Lyf þessi valda róun í litlum lækningalegum skömmtum, en svefni í stærri skömmtum. Með róun er átt við að hlutaðeigandi einstaklingur hreyfi sig minna en ella, hafi minni drift til athafna og vökuvitund slævist. Hann getur fundið fyrir syfju og róun er forstig svefns. Viðkomandi er þó vakandi og skynjar umhverfi sitt að meira eða minna leyti. Svefn er hins vegar missir vökuvitundar (meðvitundar) að því marki að menn vakna við hæfilegt áreiti, t.d. ef kallað er á þá. Róun og svefn af völdum lyfja er í raun óeðlilegur og líkist ekki nema á yfirborðinu róun og svefni sem eru eðlileg viðbrögð við kyrrð eða þreytu.
Öll róandi lyf og svefnlyf hafa í stórum skömmtum krampastillandi verkun. Sum þessara lyfja eru þannig notuð við flogaveiki og krömpum af öðrum sökum. Með flogaveikilyfjum er hins vegar átt við lyf, stundum leidd af róandi lyfjum og svefnlyfjum, sem notuð eru sérhæft við flogaveiki og eru að meira eða minna leyti laus við róandi verkun og svefnverkun. Flogaveikilyf eru oft talin vera undirflokkur róandi lyfja og svefnlyfja.
Ýmis róandi lyf og svefnlyf, einkum díazepam og skyld lyf, hafa umtalsverða verkun á sjúklegan kvíða. Gróft tekið má segja að munurinn á eðlilegum og sjúklegum kvíða sé einkum sá að í fyrra tilvikinu skynja menn af hverju kvíðinn stafar en í síðara tilvikinu ekki. Sjúklegur kvíði getur einnig verið afbrigðilega mikil viðbrögð við þekktu kvíðatilefni.
Dæmigerð lyf í flokki róandi lyfja og svefnlyfja eru fenemal og díazepam. Etanól (alkóhól) telst einnig til þessa flokks og líkist í ýmsu fenemali en hefur flóknari lyfhrif.
Fenemal
Fenemal er eitt margra svokallaðra barbitúrsýrusambanda sem notuð hafa verið til lækninga frá upphafi þessarar aldar. Fenemal (notað frá 1912) hefur aðallega verið notað sem róandi lyf og við flogaveiki. Undanfarin 35 ár hefur notkun barbitúrsýrusambanda minnkað mjög og díazepam og skyld lyf komið í þeirra stað.
Róandi verkun og svefnverkun fenemals er bundin við taugungamót og er að því er virðist vítt og breitt í miðtaugkerfinu og í heilastofni. Fenemal eykur virkni gass (gamma-amínósmjörsýra) sem er hamlandi boðefni í miðtaugakerfinu (sbr. töflu 5) eða verkar líkt og það. Fenemal í litlum skömmtum veldur róun. Stærri skammtar valda því að menn sofna eða sofna fyrr og sofa lengur en ella. Fenemal og svipuð lyf trufla hins vegar eðlilegt svefnmynstur. Sama gildir um önnur svefnlyf og flest önnur lyf sem verka á miðtaugkerfið. Endurtekin taka fenemals í nokkurn tíma veldur því að róandi og svefnverkun lyfsins minnkar og þol myndast. Til að ná fram tilætlaðri verkun þarf þá oft stærri skammta. Hætti einstaklingur sem tekið hefur fenemal daglega í tvær vikur skyndilega að taka lyfið er sennilegt að hann fái fráhvarfseinkenni þegar lyfið hverfur úr líkamanum. Fráhvarfseinkenni fenemals og skyldra lyfja eru yfirleitt órói, kvíði og svefntruflanir, eða í grófum dráttum öfug við lyfhrifin.
Ef maður sem tekið hefur svefnskammt af fenemali eða öðrum barbitúrsýrusamböndum sofnar ekki, koma að öllu jöfnu fram hjá honum ölvunareinkenni. Þau lýsa sér í ósamræmi í hreyfingum útlima, augna, tungu og jafnvel höfuðs. Maðurinn slagar og hann á erfitt með mál og skrifa auk þess að verða mjög syfjaður eða sljór. Ósamræmi hreyfinga er að rekja til truflunar í starfi taugungamóta í miðtaugakerfi. Slík einkenni eru þekkt eftir neyslu etanóls (áfengis) og af þeim sökum eru þau kennd við ölvun.
