Ristruflanir (getuleysi) – Pistill

Fyrir nokkrum árum hefði sennilega ekki verið við hæfi að birta grein sem þessa í fjölmiðlum. Tímarnir breytast og mennirnir með. Í dag er varla hægt að horfa á sjónvarp, hlusta á útvarp, fletta dagblöðum og tímaritum án þess að minnst sé á einhverjar nýjungar í meðferð ristruflana (getuleysis). Nýjasta dæmið er lyfið Viagra. Í gegnum tíðina hafa karlmenn ekki rætt þessi vandamál eins og aðra sjúkdóma, sem hefur oft leitt til tortryggni í sambúð. Breyting hefur orðið á þessu að nokkru leyti.

Fólk eldist og vill njóta lífsgæðanna sem lengst. Það kemur því 50 ára karlmanni, sem hefur allt til alls og nýtur lífsins, á óvart að stinning er farin að breytast. Er eitthvað sem við getum gert til að koma í veg fyrir ristruflanir og er einhver hjálp fyrir hendi þegar slík vandamál koma upp? Við reynum að svara þessum spurningum um leið og við skoðum orsakir og meðferðir.

Við höfum kosið að nota orðið ristruflanir í staðinn fyrir getuleysi. Það lýsir betur einkennum sjúkdómsins að ris er ekki nægjanlegt til samfara. Getuleysi (impotence) lýsir vanmætti við að setja liminn inn í fæðingarveg konunnar. Orðið stinning hefur einnig verið notað.

Ristruflanir aukast með aldrinum, ásamt öðrum sjúkdómum sem skjóta upp kollinum og geta tengst ristruflunum. Kynlöngunin þarf ekki að breytast þó að þetta geti tvinnast saman.

Talið er að um helmingur karla á aldrinum 40-70 ára hafi einhverjar ristruflanir. Tíundi hver 45 ára karlmaður hefur ristruflanir. Fimmti hver 85 ára karlmaður hefur samfarir minnst einu sinni í mánuði.

Þá spyrja menn sig af hverju þetta hendir suma en aðra ekki. Til þess að svara þeirri spurningu þurfum við að skoða líffærakerfið og hvernig ris verður til.

Sjá einnig: Kyndeyfð: Hvað er til ráða?

Risið

Limurinn (reðurinn) hefur tvö æðarík hólf (reðurgroppur) sem liggja samhliða. Í hvorri groppu eru lítil holrúm með æðum og ósjálfráðum vöðvum. Við venjulegar aðstæður eru vöðvarnir samandregnir og holrúmin nær tóm af blóði. Vöðvaþræðirnir slaka á við ris svo að mikið magn af slagæðablóði þrýstist inn, bláæðar falla saman og þrýstingur eykst og limurinn stífnar. Flókin starfsemi í tauga- og æðakerfi á sér stað þar sem köfnunarefnisoxíð leikur stórt hlutverk. Það er einmitt þekkingin á þessari flóknu starfsemi sem hefur leitt til þess að í dag höfum við lyf sem koma að gagni.

Hvað truflar risið?

Margir sjúkdómar (geðrænir og líkamlegir), lyf, reykingar, alkóhól, o.fl., geta skaðað rishæfnina bæði hjá ungum og gömlum körlum. Mjög margt hefur áhrif á risið. Geðrænir og líkamlegir þættir vinna oft saman, t.d. getur ristruflun á byrjunarstigi hjá 50 ára karli vegna slagæðasjúkdóms sem veldur verulegum geðrænum áhrifum með kvíða og þunglyndi þannig að einkennin versna til muna.

Ljóst er að slagæðasjúkdómar hafa áhrif á risið þó að við vitum ekki alveg hvernig það á sér stað hjá þeim sem ekki hafa klárar þrengingar í slagæðum. Sennilega eru einhverjar truflanir í boðum og efnabreytingum í slagæðavöðvafrumum. Sjúklingar með slagæðasjúkdóma, taugasjúkdóma af ýmsum toga, sykursýki, hormónatruflanir o.fl. eiga á hættu að fá ristruflanir, þannig verða reykingar og offita óbeinn áhrifavaldur.

Mjög mörg lyf hafa áhrif á risið, svo sjálfsagt er að ræða við sinn lækni hvort hægt sé eða óhætt að breyta þeim.

Eins og áður er bent á stjórnast risið af miðtaugakerfinu og þarf geðræni þátturinn og huglægt ástand að vera í lagi. Hvort sem það er upprunalega ástæðan eða komið í kjölfarið þarf að taka það með í reikninginn.

„Karlkynshormónið testosterone er nauðsynlegt til að öll kynstarfsemi karlmannsins sé í lagi. Magn testosterons minnkar með aldrinum og sennilega hefur það einhver áhrif á ristruflanir. Nauðsynlegt er að taka það með í reikninginn þegar orsök og meðferð er ákveðin.

Sumar skurðaðgerðir geta orsakað ristruflanir.

Ofneysla alkóhóls veldur ristruflunum á beinan og óbeinan hátt. Ofnotkun alkóhóls og táobaks hefur áhrif á efnaskipti og hormónaframleiðslu og fjölskyldu- og félagsleg vandamál bætast við.

