Inga María stundar nám í einum virtasta tónlistarskóla í heimi. Hún stefnir á að gefa út nýtt lag sautjánda hvers mánaðar þangað til í desember þegar platan hennar kemur út.
„LÍN lánar því miður ekki meira en fyrir þremur árum og ég á eina önn eftir,“ segir Inga María Hjartardóttir sem stundar nám í tónlistarviðskiptafræði við Berklee College of Music, einn virtasta tónlistarskóla í heimi. Í raun er um fjögurra ára nám að ræða en Inga kemst upp með að klára það á þremur og hálfu ári með því að sleppa aukafagi, sem hún hefði þó helst vilja taka. Eitt námsár við skólann kostar um sjö milljónir íslenskra króna og hefur Inga brugðið á það ráð að setja í gang söfnun á síðunni gofundme.com til að geta lokið draumanáminu sínu.
Búin að bóka miða út
„Ég er líka að taka tíma á netinu núna í sumar til að sleppa betur frá skólagjöldunum og kom þessari söfnun af stað til að reyna að brúa bilið,“ útskýrir Inga sem starfar einnig í álverinu á Grundartanga í sumar og stefnir á að halda styrktartónleika í haust. „Ég er að reyna að finna leiðir til að safna peningum. Það er ekki séns að ég klári ekki námið, ég á svo lítið eftir,“ segir Inga ákveðin. „Ég er búin að bóka flugið út í haust, ég á bara eftir að finna peningana,“ bætir hún kímin við.
Þann 17. júní síðastliðinn gaf Inga svo út fyrsta lagið sitt, Guide me home, og stefnir hún á að gefa út nýtt lag sautjánda hvers mánaðar allt þar til platan hennar kemur út í desember. „Ég er búin að semja mest af efninu og er búin að sitja á því í smá tíma. Ég tók upp þrjú lög í vor í Boston og svo er ég að vinna að efni með fólki um allan heim. Snilldin við netið og tölvurnar er að fólk þarf ekki að vera á sama stað til að vinna að tónlist.“
Hélt að námið væri miklu ódýrara
Inga hefur verið að grúska í tónlist frá því hún var lítil stelpa og langaði alltaf til að tengja tónlistina á einhvern hátt við bóklegt nám. „Ég sá ekki fram á að geta það fyrr en ég fann þennan skóla. Ég skoðaði hann á netinu og þá var ekkert annað sem kom til greina. Ég reyndar misskildi aðeins upplýsingar um skólagjöldin. Það stóð að þau væru tæpar sjö milljónir og ég gerði bara ráð fyrir því að það væri fyrir öll fjögur árin. En svo kom reikningurinn fyrir fyrsta árið og þá kom í ljós að hvert ár kostar sjö milljónir. Ég er samt rosalega fegin að þessi misskilningur varð því ég hefð ekki þorað að sækja um ef ég hefði vitað að þetta væri svona dýrt. En nú er ég búin með þrjú ár og ótrúlegt en satt hefur þetta reddast. Ég fæ reyndar skólastyrk fyrir einum þriðja af skólagjöldunum og það hefur hjálpað mikið.“
Sameinar tónlist og bóknám
Inga hafði aldrei farið til Bandaríkjanna þegar hún hóf nám við Berklee College of Music og vissi ekkert hvað hún var búin að koma sér í þegar hún flaug ein út 19 ára gömul. En hún sér svo sannarlega ekki eftir því enda hefur námið staðist allar væntingar og rúmlega það.
„Ég er mjög ánægð með að hafa valið tónlistarviðskiptafræðina. Þetta er góð leið til að sameina tónlistina og góða bóklega gráðu sem auðveldar mér að komast í gott starf eftir útskrift. Ég er líka búin að koma mér upp frábæru tengslaneti sem er einmitt að skila sér við vinnsluna á plötunni minni.“
Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.