
Vissir þú að bikiní komu ekki á almennan markað fyrr en árið 1946? Að fyrir rúmri öld síðan svömluðu formæður okkar um í torkennilegum ullarsundbolum og óðu út í sjó í sokkum? Sundfatatískan hefur tekið ægilegum breytingum undanfarin hundrað ár og þau eru öllu þægilegri bikiníin í dag, að ekki sé talað um klæðilega sundbolina sem fást í öllum regnbogans litum.
Það getur verið stórskemmtilegt að renna yfir sundfatatískuna og allt sem áður ekki mátti – er leyfilegt í dag. Fyndið sem það er, þá mátti til að mynda ekki glitta í sjálfan naflann þegar bikiníin komu fyrst á markað – tvískipt sundföt eins og þau heita öðru nafni – naflinn þótti of dónalegur.
Það er einhver sjarmi yfir gömlu sundfatatískunni; aðsniðnum sundbolum með skálmum og sólhlífinni sem konur sprönguðu gjarna með á ströndinni hér áður fyrr til að verjast skaðlegum útfjólbuláum geislum.
Nú eða skvísulegum og skræpóttum sundfötunum sem þær klæddust á sjöunda áratugnum – í dag er hreinlega allt leyfilegt! Hér fer myndband sem sýnir sundfatatísku undanfarinna 100 ára – ferlega skemmtilegt sem það er að renna yfir misjöfn tímaskeið sem öll hafa sinn sjarma.
Ætlar þú að fara á ströndina í sumar?
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.