Eitranir af völdum fenemals og annarra barbítúrsýrusambanda eru vel þekktar. Þær er að rekja til bilunar á frumlífsviðbrögðum (truflun á öndun, hjarta, blóðrás) í heilastofni og geta leitt til dauða. Etanól eykur mjög á eiturhrif barbitúrsýrusambanda.
Díazepam
Díazepam (Valium) er þekktast svokallaðra benzódíazepínsambanda, sem notuð hafa verið sem svefnlyf og róandi lyf, til kvíðastillingar og við flogaveiki í um það bil 35 ár. Önnur benzódíazepínsambönd sem nefna má eru nítrazepam (Mogadon), flúrazepam (Dalmadorm), oxazepam (Serepax), flúnítrazepam (Rohyphnol) og tríazólam (Halcion). Mídazólam (Dormecum) er enn eitt benzódíazepínsamband sem einkum er gefið í æð eða vöðva fyrir svæfingar eða við erfiðar læknisrannsóknir (svo sem í maga eða lungum) til róunar eða kvíðastillingar.
Lyfhrif díazepams og annarra benzódíazepínsambanda eru bundin við taugungamót í miðtaugakerfi. Verkun díazepams er mun afmarkaðri en verkun fenemals. Díazepam eykur á verkun gass, sem er hamlandi boðefni í miðtaugakerfinu. Gass kemur fram í taugungamótum, verkar á viðtæki fjærmegin eða nærmegin og eykur oft innflæði klóríðjóna í taugafrumur. Aukin gassvirkni gæti skýrt róandi verkun, svefnverkun og sennilega einnig kvíðastillandi og krampastillandi verkun díazepams.
Díazepam veldur ekki eðlilegum svefni fremur en fenemal. Óvíst er hvort svefn eftir benzódíazepínsambönd er betri eða heppilegri en svefn eftir barbitúrsýrusambönd. Þol og fráhvarfseinkenni eru svipuð eftir díazepam og fenemal. Því hefur verið haldið fram að að díazepam og skyld lyf væru lítið vanabindandi og yllu því ekki ávana eða fíkn. Reynslan hefur hins vegar sýnt hið gagnstæða, þótt þessi lyf séu engan veginn meðal kröftugustu ávana- eða fíknilyfja. Taka tiltölulegra stórra skammta af díazepami veldur ósamræmi í hreyfingum (sbr. fenemal á undan).
Miklu minni hætta er á banvænum eitrunum af völdum díazepams og annarra benzódíazepínsambanda en af völdum fenemals og annarra barbitúrsýrusambanda &th orn;ar sem þau fyrrnefndu verka minna á heilastofn. Því eru dauðsföll af völdum díazepams afar fátíð (sbr. töflu 5). Hins vegar hafa etanól og díazepam samverkandi verkun og dauðsföll vegna þeirra koma fyrir á hverju ári hér á landi.
Zolpídem (Stilnoct) og zópíklón (Imovane) eru tiltölulega ný lyf sem ekki eru skyld díazepami að gerð, en efla virkni gass með líkum hætti. Þessi lyf hafa þó afmarkaðri verkun og valda fyrst og fremst róun og svefni og eru vel nothæf svefnlyf.
Enda þótt menn eyði um það bil þriðjungi ævi sinnar sofandi, er stýring svefns enn að verulegu leyti óþekkt og tilgangur svefnsins er sömuleiðis sem óráðin gáta. Svefntruflanir eru enn fremur meðal algengustu umkvartana og þeim má gróft skipta í tvennt: vandkvæði að falla í svefn og sofa fullan nætursvefn annars vegar og hins vegar of mikil syfja eða svefn, sem raunar er allmiklu fátíðari umkvörtun en hin fyrri. Svefntruflanir af fyrra flokknum nefnast allajafna svefnleysi (á útlendum málum: insomnia) og eru svo algengar að um það bil 15% allra lyfseðla eru ávísanir á svefnlyf og róandi lyf.
Skipta má svefnleysi í þrennt: mjög skammvinnt svefnleysi, skammvinnt svefnleysi og langvinnt svefnleysi.
