Við höfum áður fjallað um lítil réttindi feðra. Við höfum fengið að heyra fjöldan allan af reynslusögum feðra sem eru vægast sagt afar slæmar. Við höfum fengið að heyra það að fjölmiðlar almennt, hafi lítinn áhuga haft hingað til á að fjalla um málefni feðra en það virðist verða að forsíðufrétt ef mæður lenda í vandræðum eða missa forræðið, hvar er jafnréttið í því?
Hér er reynslusaga föður.
Saga mín byrjar haustið 2010 þegar við barnsmóðir mín fórum að slá okkur saman. Við fyrstu sýn virkaði hún sem falleg og indæl stúlka, ásamt því að vera góð og dugleg móðir, en hún var einstæð með þrjár stelpur á ungum aldri. Í lok desember tilkynnti hún mér að hún væri orðin ólétt. Þetta var vitanlega ákveðið sjokk fyrir mig þar sem að ég var barnslaus á þeim tíma. Á þessum tímapunkti varð ég í rauninni að ákveða hvað ég vildi gera með þessar óvæntu fréttir, og ákvað ég að láta reyna á alvarlegra samband milli mín og barnsmóður minnar. Mér fannst það vera réttast í stöðunni ásamt því að ég vildi vera sem mest í lífi barnsins míns. Ég ákvað því að demba mér beint í djúpu laugina sem átti eftir að gjörbreyta lífi mínu. Þetta gekk svosem ágætlega til að byrja með, en mér þótti hún alltaf dálítið spes á ýmsum sviðum. Seinni part sumars 2011 fæddist drengurinn. Við fluttum svo öll saman í íbúð um haustið. Fljótlega eftir að við hófum sambúðina áttaði ég mig á því hversu andlega veik hún var. Það sem mér hafði fundist “spes” hafði svoleiðis stigmagnast og fleira nýtt komið í ljós. Mikið rugl gekk á á þessum tíma og gafst ég loks upp í febrúar 2012. Þá hófst vitleysan fyrir alvöru.
Fékk varla að hitta soninn. Fékk að hitta hann samtals 6 klukkutíma á 4 vikna tíma
Frá þeim tíma sem við skildum, en sonur minn var 7 mánaða þá, var umgengni mín 3 klst annan hvern laugardag, s.s. 6 klst yfir 4 vikur, og var jafnvel ekki staðið við það oft á tíðum. Fór það meira bara svona eftir því hvað hentaði henni. Ég hugsaði með mér að þetta væri bara tímabundið þar sem að hún væri eflaust í miklu uppnámi vegna sambandslitanna og að þetta mundi lagast fljótlega. Svo var ekki, og fór ég því til sýslumannsins með þetta mál í apríl. Málið var komið í ferlið sem átti eftir að reynast rotið í gegn… tíminn leið, og 2 mánuðum seinna að mig minnir fékk hún boðun um að mæta í viðtal til sýslumannsins, sem hún skrópaði í að sjálfsögðu. Hún aflýsti svo næsta boðaða viðtali sem var 1-2 mánuðum seinna og á meðan heldur þessi viðurstyggilega litla umgengni við son minn áfram. Loks fékk hún stefnu um að mæta í viðtal, annars yrði fallist á þær hugmyndir sem ég hafði lagt fram um umgengni. Þá lætur hún loksins sjá sig og synjar öllum mínum tillögum og erum við uppúr því boðuð í viðtal til barnasálfræðings. Í því viðtali nær sálfræðingurinn að sannfæra hana um að auka umgengnina í 6 klst bæði laugardag og sunnudag aðra hverja helgi. Mikil aukning en ennþá skammarlega lítil umgengni, og þarna er kominn 1. október, hálfu ári eftir að ég fór til sýslumanns með málið.