Sjá einnig: Breytingaskeið kvenna

Meðferðin

Áður en læknir byrjar á dýrri rannsókn og meðferð er mikilvægt að meta hvort ristruflanir séu til ama, hvort sjúklingurinn hafi t.d. rætt við maka sinn, og hvort þau hafi þau bæði áhuga á að viðhalda samförum. Ef raunverulegur áhugi er fyrir hendi, þá er mikilvægt að skýra frá meðferðarmöguleikunum. Margir vilja ekki gangast undir meðferðir sem eru á boðstólum, annars vegar vegna umstangsins og hins vegar vegna kostnaðar.

Samtalið eitt getur oft hjálpað og sjúklingurinn lætur þar við sitja.

Kynlífsráðgjöf getur verið mjög hjálpleg þar sem reynt er að leysa ýmis tæknileg og aðferðavandamál. Kynlífsráðgjöf hefur verið af skornum skammti á Íslandi og þyrfti að aukast.

Geðræn meðferð er nauðsynleg hvort sem um er að ræða orsök eða afleiðingu ri struflana. Kvíði og þunglyndi geta valdið miklum vandamálum.

Lyfjameðferð

Öldum saman hafa verið reyndar alls konar hefðbundnar og óhefðbundnar lyjameðferðir. Sennilega hafa þær flestar einhver sálræn áhrif eins og lyfleysur (placebo) oft gera. Yohimbin hefur verið notað í mörg ár þó að rannsóknir geti ekki sannað áhrifamátt þess.

Testosterone hormónar geta verið hjálplegir í einstaka tilvikum en margir telja áhrifin sálræn. Lyfið er gefið í sprautuformi, en einnig er hægt að nota plástur. Áður en testosterone meðferð er hafin þarf að ganga úr skugga um hvort nokkur grunur leiki á að krabbamein sé í blöðruhálskirtli. Ekki eru allir á eitt sáttir hvort það geti breytt framvindu sjúkdómsins.

Sildenafil (Viagra®) er nýjasta lyfið á markaðinum. Það er tekið í töfluformi í mismunandi styrkleika. Það hefur bein áhrif á smáu slagæðarnar í limnum, sem leiðir til aukningar á köfnunarefnisoxíði sem veldur auknu blóðflæði. Rannsóknir hafa sýnt mjög góðan árangur. Aukaverkanir eru nokkrar, höfuðverkur, sjóntruflanir o.fl. Ekki má gefa það samhliða lyfjum sem innihalda nitroglycerin eða svokallaðar sprengitöflur en talið er að rekja megi einhver dauðsföll til þess. Prostaglandin E1 er áhrifaríkt lyf (Caverject®) sem sprautað er inn í groppu limsins (mynd 1) er það nýjasta (Bondil®) og lítill stíll sem er settur inn í þvagrásina (mynd 2). Lyfið er notað rétt fyrir samfarir og ef það er sett inn á réttan hátt eru áhrifin mikil. Mönnum lýst ekkert á þessa meðferð í fyrstu en þegar búið er að kenna þeim aðferðina gengur það oftast vel.

„Vacuum“ risdælur

Í áratugi hafa menn notað teygjuhringi til að hindra blóðflæði frá limnum. Undanfarin ár hafa svokallaðar „vacuum“ risdælur verið í notkun með þokkalegum árangri. Flestir geta notfært sér þessa aðferð. Limurinn er settur inn í hólk og lofti dælt úr hólknum. Blóð streymir til limsins og teygja er sett upp að rótinni (mynd 3). Teygjuna verður að fjarlægja innan ½ klukkustundar.

Aðgerðir

Aðgerðir hafa verið af ýmsum toga eftir orsök ristruflana. Æðaaðgerðir eru stundum gerðar hjá yngri karlmönnum, t.d. eftir áverka á stærri slagæðum og vegna bláæðaleka. Stundum þarf að rétta liminn vegna skekkju sem orsakast af bandvefssjúkómi eða áverka. Algengustu aðgerðirnar eru ísetning penis protesa af ýmsum gerðum. Nokkur þróun hefur orðið á gerð protesa undanfarna áratugi. Í dag eru notaðar hálfstífar protesur en þó mest dælu-protesur (mynd 4).

Aðgerðin krefst sjúkrahúsvistar í nokkra daga þó að sums staðar fari sjúklingurinn heim að kvöldi eða daginn eftir. Mikilvægt er að sjúklingurinn geri sér grein fyrir afleiðingum og árangri aðgerðarinnar. Sjúklingar sem ekki ná viðunandi árangri með lyfjum eru stundum kandídatar í penis protesum ef þeir og maki þeirra vilja ganga svo langt í meðferð. Penis protesur eru tveir staflaga sílikon stautar sem liggja inn í reðurgroppunni. Dælan er í pungnum og vatnsgeymir (100 ml) uppi í kvið. Pumpan dælir úr vatnsgeyminum inn í stautana svo að ris eigi sér stað.

Lokaorð

Leitast hefur verið við að greina frá orsök og meðferð ristruflana svo að almenningur skilji. Margt er ósagt og ekki er farið ítarlega í grundvallaratriði. Til þess að fá bót á ristruflunum þarf að leita hjálpar og skýra frá vandamálinu. Oft er hægt að veita hjálp. Vonandi hefur orðið einhverjum til fróðleiks og hjálpað honum að skilja eftir lestur þessarar greinar og skilið betur vandamál sitt og/eða annarra.

doktor.is logo

 

SHARE