Um þessar mundir erum við að birta litlar greinar um konur án farða. Okkur langar að vekja fólk til meðvitundar um hvað er raunverulegt og hvað eru glansmyndir. Áhrifavaldar birta myndir af sér, sem líta út fyrir að vera teknar án mikils undirbúnings og eru samt sem áður fullkomnar. Ungar stúlkur, sérstaklega, hafa óraunhæf viðmið um fegurð og hvað er venjulegt. Það er án efa erfitt að ímynda sér hvernig gullfallegt fólk getur verið myglað á morgnana, með stírur, koddafar og þornað munnvatn í munnvikunum. En sannleikurinn er sá, að við erum öll venjulegt fólk. Við erum með slit, hrukkur, appelsínuhúð, bauga, inngróin hár, húðþurrk, skelfilega hárdaga og fílapensla.
Við höfum nú þegar birt myndir af Evu Ruzu og Brynju Dan og nú er komið að hinni gullfallegu Marín Möndu.
Marín sagði okkur að hún færi örsjaldan ómáluð út:
„Það er kannski aðallega snemma á morgnanna þegar ég skutla dætrunum í skóla og leikskóla. Ég mála mig fyrir sjálfa mig, því mér líður betur þegar ég er smá tilhöfð og búin að setja á mig andlit.“
Marín segist ekki endilega mála sig mikið, frískleg húð geri gæfumuninn.
„Þrátt fyrir að Covid sé í fullum gangi og ég mikið bara heima, reyni ég að finna tíma til að hreinsa húðina og laga mig til,“ segir Marín og segir að baugafelari og kinnalitur séu algjörar nauðsynjar og auðvitað góður maskari.
„Með þessar 3 vörur kemst maður ansi langt því kinnalit er einnig hægt að nota á augu og varir. Snyrtibuddan mín inniheldur þó alltaf nokkrar gerðir af hinu og þessu svo dagsdaglega nota ég miklu fleiri vörur. Ég hef alltaf verið hrifin af snyrtivörum svo ég skammast mín ekkert fyrir að vera pjattrófa. Ég er mjög hrifin af Face Tan water frá Eco by Sonya sem ég nota reglulega. Annars er gott dagkrem undir farðann mikilvægt fyrir mig því ég er með þurra húð. Til að mynda nota ég Snail gel frá dr. Organic og strobe kremið frá MAC til að húðin ljómi.“
Marín segist elska léttan farða eins og til að mynda litaða dagkremið frá BareMinerals sem hún segir að sé þekjandi, en alls ekki of mikið.
„Baugafelari gerir síðan kraftaverk eftir næturbrölt með lítið barn en ég kaupi oftast frá Nyx eða MAC. Svo nota ég að jafnaði einhvern augnskugga en á engan uppáhalds því mér finnst gaman að prófa nýja liti reglulega. Að lokum nude eða bleikt gloss eða varalit en það fer auðvitað eftir tilefninu.“
Marín sendi okkur auðvitað mynd af sér ómálaðri og hér kemur hún
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.