Dáleiðsla, núvitund, sjálfsvinna, alkóhólismi og tólfsporakerfið eru hlutir sem Vignir Daðason þekkir vel af eigin raun og starfar með alla daga. Hann hefur helgað líf sitt því að hjálpa öðrum og gerir það á marga vegu, eins og við munum koma inn á síðar. Ég bað Vigni um að hitta mig og segja mér sína sögu. Það kom svo í ljós að saga hans er svo sannarlega viðburðarík og svo sannarlega einstök.
Vignir er fæddur og uppalinn í Keflavík. Hann á eina systur og eina dóttur og foreldrar hans eru báðir látnir. „Ég er svolítill einstæðingur en þessi eina systir mín býr úti í Ameríku,“ segir Vignir þegar við setjumst niður með rjúkandi kaffibolla. Hann segir mér frá því að áföll sem hann varð fyrir í gegnum lífið hafi fengið hann til að líta inn á við og vinna í sjálfum sér. Það tók hann samt nokkuð mörg ár að átta sig á því hvert vandamál hans var.
Var tvisvar næstum dáinn á fyrsta árinu sínu
„Fyrsta áfallið í lífi mínu kom eiginlega á mínu fyrsta ári, en ég var tvisvar sinnum næstum því dáinn vegna offitu,“ segir Vignir og hlær örlítið. Móðir hans var ekki með hann á brjósti og gaf honum því stappaðar kartöflur með smjöri og þurrmjólk.
„Ég var gjörsamlega stjórnlaus þegar kom að mat. Það mætti kannski segja að ég hafi verið orðinn alkóhólisti í frumbernsku því áfergja mín í mat var engu öðru lík.“ Vignir lenti í því, í tvígang, að geta hreinlega ekki andað, stóð á öndinni, hreinlega vegna offitu. „Móðir mín hljóp í þessi skipti í offorsi með mig út á götu til að fá far með mig upp á spítala. Þar fékk ég svo súrefni.“
Þegar Vignir fór svo að geta hreyft sig fór fitan að renna af honum en hann segist hafa verið mjög veikur sem barn og segist rekja það til þess að hann lenti í þessum tveimur áföllum. „Undirmeðvitundin okkar geymir öll áföll sem við verðum fyrir og spurningin er bara hvort við getum ekki unnið með orsökina. Sumir gera það, því miður, aldrei. Þeir átta sig ekki á því ,að það sem þeir eru að glíma við í dag getur verið eitthvað gamalt. Þá er alltaf verið að vinna með einkennin, en ekki orsökina,“ segir Vignir.
Var laminn af presti í sumarbúðum
Skólaganga Vignis gekk mjög vel framan af og hann átti auðvelt með að læra, en þegar hann var um 10 ára gamall breyttist allt. Vinir hans voru að fara í sumarbúðir í Skálholti og Vignir átti ekki að geta farið því það var fullbókað í búðirnar. Það gerist svo á seinustu stundu að einn drengur afboðar sig og Vignir fékk að fara. „Það er furðulegt hvernig tilviljunin ein getur breytt öllu sem átti eftir að gerast,“ segir Vignir. „Ég lendi svo í því að einn af starfsmönnum sumarbúðanna réðist á mig. Hann lamdi mig og dró mig yfir gaddavírsgirðingu og ég ber enn örið eftir það á höfðinu en örið á sálinni var mun verra,“ segir Vignir þegar hann rifjar upp þessa hræðilegu reynslu. „Maðurinn, sem var prestur, dró mig niður í matsalinn, fyrir framan alla hina krakkana og spyr þar hvort eigi ekki að hafa mig í bandi, fyrir utan, eins og alla hina hundana.“
Þessi reynsla breytti Vigni, til frambúðar. „Þarna var sakleysi mitt tekið úr lífi mínu og reiðin kom í staðinn og hún átti eftir að hamla mér næstu 35 árin. Ég breyttist sem einstaklingur. Ég fór að gefa skít í alla kennara, hætti að nenna að læra og hægt og rólega fór skólagangan í hundana,“ segir Vignir og bætir við að hann hafi farið að drekka áfengi 13 ára gamall. Honum fannst áfengi aldrei neitt sérstaklega gott og víman af því ekki heldur.