Langvinnt svefnleysi er oft að rekja til geðsjúkdóma, ekki síst geðdeyfðar eða oflætis (mania), langvinnrar neyslu áfengis eða annarra vímugjafa eða til fráhvarfseinkenna eftir að töku þessara lyfja eða efna er hætt. Í öðrum tilvikum kann svefnleysi að stafa af öðrum, oft langvinnum sjúkdómum (t.d. vegna verkja). Í þessum tilvikum ber ætíð fyrst og fremst að meðhöndla þann sjúkdóm sem að baki svefnleysinu kann að liggja, enda þótt notkun svefnlyfja kunni einnig tímabundið að eiga rétt á sér. Hér ber þess að minnast að við öldrun verður svefn að jafnaði grynnri og brotlegri þannig að menn vakna of snemma á morgnana.
Skammvinnt svefnleysi er oftast að rekja til streitubundins umhverfis svo sem átaka í fjölskyldu, á vinnustað eða vegna fjárhagsvanda. Hér þarf læknir ætíð að leita vel í sögu sjúklinga sinna, hvað það er sem svefnleysinu gæti valdið áður, en hann ávísar þeim svefnlyfjum.
Mjög skammvinnt svefnleysi er langoftast bundið við menn sem áður hafa sofið umkvörtunarlaust en lenda í vandræðum með svefn vegna bráðrar streitu eða áfalla (t.d. við skilnaðarmál eða dauðsföll), skyndilegra breytinga á dvalarstað (t.d. við innlögn í spítala) eða skyndilegra breytinga á tímamörkum svo sem að ferðast í þotu yfir heil eða hálf meginlönd. Það svefnleysi sem hér ræðir getur verið góð ábending á notkun svefnlyfja.
Í ljósi þess að ekkert svefnlyf veldur eðlilegum svefni og fráhvarfseinkenni eftir töku þeirra allra geta m.a. lýst sér í svefntruflunum eru menn sammála um að nota svefnlyf eins sparlega og auðið er og í eins litlum skömmtum og frekast verður komist af með.
Þegar svefnlyf eru notuð gegn tveimur síðasttöldum tegundum af svefnleysi er mikilvægt að nota svefnlyf sem valda ekki óhæfilegri syfju daginn eftir að þau eru tekin. Meðal þeirra svefnlyfja sem hér koma einkum til greina eru oxazepam, tríazólam, zolpídem eða zópíklón, sem öll eru annað tveggja benzódíazepínsambönd eða lyf með benzódíazepínlíka verkun. Í þennan flokk kemur einnig klóral, sem er elst allra notaðra svefnlyfja ef etanól er undan skilið. Etanól sjálft getur einnig verið gagnlegt svefnlyf og einkum ef hratt þarf að sofna og jafnframt stutt á að sofa.
Þegar grennslast er fyrir um orsakir svefnleysis verður ætíð að spyrja um koffeinneyslu (kaffi, te o.fl.) hlutaðeigandi. Mikil koffein-neysla, einkum að kvöldi, getur hæglega truflað svefn. Næmi manna gegn áhrifum koffeins er þó ærið mismunandi.
Til kvíðastillingar eru benzódíazepínsambönd oft notuð í minni skömmtum en til svefns. Meginkostur benzódíazepínsambanda til kvíðastillingar er að þau verka mjög fljótt (á fáum dögum) og þau verka á nánast allar tegundir kvíða. Einnig hér er æskilegt að gefa lyfin í eins skamman tíma og auðið er.
