Jón Björnsson ætlaði að hafa það gott helgina 31. október til 2. nóv en hann hafði pantað sér bústað, fyrir sig og konuna. Þau keyptu vín og fínan mat og þau máttu meira að segja taka hundinn sinn, hann Kát, með í bústaðinn. „Það var ekkert til sparað, stór bústaður með heitum pott og grilli. Ekki slæmt plan fyrir helgina,“ segir Jón á Facebook síðu sinni.
Hryllingurinn blasti við þegar þau komu á staðinn
Hlutirnir voru ekki alveg eins og parið hafði gert sér í hugarlund því þegar komið var upp í bústaðinn blasti hryllingurinn við: „Bústaðurinn var óþrifinn, gólfefnin voru algerlega ónýt, heiti potturinn var ónothæfur af því hann var brotinn. Grillið og brennararnir voru svo útataðir í fitu og viðbjóði að mér datt ekki í hug að setja nautasteikina á það“ segir Jón og bætir við: „Og það var ekki einu sinni grillbursti til að þrífa grillið.“
Jón segir að bakaraofninn hafi verið ógeðslegur líka og hefði helst átt heima í einhverskonar hryllingsmynd, leðursófinn var rifinn, gluggafögin mygluð, kóngulóarvefir upp um alla veggi: „Einn glugginn var þannig að ekki hægt að loka af því festingin var brotin, eða skrúfurnar hafa ekki náð að haldast því að glugginn var svartur af myglu. Þess má geta að það var hávaðarok og rigning alla nóttina og glugginn barðist og barðist með miklum látum í húsið og var ekki svefnfriður vegna þess.“
„Ekkert nema hrein vörusvik“
„Við hröktumst á brott í birtingu á laugardeginum og fór ég heim að sveitabænum sem húsráðendur búa á, ég var búinn að fyrirfram ákveða að vera bara kurteis og segjast bara vilja fá aðra nóttina endurgreidda, ég myndi sko greiða fyrir þennan litla tíma sem ég var þarna. En nei það var ekki tekið í mál að endurgreiða, fólkið í „góðmennsku“ sinni rétti mér nafnspjald og buðu mér að koma bara aftur seinna.“
Sumarbústaðurinn sem parið leigði kostaði 40.000 krónur yfir helgi og að þeirra sögn var þetta ekki sami bústaðurinn og á myndunum á netinu: „Það var allt annað innra skipulag, allt annað grill en það var sýnt flott ryðfrítt grill á myndunum og talsvert smekklegri húsgögn og aðstaða. Þetta eru ekkert nema hrein vörusvik,“ segir Jón.
Ofan á allt segir Jón að sumarhúsið var auglýst með interneti, sem kom svo í ljós að var fyrirframgreitt og engin leið að átta sig á hvernig átti að fylla á. „Húseigendurnir kunnu það ekki heldur og bentu okkur góðfúslega á að „gúgla“ það, en ekki með neitt net,“ segir Jón að lokum en hann dvaldi bara eina nótt í bústaðnum því þau gátu ekki hugsað sér að vera lengur á staðnum.