Rómantík eða ískaldur sannleikur?

Mér finnst alveg með ólíkindum að fólk sem kýs það að búa í sveit eigi ekki rétt á sömu þjónustu og þeir sem búa í borginni. Á gamlársdag var rafmagnslaust í um 14 klukkustundir og fólkið í Árneshreppi varð bara að gera sér það að góðu að sitja í svartasta skammdeginu í köldum húsum með kertaljós og skemmta hvort öðru. Vera má að þeir sem hafa ekki lent í þessu hafi einhverjar rómantískar hugmyndir um að lenda í svona og hugsi með sér að þetta sé nú bara huggulegt. Jú jú það er það kannski upp að vissu marki en þegar orðið er kalt og heilu frystikisturnar með mat eru að skemmast, ekki hægt að komast lönd né strönd vegna óveðurs og það er dimmt nánast allan sólarhringinn er þetta löngu hætt að vera huggulegt og rómantískt.

Ég er alveg meðvituð um það að menn voru að vinna við þetta í viðbjóðslegu veðri upp á heiðum í myrkri og gerðu sitt besta en mínar vangaveltur beinast frekar að því af hverju eru rafmagnsstaurarnir orðnir það lélegir og fúnir að þeir hrynja eins og domino í roki? Af hverju er ekki búið að endurnýja og gera þetta þannig að það þoli rokið? Hafa þeir staðið af sér veðrin fram að þessu af því þeir hafa verið á kafi í snjó og ekki getað fokið á hliðina? Það er þetta sem mér finnst ekki í lagi.

Nú er búið að vera rafmagnslaust (aftur) í meira en 30 klst og það er ekki góð tilhugsun að vita af foreldrum mínum húkandi undir sæng, með bilaðan ketil svo ekki er hægt að kynda húsið upp. Fólk sem er komið á sjötugsaldurinn. Þögnin og myrkrið og samskiptaleysið er nánast algert. Mamma er búin með hleðsluna á farsímanum svo eini síminn sem hún er með er gamall skífusími sem er á neðri hæð hússins sem er enn kaldari en sú efri. Maturinn sem hefur verið safnað upp fyrir veturinn er nú að þiðna í frystikistum og skápum þrátt fyrir kuldann.

Ég veit það fyrir víst að rafmagnið í sveitinni er töluvert dýrara en hérna í borginni því það er svokallað „flutningsgjald“ á rafmagninu, það þarf jú að flytja rafmagnið með þessum fínu línum til sveitabæjanna og það kostar sko sitt….

Ég spyr…. Er í lagi að bjóða fólki upp á svona? Þó svo að fólk hafi VALIÐ að búa í sveitinni? Væri ekki búið að kalla út björgunarsveit og berjast í gegnum rokið til að koma rafmagni á, í til dæmis Borgarnesi eða í Vogum á Vatnsleysuströnd eða Grenivík. Væru ekki fjölmiðlar logandi með fréttum af þessu? Veðurspáin er hrikaleg næstu daga svo útlitið er ekki gott ef veðrið er það sem aftrar því að gert sé við þetta.

Hugur minn er hjá fólkinu mínu í fallegu sveitinni minni núna og ég krossa fingur fyrir þau og vona að þau fái rafmagn og yl sem fyrst!

SHARE