Etanól (alkóhól)
Etanól er vökvi sem blandast vatni í öllum hlutföllum. Vatnsblanda etanóls er stundum nefnd spritt. Sterkt spritt er u.þ.b. 96% etanól í vatni. Etanól er oftast notað í vatnslausn, blandað ýmsum öðrum efnum (litarefnum, bragðefnum o.s.frv.). Ef styrkur etanóls í slíkum blöndum er umfram 2,25% að rúmmáli telst vökvinn áfengi. Etanól kemur fyrir í lyfjum, einkum eldri tegundum lyfja í fljótandi formi og er einnig notað í snyrtivörur. Etanól eða áfengi hefur verið notað sem róandi lyf eða svefnlyf um aldir. Misnotkun etanóls er því eflaust ævagamalt fyrirbæri. Etanól er hinn dæmigerði vímugjafi. Etanól hefur einnig umtalsverða verkjadeyfandi og vafalaust einnig kvíðastillandi verkun. Auk þessa hefur etanól ýmis önnur lyfhrif. Má þar nefna víkkun æða, aukin þvaglát, aukna saltsýrumyndum í maga og breytingar í fituefnaskiptum (stundum til bóta). Lifrin skiptir meginmáli við umbrot etanóls í líkamanum. Við umbrot áfengis myndast orka sem nýtist líkamanum. Etanól er að þessu leyti mjög sérstakt efni. Langvarandi áfengisneysla veldur margs konar sjúklegum breytingum, m.a. alvarlegum og jafnvel banvænum lifrarskemmdum, meltingartruflunum og enn fremur vitsmunaskerðingu, oft með heilarýrnun, og getur stuðlað að geðveikikenndu ástandi. Hið síðasttalda á einkum við ef um mikla og langvarandi drykkju er að ræða.
Etanól frásogast vel frá meltingarvegi og að jafnaði betur hjá konum en körlum. Matur í maga, ekki síst fita, dregur úr frásogi frá maganum. Jafnmikið magn af sama áfengi sem drukkið er við mi smunandi aðstæður getur því leitt til mismunandi etanólmagns í blóði og öðrum líffærum. Etanól dreifist nokkuð jafnt um vefi líkamans. Magn (þéttni) etanóls í blóði er gefið til kynna sem „(pro mille; 1” = 1 g/1000 ml). Þéttni etanóls í blóði gefur yfirleitt góðar upplýsingar um áfengisneyslu manna. Blóðþéttni etanóls (nú einnig í útöndunarlofti) er lögum samkvæmt sá mælikvarði sem notaður er til að ákvarða sekt eða sýknu manna sem grunaðir eru um ölvun við akstur.
Tegundir áfengis eru nokkrar. Bjór er vægasta tegundin með etanólmagn á bilinu 4-8% að rúmmáli. Næst koma léttvín þar sem etanólmagnið er á bilinu 9-14%. Þá eru heitvín sem eru á bilinu 15-20% og loks sterkt áfengi eða brennd vín sem oft innihalda 36-43% etanól. Bjór og létt vín eru áfengistegundir sem framleiddar eru við gerjun. Sterkt áfengi er eimað til að ná meiri etanólþéttni en við gerjun. Heitvín er blanda af gerjuðum og brenndum vínum. Til léttra vína teljast rauðvín, hvítvín og rósavín. Af heitvínum má nefna sherrý og púrtvín. Af sterku áfengi má nefna vodka, whiský, gin og romm. Einfaldur barskammtur (30 ml) af þessum tegundum (u.þ.b. 40% að rúmmáli) jafngildir um 9,5 g af hreinu etanóli. Loks er til svokallað iðnaðaráfengi. Það er mengað áfengi sem ekki er ætlað til drykkjar. Þar undir flokkast brennsluspritt. Þá má ekki gleyma „landa”, en það er heimatilbúið (ólöglega) sterkt áfengi.
Róandi verkun og svefnverkun etanóls er bundin við taugungamót vítt og breitt í miðtaugakerfinu líkt og gildir um fenemal. Verkunarháttur etanóls tengist áverkun á gass hliðstætt við fenemal, en etanól verkar auk þess á glútamínsýru, morfínpeptíð og dópamín. Í litlum skömtum hefur etanól greinilega róandi verkun en svefnverkun í stærri skömmtum. Erfitt er að segja til um skammtastærð fyrir róandi verkun og svefnframkallandi verkun. Hér skiptir máli einstaklingsbundinn munur eins og líkamsþyngd, þreyta o.fl. svo og kyn og það hvort viðkomandi hefur borðað mat á undan drykkju eða ekki. Ef miðað er við 70 kg líkamsþyngd og fastandi maga má ætla að u.þ.b. 20-40 g af etanóli (2-4 barskammtar) hafi róandi verkun. Samsvarandi svefnskammtar væru u.þ.b. 30-60 g af etanóli (3-6 barskammtar). Sé miðað við blóðþéttni myndi 0,4-0,7” nægja til þess að fá fram róandi verkun og 0,7-1,2” til þess að framkalla svefn, ef ekki væri um því meira þol að ræða. Ef blóðþéttni er u.þ.b. 1” hefur etanól einnig umtalsverða verkjadeyfandi verkun. Af þessu er ljóst að lækningalegir skammtar etanóls skuli ekki vera marktækt umfram 1,2” blóðþéttni. Neysla áfengis í stærri skömmtum en þessu nemur á þannig lítið skylt við lækningar. En er etanól yfirleitt nothæft sem lyf? Já, það er nothæft sem róandi lyf, svefnlyf og verkjadeyfandi lyf og án efa einnig sem kvíðastillandi lyf. En gallinn er hins vegar sá, gagnstætt því sem á við um lyf sem fást gegn lyfseðli, að mönnum er í sjálfsvald sett hve stórra skammta þeir neyta og hve oft. Einn meginkostur við róandi verkun, svefnverkun eða verkjadeyfandi verkun etanóls er hve stutt verkunin stendur.
