Forvarna- og fræðslusjóðurinn ÞÚ GETUR! stendur fyrir tónleikum þann 15.september næstkomandi. Tónleikarnir verða haldnir í Elborgarsalnum í Hörpunni og munu margir af okkar bestu tónlistamönnum koma fram. Listamennirnir sem koma fram hafa lagt verkefninu lið og gefið störf sín og veitt af list sinni af gleði og örlæti. Meðal þeirra sem koma fram eru Högni Hjaltalín, Ný Dönsk, Ari Eldjárn, Kristján Jóhannson, Páll Óskar, Björgvin Halldórsson, Hera Björk og Fjallabræður.
Sjóðurinn hefur það markmið að:
Styrkja þá til náms sem orðið hafa fyrir áföllum eða hafa átt við geðræn veikindi að stríða.Efla þjónustu við geðsjúka á sviði fræðslu og forvarna.Draga úr fordómum gegn geðsjúkdómum.
Eins og við flest vitum valda áföll og áhyggjur þjáningum og geta orsakað veikindi og skerðingu á getu. Það er mikilvægt að fjalla um geðræna vanlíðan og fordóma gegn geðsjúkdómum. Álagstengda vanlíðan má með ýmsum ráðum bæta og góð meðferðarúrræði eru til gegn geðrænum veikindum. Að auki eru fræðsla og opin umræða mikilvægir þættir til forvarna og samstöðu.
Gott teymi heldur utan um starfsemina
Stofnandi sjóðsins er dr. Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir og í stjórn sitja auk hans, Ása Ólafsdóttir hrl., lögmaður, Siv Friðleifsdóttir alþingismaður og f.v. heilbrigðisráðherra, sr. Pálmi Matthíasson sóknarprestur í Bústaðasókn, dr. Sigurður Guðmundsson f.v. forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og f.v. landlæknir og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Landsvirkjunar og f.v. dómsmálaráðherra.Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir er framkvæmdastjóri ÞÚ GETUR! Í undirbúningsnefnd tónleika eru einnig Jóhann Björn Ævarsson tónlistarmaður og Friðgeir Bergsteinsson. Ég ræddi við Ragnheiði Guðfinnu um þetta flotta framtak.
Í raun kviknar hugmynd á milli mín og Ólafs Þórs Ævarssonar geðlæknis að láta draum hans verða að veruleika. Hann hafði alltaf langað að styðja fólk til náms sem hafði glímt við geðræn vandamál að einhverju tagi. Settir voru saman mjög flottir tónleikar í Háskólabíó árið 2008 og frá þeim degi hefur ekki aftur verið snúið og sjóðurinn bara stækkað og komist meira í vitund almennings. Sama ár var ég að byrja á mínu fyrsta ári í Sálfræði við Háskóla Íslands og á þetta verkefni nú hug minn allan.
Geðræn veikindi eru orðin ofboðslega algeng og ég hugsa að flestir þekki einhvern sem er að glíma við eða hefur glímt við geðsjúkdóm að einhverju tagi. Þetta málefni er komið meira á yfirborðið í umræðu og umfjöllun innan samfélagsins.
Flest þekkjum við þá tilfinningu að finna fyrir kvíða eða eiga erfiða daga þar sem við erum döpur. Ragnheiður bendir réttilega á það að þegar fólk er með geðsjúkdóm geta einkennin farið að hamla daglegu lífi fólks.
Hver kannast ekki við að detta í depurð eða vera á nálum vegna kvíða? Þetta er allt náteng geðrænni heilsu okkar en í tilfellum sem geðsjúkdómur á sér stað eru þessi einkenni farin að hamla daglegu lífi fólks.
ÞÚ GETUR LÍKA!
Fræðsla fyrir aðstandendur um geðheilsu og geðsjúkdóma
Forvarna- og fræðslusjóðurinn ÞÚ GETUR! og Endurmenntun Háskóla Íslands hafa tekið höndum saman varðandi vandaða fræðslu um geðsjúkdóma undir heitinu Þú getur líka! sem er sérstaklega ætluð aðstandendum geðsjúkra en er þó opin öllum sem áhuga hafa á viðfangsefninu. Helstu sérfræðingar landsins í hverjum sjúkdómaflokki taka þátt og kenna þeir allir í sjálfboðavinnu.
Geðsjúkdómar eru algengir, valda vanlíðan og stundum truflun á getu hjá einstaklingunum. Við flestum þeirra eru til góðar meðferðir og eflingarmöguleikar. Geðsjúkdómar geta líka valdið miklu álagi á aðstandendur. Fræðsla um eðli sjúkdómanna, viðbrögð gegn veikindum, hvatning til eflingar og upplýsingar eru lykilatriði til stuðnings aðstandendum
Með þessu samfélagsverkefni vilja Endurmenntun HÍ og Forvarna- og fræðslusjóðurinn ÞÚ GETUR! leggja sitt af mörkum til að styðja við aðstandendur geðsjúkra.
Fyrirlestrarnir verða mánaðarlega og fara fram á fimmtudagsdagskvöldum í vetur. Fræðsludagskrá verkefnisins og tímasetningar má finna á www.endurmenntun.is. Þátttökugjald er 2000 krónur hverju sinni.
Skráning á fyrirlestrakvöldin fer fram hjá Endurmenntun á endurmenntun.is eða í síma 525 4444.