Og þá að dónalegustu frétt dagsins, en samkvæmt óyggjandi niðurstöðum nýlegrar rannsóknar galopnast hlið klámfenginna skilaboða upp á gátt alla þriðjudagsmorgna og streyma glaðlyndisleg út í veröldina allt fram að hádegi þann sama dag.
Hafir þú þar af leiðandi, eða einhver þér kunnugur, flissað undarlega laumulega ofan í farsímann á vinnustaðnum í dag – eru allar líkur á því að þriðjudagsfarsóttin alræmda hafi læst klónnum í innhólfið.
Rannsókin sjálf, sem framkvæmd var af hátæknifyrirtækinu Retina-X Studios, sem sérhæfir sig í þróun njósnabúnaðar fyrir harða diska, spjaldtölvur, farsíma og fleiri raftæki, tók á siðvenjum tæplega 5000 notenda og greindu gögnin sem leiddi í ljós að mesta magn klámfenginna skilaboða eiga sér stað á þriðjudögum fyrir hádegi; nánar tiltekið milli kl. 10 og 12.
Þetta kann að virðast undarlegt í fyrstu en við nánari skoðun er jafnvel ekki svo óvarlegt að áætla að kynhvöt meðalmannsins sé í hámarki á umræddum tíma. Þannig kemur ritstjórnarfulltrúi vefsíðunnar Jezebel, sem einnig fjallar um málið – með þá athyglisverðu kenningu að meðan raftækin hvíla lúin bein í öryggi heimahúsa og eigendur þeirra njóta líkamlegra atlota um helgar, marki mánudagar einfaldlega of lýjandi upphaf hverrar vinnuviku til að nokkur finni sig knúinn til að senda kynferðisleg skilaboð til annarra notenda, en að miðvikudagar feli í sér of mikið vinnuálag til að daður geti komið til greina. Þriðjudagar hljóti því að marka miðju vikunnar, örlitla hvíld frá daglegu amstri sem nota megi í daður og dufl á netinu.
Þá leiddi hin athyglisverða könnun einnig í ljós að iPhone notendur eru helmingi líklegri til að senda slík skilaboð en Android notendur, hvað sem það nú kann að merkja.
Engum sögum fer af því hvort könnun Retina-X Studios hafi farið fram eftir löglegum boðleiðum, en sú spurning sem stendur eftir er væntanlega: Hefur þú litið í innhólfið þitt í dag?
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.