Ef maður hefur neytt svefnskammts af etanóli en sofnar ekki, sýnir hann vanalega af sér ölvunareinkenni. Við 1” etanólþéttni má greina ölvunareinkenni hjá allt að því helmingi allra einstaklinga og hjá 80-90% ef þéttnin er 1,5”. Ef þéttnin er 1” eða meiri er akstur vélknúins ökutækis beinlínis stórhættulegur. Er það ekki einungis vegna syfju og sljóleika og ósamræmis í hreyfingum, heldur einnig vegna truflana í skynjun (ekki síst truflana í sjón, en einnig vegna brenglaðs fjarlægðarskyns og tímaskyns) og skertrar dómgreindar.
Ríkur þáttur í áfengisvímu og vímu eftir suma aðra vímugjafa er ósamræmi í hreyfingum (ölvunareinkenni). Ósamræmi í hreyfingum eftir neyslu etanóls er án efa veigamikill liður í aukinni slysatíðni samfara áfengisneyslu.
Hér á landi og í mörgum öðrum löndum eru sektarmörk fyrir ölvun við akstur miðuð við 0,5” etanólþéttni í blóði. Við þessa etanólþéttni má ætla að 10-20% allra gætu sýnt af sér ölvunareinkenni við venjulega klíníska skoðun. Nákvæmari rannsóknir (tilraunaakstur við staðlaðar aðstæður) gefa þó eindregið til kynna að aksturshæfni manna sé um það bil í þriðjungi tilvika trufluð þegar við etanólþéttni í blóði á bilinu 0,4” – 0,5”. Þá hefur verið sýnt fram á að sjónskerpa og snögghreyfingar kunni að truflast þegar við etanólþéttni á bilinu 0,2” – 0,3”, hvort sem það skiptir máli við akstur eða ekki. Rannsóknir hér á landi benda til þess að eigi skuli lækka sektarmörkin niður fyrir 0,3”, þar eð ná megi allt að þeirri þéttni með drykkju óáfengra drykkja sem innihalda 2,25% etanól að rúmmáli eða minna.
Sennilegt er að helsti hvati þess að neyta etanóls sé að komast í vímu við ýmsar félagslegar athafnir eða til tilbrigða frá hversdagsleikanum. Ekki má samt gleyma sjálfslyfjun með etanóli vegna hugstreitu, svefnleysis eða langvarandi sársauka. Tæpast fer þó milli mála að þeir sem nota etanól sem lyf nota það gjarnan sem vímugjafa. Sjálfslyfjun með etanóli er því oft talin vera afbrigði félagslegrar notkunar. Þörfin fyrir etanól sem vímugjafa virðist vera mjög sterk. Svo eftirsóknarvert þyk ir etanól að það er eini vímugjafinn (auk lyfja) sem er löglegur hér á landi og í mörgum öðrum löndum. Menn hafa sætt sig við óhjákvæmilegar hjáverkanir, s.s. slysa- og sjúkdómahættu og ýmis félagsleg vandamál, sem fylgja notkun etanóls og reynt að draga úr þeim með því m.a. að stýra notkun þess í hófsamlegt far með lagasetningu.
