Rúnar Freyr er dásamlegur tónlistamaður en hann er oftast kallaður Rúnar Eff. Rúnar er öllum norðlendingum vel kunnugur en hann er frá Akureyri og hefur lengi vel spilað sem trúbador á kaffi Akureyri sem er vel sótt á kvöldin hjá honum enda getur kvöldið ekki klikkað með honum og gítarnum.
Aðrir hafa t.d heyrt tónlist hans spilaða á bylgjunni, B5 og fleiri stöðum.
Rúnar útskrifaðist úr virtum söngskóla í Kaupmannahöfn.
[soundcloud url=”http://api.soundcloud.com/tracks/48646090″ iframe=”true” /]
Fullt nafn:Rúnar Freyr Rúnarsson (Rúnar eff)
Aldur: 34
Hjúskaparstaða: einhleypur
Atvinna: tónlistarmaður
Hvernig er að vera tónlistamaður á Íslandi?
Það er virkilega gaman, og í raun forréttindi að geta unnið við það sem maður hefur mest gaman af.
Svo er tónlistarsamfélagið frekar lítið hérna, þannig að maður kynnist fljótt mörgum í bransanum.
Er mikil vinna í því að koma sér á framfæri?
Já ég myndi segja það, maður þarf stöðugt að vera að minna á sig, gefa út nýtt efni, halda tónleika, trúbba, fara í viðtöl og slíkt. Annars gleymast menn fljótt. Það á kannski meira við um menn eins og mig sem eru ennþá að skapa sér eitthvað nafn.
Nú hef ég tekið eftir að þú ert duglegur að spila á góðgerðarsamkomum, er það þér hjartans mál?
Ég vill meina að allir eigi að gefa eins og þeir geta til að aðstoða þá sem minna mega sín. Stundum á maður pening til að leggja málefnum lið, en maður getur alltaf gefið af sér með því að spila frítt fyrir gott málefni. Svo já ég myndi segja að það væri mér mikilvægt.
Þú hefur verið að semja tónlist sjálfur, getur þú sagt okkur hvaðan þú færð innblástur?
Ég fæ mestan innblástur frá mínu nánasta umhverfi.
Fjölskyldan og vinirnir. Enda eru flestir mínir textar frekar persónulegir.
Hvar er aðallega hægt að mæta hlusta á þig spila?
Ég spila mikið á Kaffi Akureyri í mínum heimabæ, svo hef ég verið að spila í auknu mæli á B5 í Reykjavík ásamt þeim Vigni Snæ, Jógvan og Hreim.
Einnig fer ég mikið á Sauðárkrók, Vestmannaeyjar og fl. Staði.
Ertu með einhver plön sem þú mátt segja okkur frá? Diskur á leiðinni jafnvel?
Heyrðu já, ég er að koma með plötu númmer tvö, og er stefnan að gefa hana út í mars 2013. Er nánast búinn með upptökurnar á henni.
Ertu eitthvað að spila með öðrum tónlistamönnum, hverjum þá?
Já eins og ég sagði hér fyrr í viðtalinu að þá er þetta ekki stórt samfélag. Ég hef mest verið að spila með þeim Vigni Snæ, Hreim og Steina Bjarka. En einnig dottið inn gigg með Jógvan, Matta Matt, Magna, Pétri Jesú, Hlyn Ben og fl.
Svo hef ég verið að spila með tónlistarmönnum í svíþjóð sem heita Pontus Stenkvist og Sebastian Lilja.
Er stefnan að gefa út tónlist erlendis ?
Eins og staðan er núna þá eru tvö sænsk plötufyrirtæki með mig í einhversskonar skoðun, en hvað verður úr því er ómögulegt að segja. En já stefnan er tekin út fyrir landsteinana og þá ekki bara Evrópa.
Ertu menntaður eitthvað í sambandi við tónlist?
Ég lærði söng við Compleat Vocal Institute í kaupmannahöfn. Alveg hreint magnaður skóli sem ég mæli hiklaust með.
Áttu þér fyrirmynd í tónlist, íslenskur eða erlendur?
Ég á mér svosem enga fyrirmynd beint, en hef alltaf haldið mikið uppá Elvis Presley og Rokkguðina í Kiss.
Ég hef svo einnig haldið mikið uppá Eirík Hauksson frá því að ég var krakki, en annars er ég algjör alæta á tónlist.
Eru einhver gigg erfiðari en önnur?
Ég tel mig vera orðin ansi sjóaðan í þvi að koma fram, og verð sjaldnast eitthvað stressaður.
En það er alltaf jafn erfitt að syngja við jarðarfarir og þá sérstaklega hjá ungu fólki. Það er eitthvað sem venst líklega aldrei, og á kannski ekkert að venjast.