Barnsmóðir færð á geðdeild í járnum
Ég ákvað svo að hefja forsjármál stuttu eftir þetta. Ég hafði hugsað mikið útí það en vendipunkturinn var sá að barnsmóðir mín var lögð inn á geðdeild í 4 nætur um miðjan september. Hún hafði þá trillst að ástæðulausu og ráðist á móður sína sem hélt á syni mínum og þannig stefnt heilsu hans í hættu. Lögreglan var kölluð til og færði hana upp á geðdeild landspítalans í járnum. Ég hafði fljótlega áttað mig á því að hún er andlega veik, með ýmsar persónuleikaraskanir t.d. sjálfhverfa, siðblinda, mikilmennskubrjálæði, þráhyggjuhegðun, sýklafælni, lygin, óreglusöm, fölsk o.fl. Eftir þennan atburð bjóst ég við að henni yrði hjálpað, og eitthvað gert í málunum. En það var nú aldeilis ekki, hún var útskrifuð af geðdeildinni 4 dögum seinna, og brjálæðiskastið útskýrt sem ofálag. S.s. hún gerði það sem hún þurfti til að losna út sem fyrst og plataði alla svokölluðu fagaðilana uppúr skónum með leikriti og sparibrosi. Barnavernd var komin inní málið og tók ég við stráknum á meðan barnsmóðir mín var á geðdeildinni og var með hann 6 nætur. Var þetta alveg yndislegur tími og hef ég aldrei fengið að vera með hann jafnmikið og þá, hvorki fyrr eða síðar. Hann byrjaði í leikskólanum á þessum tíma og fékk ég að vera með hann í aðlögun. Fyrir þetta hafði ég ekki fengið að vera með hann í 6 vikur. Hún er s.s. útskrifuð 4 dögum seinna og fær svo drenginn aftur 2 dögum eftir það, og aftur byrjar vitleysan. Vissulega var barnavernd með daglegar húsvitjanir til hennar í einhvern tíma, en hún hafði vit á því að sópa öllu undir teppið og stilla upp í leikrit hamingjunnar þegar fulltrúar barnaverndar komu, enda koma þau alltaf með fyrirvara.
Fór fram á tvöfalt meðlag
Stuttu eftir að ég fór með þetta mál til dómstóla fór barnsmóðir mín fram á tvöfalt meðlag frá mér, en ég tók að mér ýmsar aukavinnur á meðan við bjuggum saman til þess að hafa í og á stórfjölskylduna ásamt því að reyna að safna fyrir íbúð. Ég hélt þessum vinnuháttum áfram eftir að við skildum enda hafa íbúðarkaupa áætlanir mínar ekki breyst. Ég vinn um 12 klst alla virka daga, stundum meira og stundum um helgar líka. Þetta eykur auðvitað tekjurnar og er það það helsta sem litið er á til ákvörðunar um aukið meðlag, en það er í kerfinu þessar stundirnar og kemur í ljós hvernig fer en ég neitaði því að sjálfsögðu. Ef þetta verður samþykkt þá mundi það einungis vera vegna yfirvinnu/aukavinnu minnar. Eftir að skatturinn tekur sitt, bíla/eldsneytiskostnaður (ég keyri um á mínum bíl í einni aukavinnunni) og svo auka meðlag, þá yrði lítið eftir af laununum sem ég legg mjög hart að mér að afla. Ef af þessu verður, get ég ekki bara hætt í aukavinnunum mínum og þá mundi allt ganga til baka, svo einfalt er það því miður ekki. Það yrði að bíða í heilt ár eða svo til þess að sanna það á skattaframtalinu ásamt seinaganginum í kerfinu, og á meðan mundi ég þurfa að borga þetta aukna meðlag. Ég vil meina að það sé verið að reyna að gera mig að nútímaþræl með hjálp kerfisins, þar sem að ég mundi festast í vítahring. En við sjáum hvað kemur útúr því.
Lítil sem engin réttindi fyrir feður, fór fram á fullt forræði en fékk einungis 6 klst laugardag og sunnudag aðra hverja helgi, þrátt fyrir rökstudd gögn um að móðir væri veik.