Þol gegn etanóli er venjulega ekki mikið við félagslega notkun þess. Ef neysla er hins vegar á ávanastigi er þol gegn róandi verkun og svefnverkun oft umtalsvert. Fráhvarfseinkenni eru vel þekkt eftir mikla og langvarandi áfengisneyslu. Hin alvarlegustu kallast titurvilla eða „delirium tremens” sem m.a. einkennist af rangskynjunum (menn sjá rottur, mýs eða skordýr og annað sem ekki á sér stað í raunveruleikanum) og ef til vill krömpum. Hjá miklum drykkjumönnum byrjar titurvilla með titringi í útlimum fáum klukkustundum eftir síðasta áfengisskammt og af því er nafnið dregið. Eftir styttri og minni áfengisneyslu eru fráhvarsfeinkennin m.a. titringur, óeðlilega hraður eða óreglulegur hjartsláttur, höfuðverkur, klígja, uppköst og jafnvel fleiri einkenni frá meltingarfærum. Svokallaða timburmenn eða önnur óþægindi sem menn geta fundið til daginn eftir drykkju má eftir atvikum líta á sem fráhvarfseinkenni eða sem beinar eftirverkanir etanóls.
Stundum kemur fyrir að menn „deyja” eftir neyslu áfengis. Svokallaður áfengisdauði kemur fyrir þegar þéttni etanóls í miðtaugakerfinu er slík að um svæfingu er að ræða. Menn verða þá fyrst vaktir eða vakna sjálfir þegar þéttni etanóls hefur komist niður fyrir ákveðið mark. Endanlegur dauði eða dauði fyrir fullt og allt er vel þekktur eftir neyslu etanóls. Ef þéttni etanóls í blóði er umfram 3,5” er hætta á banvænni eitrun. Sjaldgæft er að menn lifi af áfengiseitrun ef þéttni etanóls í blóði er umfram 5”. Minna magn áfengis getur þó hæglega leitt til dauða. Það er vegna þess að menn kasta oft upp ef þeir drekka mikið. Ælan getur þá lokað öndunarveginum og menn kafnað. Á hverju ári verða hér á landi nokkur dauðsföll sem beinlínis er að rekja til bráðrar áfengiseitrunar.
Etanól og önnur róandi lyf og svefnlyf hafa samverkandi verkun. Getur þetta leitt til banvænna eitrana. Algengt er að nota áfengi með öðrum vímugjöfum eða neyta þess á milli þeirra. Það er kallað blönduð misnotkun.
Hugtakið alkóhólismi er notað yfir þá erfiðleika sem steðja að einstaklingum sem fengið hafa ávana eða fíkn í áfengi. Þeir sem haldnir eru alkóhólisma eru kallaðir alkóhólistar. Samsvarandi er talað um heróínista, morfínista, hassista o.s.frv. Faraldursfræðilegar rannsóknir hér á landi og víðar benda til þess að 10-20% þeirra sem neyta áfengis innan félagslegs ramma, geti í áranna rás færst yfir á stig ávana eða fíknar og orðið alkóhólistar.
Vandamál alkóhólista eru margvísleg. Þar má nefna félagslegu vandamál, s.s. erfiðleika í sambúð, á vinnustað og í sambandi við fjárhag. Líkamlegu vandamálin eru, auk timburmanna og fráhvarfseinkenna, bilun á starfsemi líffæra og líffærakerfa, ekki síst lifrar og miðtaugakerfis. Sum vandamál sem rekja má til truflunar á starfsemi miðtaugakerfis eru kölluð sálræn eða andleg. Þar er átt við hegðunarvandamál, hugstreitu og jafnvel geðveikikennd fyrirbæri sem tengjast alkóhólisma eins og t.d. geðdeyfð.
