virðast geta lést án fyrirhafnar eða geta hreinlega ekki fitnað, þá ná þeir árangri umfram okkur hin sem eru með hugarfarið í lagi.

Þetta ER hugarfarið.

Enginn kemst upp með árangur án þess að hafa fyrir hlutunum. Þriggja mánaða átak varir í þrjá mánuði. Ekki í þrjár vikur. Það er ekkert mál að hefja átak, en það er töluvert erfiðara að halda höfði til lengri tíma. Það er talsvert erfitt að fórna eigin þægindum með langtíma markmið í huga. Hafið í huga að þegar þriggja mánaða átaki lýkur, að því gefnu að allt hafi gengið vel, þá er ferðalaginu hvergi nærri lokið. Heilsurækt er lífsstíll og enginn á skilið að detta í “nammið og ruslfæðið” þegar formlegu átaki lýkur. Þrír mánuðir nægja ekki til að umbreyta lífi þínu til hins betra.

Markmið með átaki er bættari og heilsusamlegri lífsstíll og hann öðlast enginn á þremur mánuðum. Þetta ER erfitt og þó það verði aðeins auðveldara þegar á líður, þá er ferlið samt erfitt. Hvers virði væri ferlið ef svo væri ekki?

En hvað skilur íþróttafólk frá hefðbundnum einstaklingum sem hafa það eitt að markmiði að grennast? Svarið við þeirri spurningu er einfalt: Það er sjálft hugarfarið. Það er hugarfar íþróttafólks sem er afar aðdáunarvert. Það þarf ekki að sannfæra iþróttafólk um að hnébeygjur séu betri en fótapressa, eða að róður með stöng skili meiru í hús en tvíhöfðaæfingar með örlítilli þyngd sem framkallar ekki einu sinni svita. Og þetta á við um bæði kynin.

Það sem skilur að einstaklinga í hefðbundinni styrktarþjálfun og íþróttafólk er þetta: Íþróttafólkið gerir það sem gera þarf og hefur nær alltaf langtímamarkmið í huga. Íþróttafólkið “heldur haus” og keyrir sig áfram. Er óhrætt við að fara inn í erfiðu æfingarnar og einbeitir sér fyrst og fremst að því sem virkar óháð hversu erfitt það er, en ekki auðveldu æfingunum sem skila svo til engu þegar til lengri tíma er litið. Íþróttafólkið einbeitir sér að þeim þætti æfingana sem skila mestum árangri, en ekki þeim æfingum sem eru þægilegar og auðveldar í framkvæmd.

Íþróttafólkið fetar erfiðu leiðina því þyngri æfingarnar skila alltaf meiri árangri en þægilegu æfingarnar.

Hér er ég ekki að segja að einstaklingar í yfirþyngd sem sinna skrifstofuvinnu eigi allt í einu að spretta inn í tækjasal og byrja að lyfta eins og aflraunafólk. Eða að þeir sömu eigi að fara inn á næsta frjálsíþróttasvæði og æfa eins og spretthlauparar. Alls ekki. Til er millivegur sem er mikilvægur. Það að skipta út fótaréttum og fótabeygjum fyrir framstig, hnébeygjur og réttstöðulyftur – 30 – 40 metra spretthlaup (og hér meina ég SPRETTHLAUP) getur gert gæfumuninn. Skiptu út þægilegu tví- og þríhöfðaæfingunni fyrir standandi axlapressu, armbeygjur á gólfi (ekki fara á hnén), bekkpressu, upphífingum / niðurtogi, róðraæfingum o.sv.frv. Hættu að hanga á stigvélinni, jórtrandi tyggjó og horfa á sjónvarpið í leiðinni. Haltu frekar höndunum að þér og fáðu púlsinn verulega hátt upp í stuttan tíma, náðu honum svo niður aftur og endurtaktu ferlið alloft.

Í stuttu máli: Farðu ERFIÐU leiðina. Sú leið brennir fleiri hitaeiningum og er skemmtilegri viðureignar þegar þú hefur náð tökum á kerfinu. Erfiða leiðin skilar einfaldlega meiru í hús en auðvelda æfingavalið.

Óháð því hvaða æfingakerfi verður fyrir valinu þarftu alltaf að hafa í huga að þú þarft að taka á því. Í kraftlyftingaheiminum er oft sagt að maður eigi að ganga ferskur og sterkur inn í salinn og koma ferskur og sterkur út úr salnum aftur. Þegar kemur að fitubrennslu og að koma líkamanum í form er önnur formúla uppi á borðum. Þar gildir að ganga ferskur inn í salinn og ganga vel þreyttur út að loknum æfingum.

Í byrjun má reikna með að þú þurfir líka að fara dauðþreyttur, illa fyrirkallaður og með harðsperrur víða um líkamann, inn í salinn og að þú gangir út klukkustund seinna í sambærilegu ástandi. Þannig er æfingaferlið einfaldlega í byrjun. Það eru þeir einstaklingar sem geta haldið þessum takti til lengri tíma sem átta sig á því að ofurerfiðu dögunum fer fljótt fækkandi, að ánægjan verður meiri og að metnaðurinn fyrir góðu mataræði eykst í samræmi. Að sjálfsögðu verður svo árangurinn eftir því.

Svo uppsker maðurinn sem hann sáir. Þetta er ekkert flóknara en það.

SHARE