Ég myndi flokka mig hiklaust undir staðalímynd rauðhærðs einstaklings. Ég er með rautt hár, freknur, föla húð og við smá sólarglætu grillast húðin á mér mjög hratt. Þrátt fyrir þessa örðugleika læt ég fátt stoppa mig í að nýta flesta sólardaga í útiveru, í von að fá lit á kroppinn þar húðin á mér er yfirleitt eins og kríuskítur eins amma mín orðar það.
Á mínum yngri árum var ég duglegri við að ná mér í sólbruna þar sem ég var krakki og pældi voða lítið í afleiðingunum af langri útiveru án þess að setja á mig einhverja vörn. Sem betur fer lærði ég af mistökunum mínum þar sem Aloe Vera kostnaðurinn var kominn upp úr öllu valdi. Ég varð bara að sætta mig við það að ég kemst ekki upp með það að leika lausum hala í óhindruðu sólarljósi.
Þetta er ákveðið „balancing act“, þetta með sólarvörnina því þegar fór í útskriftarferðina mína með Verzló þá var ég svo iðin við sólarvörnina að ef eitthvað er þá kom ég hvítari heim.
Í dag þykist ég hafa lært af reynslunni enda orðin 24 ára en samt eiginlega ekki þar sem ég brann síðast í síðustu viku í sundi. Ég ætla allavega að trúa því að ég sé búin að læra af allri sólbruna reynslunni og einum sólsting að ég komist í gegnum þetta vonandi sólríka sumar nokkuð heil á húð, mögulega með létta brúnku og helling af sólarvörn.
Kristín Helga er óumdeilanlega mesti Kardashian aðdáandi Íslands og nærliggjandi landa. Hennar heitasta ósk er að vera vinkona Khloe Kardashian.
Hún hefur áhuga á öllu mögulegu og þar á meðal að lesa og skrifa um fræga fólkið í Hollywood.