Á síðustu fjórum áratugum eða svo hefur verið aflað geysimikillar þekkingar á skemmdum á líffærum og líffærakerfum, aðallega hjá alkóhólistum, sem rekja má til neyslu áfengis. Í heild er vitað meira um skaðsemi áfengis en nokkurs annars vímugjafa. Skaðsemi áfengis stendur oftast í beinu hlutfalli við skammta eða magn. Þetta þýðir einfaldlega að áfengi af öllum tegundum er því skaðlegra sem þess er neytt í stærri skömmtum. Neysla áfengis í allstórum skömmtum með hléum á milli kann þó að skaða neytandann minna en minni neysla daglega án hvílda eða hléa á milli. Við félagslega notkun eins og tíðkast hér á landi og víðar (helgarfyllerí) ná líffæri viðkomandi oftast að jafna sig nokkuð vel á milli. Ekki er þó verið að mæla slíkum neysluvenjum bót og sérstaklega ekki í ljósi þeirrar slysahættu sem af þeim stafar. Á hinn bóginn kann áfengi að valda meira tjóni þegar til lengdar lætur á líffærum þeirra sem neyta þess daglega samkvæmt venju eða til sjálfslyfjunar og sjaldan eða aldrei eru taldir drukknir. Umræða um það hvor neysluvenjan sé menningarlegri er utan ramma þessarar umfjöllunar. Staðreynd er að menn eru misþolnir gegn eiturhrifum etanóls á ýmis líffæri, ekki síst lifur og hjarta. Samstaða er um að áfengisneysla skaði konur meira en karla. Skiptir þar betra frásog frá maga sennilega verulegu máli. Til eru einstaklingar sem drukkið hafa árum saman á ávanastigi en eru samt með nánast óskemmda lifur. Slík drykkja myndi í flestum tilvikum hafa leitt til truflunar á lifrarstarfsemi eða jafnvel dauða vegna lifrarhrörnunar sem kallast skorpulifur. Þá er þess að geta að lítil dagleg áfengisneysla getur verið gagnleg.
Helstu líffæri og líffærakerfi (mynd 6) sem vitað er að skemmst geta vegna langvarandi áverkunar etanóls, einkum á ávana- og fíknistigi (þá oft miðað við að ætluð dagleg neysla etanóls sé 50 g eða meira), eru:
Miðtaugakerfi: Heilarýrnun, þ.e. rýrnun á berki stóra heila og litla heila er algeng meðal alkóhólis ta en einnig að vissu marki meðal einstaklinga sem neyta áfengis á félagslegu stigi.
Úttaugakerfi: Langvarandi áfengisneysla veldur truflun í starfsemi tauga í úttaugakerfi, einkum í útlimum. Upp kemur fjöltaugabólga með minna afli og tilfinningu í útlimum, aðallega í fótleggjum. Á vægara stigi eru dofi, stingir og afbrigðileg tilfinning áberandi.
Útlimavöðvar: Vitað er að alkóhólistar eiga á hættu að fá vöðvarýrnun sem bundin er við vöðva í útlimum, sérstaklega fótleggjum. Sterkar líkur er á því að etanól kunni að skaða frumur í öllum beinagrindarvöðvum þannig að enzým og önnur efni í frymi leki út. Þessu fylgir sársauki eða eymsli í vöðvum. Þetta getur sennilega einnig gerst í vægu formi við félagslega notkun áfengis.
Hjarta og blóðrás: Etanól dregur beinlínis úr starfsemi hjartans og leiðir til fitusöfnunar í hjartavöðva. Áfengisneysla eykur líkur á hjartsláttartruflunum, og skyndidauða meðal alkóhólista er oft að rekja til þessa. Áhrif etanóls á æðakerfi eru margþætt en til lengdar litið hækkar etanól blóðþrýsting ef þess er neytt í umtalsverðum mæli.
Vélindi og magi: Krabbamein í munni, tungu, munnholi og vélinda er langtum algengara hjá þeim sem bæði reykja tóbak og drekka áfengi á ávanastigi. Líkur eru til þess að áfengisneysla eigi stærri hlut í myndun krabbameins í vélinda en tóbaksneysla. Við neyslu áfengis á ávanastigi eru magabólgur, með fleiðri/sári í slímhúð og smáblæðingum, algengar. Í litlum skömmtum getur áfengi, einkum bitrumiklar víntegundir svo sem heitvín, aukið seytur og þar á meðal sýrurennsli í maga sem nota má til lækninga (við lystarleysi).
Þarmar: Etanól truflar starfsemi þarma. Eftir töku stórra skammta má greina sár/fleiður í þekjufrumum í skeifugörn. Eftir langvarandi neyslu áfengis verður drep í þekjufrumum í þörmum. Niðurgangur er algengur fylgifiskur áfengisneyslu. Langvarandi áfengisneysla virðist auka líkur á krabbameini í ristli.