Varð skapstyggur, eirðarlaus og óánægður
Kannabis kom svo inn í líf Vignis þegar hann var 15 ára gamall. „Þá var eins og hulunni væri svipt af og mér fannst ég hafa fundist lausnina í mínu líf. Ég hætti að vera reiður og gat verið undir áhrifum allan daginn og enginn tók eftir því. Ég reykti yfirleitt bara á kvöldin og fannst ég þess vegna ekki eiga við vandamál að stríða.“ Einn góðan veðurdag hættu svo kannabis efnin að virka á Vigni og þá leiddist hann út í notkun á sterkari efnum. Það var svo árið 1984 sem hann ákvað að hætta í neyslunni
Líf Vignis gekk vel til að byrja með en smátt og smátt fór reiðin að taka við. „Ég var skapstyggur, eirðarlaus og óánægður. Líf mitt einkenndist af heift, út í allt og alla, en ég var gríðarlega mikið fórnarlamb. Allt var öllum öðrum að kenna og reiðin eyðilagði allt sem ég snerti,“ segir Vignir en hann kynntist fyrrverandi eiginkonu sinni á þessum tíma. Hann átti mjög erfitt með að halda vinnu og mætti sjaldnast í vinnu á mánudögum, sem dróst stundum yfir á þriðjudag líka. „Ég var kominn með svo mikinn kvíða og þunglyndi að ég átti erfitt með að mæta í vinnuna. Ég átti voðalega erfitt með að sýna ást og hlýju og var alltaf reiður, en konan mín fékk að finna fyrir þeirri reiði.“ Vignir kveðst aldrei hafa lagt hendur á eiginkonu sína en kom gjarnan sótsvartur af reiði heim úr vinnu. Hann man meira segja eftir því að hafa komið heim úr vinnu og sagst vilja berja mann og annan, af einskærri reiði. „Þó svo að reiðin hafi verið stórt vandamál og fyrirstaða í lífinu, var ég alltaf glaða týpan út á við.
Lífið einkenndist af mikilmennskubrjálæði
„Ég gat aldrei verið alveg heiðarlegur. Ég laug ekki að öðru fólki en ég laug endalaust að sjálfum mér. Vandamálin voru farin að safnast upp og hjónabandið gekk ekki vel, en við gátum ekki eignast börn,“ segir Vignir og bætir því við að hann hafi haft mjög stórar hugmyndir um sína eigin hæfileika og beðið þess að vera „uppgötvaður“. Ætlaði hann sér einnig að verða besti þjálfari sögunnar og fór á fullt af þjálfaranámskeiðum þmt. til Þýskalands á vegum KSÍ. „Ég hafði bersýnilega ofurtrú á eigin ágæti, en þetta endaði eins og allt annað, ég varð bara fúlli og fúlli, skildi ekki hvað heimurinn var ranglátur, ég var eins og gangandi svarthol , allt sem ég tók mér fyrir hendur sogaðist inní mína vanlíðan og ástandið varð bara verra!“
„Lengi hélt ég mig vera besta söngvara Íslandssögunar og þó víða væri leitað. Ég skildi ekki af hverju ég varð ekki heimsfrægur á Íslandi. Ég endaði oftast einn eftir í hljómsveitum. Ekki af því ég gæti ekki sungið, heldur af því ég var óumberanlegur í umgengni. Mér fannst því frábær hugmynd að gefa út „sóló“plötu. Hún seldist í um 450 eintökum og ég held ég hafi prangað henni inn á svona 400 manns og um 50 hafi keypt hana sjálfviljugir,“ segir Vignir og hlær við að rifja þetta upp og augljóst að hann hefur sætt sig við fortíð sína, en segir að líf sitt hafi einkennst af mikilmennskubrjálæði.
Var rekinn í beinni útsendingu
Meðal þeirra fjölmörgu starfa sem Vignir hefur starfað við, var hann um hríð að vinna í útvarpi ásamt því að starfa fyrir verktaka. Hann var rekinn af þaðan fyrir að rífast við viðmælanda sinn í beinni útsendingu, en hann gleymdi að slökkva á hljóðnemanum svo rifrildið endaði í beinni útsendingu: „Ég var svo rekinn í beinni útsendingu,“ bætir hann við og hlær .
Eftir uppákomuna í útvarpinu fannst Vigni alveg kjörið að fara á sjóinn. Hann var, sem fyrr segir, í starfi hjá verktökum en sagði þeim á miðvikudegi að hann væri hættur og á leið á sjóinn. „Mig langaði til þess að afla mér svimandi hárra tekna, en það gekk ekki betur en það að siglt var með mig í land eftir 3 daga en ég var svo sjóveikur að ég gat ekki einu sinni stigið upp úr koju,“ segir Vignir, en hann var kominn í land á laugardegi. Á mánudeginum gerir Vignir sér lítið fyrir og mætir aftur til starfa hjá verktökunum. Hann er svo kallaður inn á skrifstofu til starfsmannastjórans og spurður af hverju hann sé kominn aftur, hvort hann hefði ekki verið að segja upp og fara á sjóinn. „Ég svaraði þessu bara þannig að ég hefði aldrei ætlað að segja upp, heldur ætlaði bara í 5 daga frí. Maðurinn vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og ég hélt áfram að vinna þarna.“
Datt í það aftur
Geðveikin í lífi Vignis verður til þess að hann dettur í það. Loksins áttu þau hjónin von á sínu fyrsta barni og þau voru svakalega ánægð með það. Eiginkona hans vissi ekki af því að Vignir væri ekki lengur edrú, en Vignir segir að það hafi ekki verið mikill munur á því hvort hann væri edrú eða ekki. Þau eignuðust dóttur en Vignir segir að dóttirin hafi verið stór partur af því að hann langaði til að breytast og verða betri maður: „Hún var og er kraftaverkið í lífi mínu, þess vegna ákvað ég að verða edrú aftur.“
Hann fór í meðferð og eftir það fór líf hans að breytast, hægt og rólega. Þau hjónin skildu svo um það leyti sem dóttir þeirra varð 3ja ára og segir Vignir: „Ég gantast oft með það í dag, að hafa verið í sambandi og giftur sömu manneskju í 19 ár og í 9 af þessu nítján árum hafi ég verið í fýlu eða einhverri annarri dramatík , engin furða að blessaða kona hafi orðið ófrísk eftir annan mann og skilið við mig í framhaldinu.“ Hann bætir því við að auðvitað hafi hann ekki skilið þetta á þeim tíma sem þetta átti sér stað. „Skilningur skilningur minn var takmarkaður þá. Ég áttaði mig á því að það gerir enginn persónulega á hlut einhvers , heldur liggja eigingjarnir hvatar að baki. Ég var einstaklega eigingjarn og egósentrískur einstaklingur , hugsaði bara hvað ég gæti fengið út úr lífinu í stað þess að leggja mitt að mörkum til að bæta samfélagið.“
Lenti í mótorhjólaslysi og fékk taugaáfall
„Í öllu þessu umróti, missti ég það alveg og held að ég hafi fengið taugaáfall. Ég lenti í mótorhjólaslysi og hrundi í kjölfarið á huga, líkama og sál,“ segir Vignir, en þetta gerðist árið 2008. „Ég fór í 12 spora samtök og ég tel það hafa bjargað lífi mínu. Ég gat ekki bara breytt einum hlut heldur þurfti ég að breyta öllu.“ Vignir lenti illa í því í hruninu, eins og svo margir og missti nánast allt sem hann átti. Hann hætti að borga og segir að þá fyrst hafi hann fengið líf sitt til baka. „Ég hætti að vera þræll bankanna og þræll minna eigin hugsanna líf mitt fór að breytast mikið. Ég lærði að lifa í mínum eigin veruleika en ekki eftir því hvernig öðrum fannst eða fyndist heimurinn ætti að vera, ég hætti að hafa skoðanir á öllu.“
„Sjö mánuðum eftir skilnaðinn kynntist ég annarri konu á svipuðu reiki í lífinu og ég sjálfur, semsagt týnd. Ég lærði mikið um sjálfan mig á þeim tíma. Eftir á að hyggja var ég settur inn í aðstæður sem ég síðar meir tel sem eitt versta en jafnframt eitt mikilvægasta tímabil lífs míns,“ segir Vignir en tekur fram að konan sem hann var með hafi verið góð manneskja. Málið var ekki hún heldur bara hann. „Ég fékk að sjá sjálfan mig í annarri manneskju. Ég áttaði mig á því hvernig lífi ég hafði lifað og fyrir það er ég þakklátur. Þarna hófst uppbygging nýs lífs, algjörlega bugaður á lífi og sál, gat ég hafist handa við að breytast í þann einstakling sem ég átti að vera.
Eftir þetta tók líf Vignis svo sannarlega u-beygju og hann fór til Bandaríkjanna til að læra dáleiðslu og einnig hérna heima. „Ég fór að læra hluti sem ég gat notað til að breyta sjálfum mér og hjálpa öðrum. Ég er breytingin sem ég vil sjá í heiminum. Ég er svo þakklátur í dag, þó svo að ég sé veraldlega eignalaus. Ég á yndislegt líf, laus úr viðjum vanans, laus úr fangelsi hugans eða eins og maðurinn söng: Ég er frjáls. Fyrir ári síðan lést móðir mín sem var alltaf til staðar fyrir mig. Hún gafst aldrei upp á mér og fyrir það er ég þakklátur. Ég er þakklátur dóttur minni fyrir að kenna mér að lifa uppá nýtt og hvernig á að elska án skilyrða en hún bjargaði lífi mínu. Vinur minn Brynjar kenndi mér svo að draga andann og konan mín í dag er æðisleg!“
Helgaði líf sitt því að hjálpa öðrum
Vignir er með 12 sporanámskeið í Tveir heimar en námskeiðin eru fyrir alla sem vilja tileinka 12 sporin í leik og starfi. Vignir bjó líka til „app“sem heitir Twelve og vefsíðu, má þar finna allskonar frábært efni, eins og dáleiðslur, hugleiðslur og 12 spora efni. „Námskeiðin, appið og vefsíðan eru frí til afnota, en fólki er frjálst að styrkja mig í þessari vegferð með frjálsum framlögum. Einn dag í einu, skil hvað það þýðir núna. Taktu ekki daginn í dag með þér inní daginn á morgun, á morgun er nýr dagur, nýtt upphaf,“ segir Vignir.
„Ég er afsprengi hugsanna minna, hugsanir mínar skapa minn veruleika, ég er það sem ég hugsa! Ef þig langar að breytast, breyttu þá hvernig þú hugsar, það er góð byrjun,“ segir þessi skemmtilegi og jákvæði maður að lokum.
Myndir: Hari
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.