Nú í janúar var svo tekinn fyrir bráðabirgðadómur þar sem að ég fór fram á fullt forræði á meðan aðalmálinu stæði, þar sem að ég telji hana beinlínis hættulega. Ég aflaði mér ýmis gögn sem m.a. rökstuddu, að mér finnst á óyggjandi hátt, að barnsmóðir mín eigi við miklar geðraskanir að stríða. Þessi gögn voru t.d. bréf sem hún skrifaði félaga mínum, en að lýsa geðveikinni sem stendur í því bréfi er ógerlegt. Einnig fékk ég mjög harðorð ummæli frá fjölskyldumeðlimum hennar sem lýsa reynslu sinni af geðrænum veikindum hennar. Þrátt fyrir þetta dæmdi dómarinn henni í hag, og jók ekki umgengnina. Ég var og er orðlaus yfir þessu þar sem ég bjóst ekki við öðru en að fá amk lágmarksumgengni. En nei, 6 klst laug og sunnudag aðra hverja helgi er það sem dómarinn taldi hæfilegt… Ég lét svo reyna á sáttarmeðferð stuttu seinna með litlar væntingar til nokkurns árangurs en besti samningurinn sem ég náði að kreista úr barnsmóður minni var beinlínis móðgandi í alla staði, og alls ekki með bestu hagsmuni sonar míns í leiðarljósi. Næsta skref í málinu er því matsmaður.
Baráttan er dýr og móðir notar barnið sem vopn og gerir það þannig að fórnarlambi
Í heildina mun þessi barátta mín kosta mig í það minnsta 1.5 – 2 milljónir, en það eru bara peningar. Barnsmóðir mín er andlega veik og notar barnið okkar miskunarlaust sem vopn í persónulegum sálrænum hernaði gegn mér með tálmunum. Kerfið hefur algjörlega brugðist mér og syni mínum á allan mögulegan hátt. Ég hef komist að því að sýslumaðurinn er rotin stofnun, faglærðir geðlæknar á geðdeild landspítalans láta plata sig upp úr skónum, barnavernd þorir ekki að taka afdrifaríkar en nauðsynlegar ákvarðanir og eru með gagnslaust húsvitjunarkerfi. Jafnvel réttarkerfið brást okkur á hátt sem ég mun aldrei skilja. Ég fæ ekki einu sinni að kíkja í heimsókn í leikskóla stráksinn míns án samþykki barnsmóður minnar. Leikskólinn sem ég fór með hann í aðlögu í fyrstu vikuna… jafnvel þótt auglýstur sé “dagur leikskólans, opinn dagur fyrir alla”. Greinilega átt við alla nema forsjárlausa foreldra. Hún er ein með 4 börn (sem hún á með 3 mönnum) og er strákurinn minn yngstur. Ég býð eftir því að fá svipað símtal og ég fékk síðastliðið haust þegar hún tók æðiskast, og get ekkert gert nema að vona að ekkert barnanna hljóti skaði af. Ég hef reynt allt sem ég mögulega get en sama og enginn árangur komið að því. Aðalmálið er þó enn í gangi og ég mun halda baráttunni áfram. Það versta við þetta allt saman er tíminn sem tapast með syni mínum, en mér finnst þessi aldur (1-2 ára) sérstaklega yndislegur. Ég mun aldrei fá þennan ómetanlega tíma bættan, enda ógerlegt. Með hverjum deginum sem líður og þessi vitleysa viðgengst eykst hættan á varanlegum skaða hvað varðar tengslin milli okkar feðgana, en okkur hefur sem betur fer gengið mjög vel að tengjast þrátt fyrir einungis 24 klst samveru á mánuði.
Var sagt að best væri að hann héldi sig utan við leikskólalífið nema með samþykki móður
Ég fékk að vera með hann í aðlögun 2 eða 3 daga síðastliðið haust á meðan barnsmóðir mín var á geðdeildinni. en svo var dagur leikskólans í febrúar og þá fékk ég þau skilaboð að ég ætti helst að bara halda mig utan leikskólalífsins.
Viðhorf samfélagsins þurfa augljóslega að breytast. Hinu úreltu og gamaldags gildi sem eru enn við líði í dag eiga ekki heima í okkar þjóðfélagi. Það eru komnar auknar kröfur til karlmanna að taka meiri þátt í uppeldi og lífi barna sinna. Hið heilaga móðurtromp er ekkert annað en kynjamisrétti af verstu gerð. Forsjárforeldrar eiga ekki að komast upp með að nota börnin sín sem vopn í persónulegum deilum. Það er andlegt ofbeldi og barnaníð að mínu mati. Forgangsröðunin er oft á tíðum ekki rétt. Framtíðar hagsmunir barnanna eiga alltaf að ganga fyrir.