Lifur: Áfengisneysla hefur í för með sér fitusöfnun í lifur. Lifrarbólga er annar fylgifiskur af völdum etanóls. Við hana kemur drep í frumurnar með bólgum og bandvefsmyndun. Bráð lifrarbólga getur verið lífshættuleg. Talið er að skorpulifur sé afleiðing lifrarbólgu. Skorpulifur getur leitt til krabbameinsmyndunar í lifur.
Briskirtill: Áfengisneysla hefur sams konar áhrif á frumur í briskirtli og lifur. Langvarandi neysla getur valdið drepi í frumum sem leiðir til brisbólgu, oft samfara þrálátum sársauka. Brisbólga af völdum áfengisneyslu virðist stuðla að krabbameinsmyndun í kirtlinum.
Blóðmergur: Etanól skaðar beinlínis frumustarfsemi í blóðmerg og truflar þannig ýmsa mikilvæga starfsemi sem þar fer fram eins og t.d. myndun rauðra og hvítra blóðkorna.
Kynkirtlar: Áfengisneysla á ávanastigi dregur úr getu karla til samfara þar sem ris í getnaðarlim bregst. Áfengisneysla veldur líka ófrjósemi. Sannað er að etanól skaðar eistu á þann veg að frumum í sáðfalli fækkar, aðallega heilbrigðum sæðisfrumum, og hreyfigeta þeirra minnkar. Tíð og langvarandi drykkja hefur í för með sér rýrnun á eistum. Þá truflar etanól mjög yfirstjórnun kynhormóna í undirstúku og heiladingli. Truflun á tíðahring kvenna sem eru alkóhólistar er einnig algeng. Þá má nefna að etanól dregur úr frjósemi kvenna.
Fóstur: Alkóhól getur valdið alvarlegum fósturskemmdum aðallega á fyrstu þremur mánuðum meðgöngu, en einnig síðar. Ef þunguð kona neytir umfram 50 g (u.þ.b. 5 barskammta) af etanóli á dag eða er á „drykkjutúr” á 3.-12. viku meðgöngu á hún á hættu að fæða varanlega skaddað barn. Þessi börn eru með afbrigðilega skapað andlit, lítil augu, lítið höfuð og lítinn heila. Að auki geta komið fram skapnaðargallar í ýmsum öðrum líffærum. Enn má nefna lítinn vöxt, óværð eftir fæðingu, m.a. vegna fráhvarfseinkenna, og ýmislegt fleira. Lítill heili þessara barna merkir oftast minni vitsmuni en eðlilegt er og þar af leiðandi minni eða seinni þroska. Etanól virðist ekki aðeins leiða til fækkunar taugunga í heila, heldur einnig trufla dreifingu þeirra um heilavefinn. Áfengisneysla á meðgöngu getur einnig leitt til fósturláts, stuðlað að fæðingu fyrir tímann og dauða á nýburaskeiði.
Á síðustu árum hefur komið fram á grundvelli veigamikilla faraldursfræðilegra rannsókna að lítil dagleg neysla etanóls eða neysla sem jafngildir lítilli, daglegri neyslu etanóls getur lengt líf manna Það magn sem hér ræðir er á bilinu ca. 10-30 g. Ef neyslan er meiri en þessu nemur hefur etanól gagnstæð áhrif sem eru marktæk þegar við neyslu 50 g á dag (dánarlíkur hafa þá aukist um 20% miðað við þá sem ekki neyta etanóls). Þessa jákvæðu verkun lítilla, daglegra skammta etanóls er að rekja til gagnlegrar verkunar á fituefnaskipti með eftirfarandi minni hættu á fituútfellingum í æðaveggjum og þar með minni líkum á æðakölkun. Í þessum skömmtum dregur etanól einnig úr hættu á segamyndun (blóðtappamyndum) í æðum og þar með hættu á hjartadrepi. Ef dagleg neysla er hins vegar að marki umfram 30 g af etanóli að meðaltali á dag fer etanól að valda hækkuðum blóðþrýstingi og hafa neikvæð áhrif á fituefnaskipti og því dregur úr lífslíkum manna.
Í ljósi þessa má ætla að fé lagsleg neysla áfengis ætti ekki að fara fram úr u.þ.b. 30 g af etanóli á dag. Eins og áður getur er oft miðað við að dagleg neysla á ávana- og fíknistigi sé 50 g eða meira.
Birt með góðfúslegu leyfi Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum