ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS
Ég er fötluð stúlka er ekki með sérstaklega góða reynslusögu af því.
Hvar á ég að byrja?
Ég gekk í grunnskóla eins og öll önnur börn. Ég er semsagt hálf blind en upplifi mig sem staurblinda manneskju miðað við hvernig fólk kemur fram við mig. Jú jú allt í lagi, stundum veit fólk ekki hvernig það á að vera í kringum mann, en HALLÓ fólk sem umgengst mann daglega þyrfti kannski að fara að læra að koma fram við okkur eins og venjulegt fólk. Ég vill benda ykkur á áður ég held áfram að þótt við séum blind eða sjónskert þá erum við ekki þroskaskert, sum okkar eru kannski með fleiri fatlanir með blindunni og sjónskerðingunni en alls ekki allir.
Ég ætla að fá að byrja á hvernig fólk vanmetur okkur. Þegar ég var á mínum yngri árum spurði kennarinn minn mig og hvað langar þig að verða þegar þú verður stór, ég svara henni að mig langi að vera flugfreyja. Hún missir næstum því andlitið og segir nánast strangt við mig „Nei, nei, nei þú getur það ekki“ og ég spyr hví ekki, þá segir hún eins og hún sé að tala við lítið barn „Veistu það væna mín þú ert fötluð og getur því ekki verið flugfreyja.“ Ég svaraði henni játandi, en innan í mér var ég að spinga úr reiði, jújú hún má eiga sína skoðun, en af hverju að rakka drauma annarra niður af því að sá sem á sér drauminn er fatlaður einstaklingur. Ég hef ekki verið svakalega sátt við framkomu þessa kennara í minn garð.
Fólk heldur oft að ég sé þroskaskert. Ef ég á í samtali við einhvern og fólk er að útskýra eitthvað ósköp einfalt, spyr það mig á ýmsa vegu hvort ég skilji t.d. „Skilurðu væna?“ eða horfir beint í augun á mér og segir „viltu að ég útskýri þetta betur fyrir þér gullið mitt?“ Auðvitað svara ég neitandi og þá spyr fólk mig tilbaka eru alveg viss. Maður hugsar oft auðvitað er ég annars hefði ég ekki sagt nei.
Ég á miklu fleiri reynslusögur en þessar, ég gæti nánast haldið endalaust áfram að telja upp atvik sem ég hef lent í. Núna er mikið í umræðunni um réttindi fatlaðra og en núna vill ég koma fram með reynslusögur mínar til að sýna fólki hvernig okkur fötluðufólunum líður þegar það er komið svona fram við okkur. Við erum venjulegt fólk, ekki lítil börn, við vöxum líka úr grasi, við getum líka eignast maka, við getum líka eignast börn eins og þið. Við erum venjuleg eins og þið, það er enginn eins.
Takk fyrir.