Sambýlismaður Thelmu tók sitt eigið líf þegar barn þeirra var nokkurra mánaða

Thelma Hulda Símonardóttir er þrítug móðir úr Reykjavík, lærður tannsmiður og hjúkrunarfræðingur. Hún sagði sögu sína í þætti hlaðvarpsins Sterk saman sem kom út í gær.

Thelma segir frá því að hún hafi vitað af stráknum í grunnskóla og svo hafi þau hist djamminu niðrí bæ en hann hafi fært henni drykk og svo hafi hann ekki talað meira við hana fyrr en mánuðum seinna. Þá hafi hann búið úti í Noregi en fljótlega eftir að hann flutti heim fóru þau að vera saman.

Þegar Tinna spyr Thelmu um aðdraganda þessa hræðilega atburðar segir hún: „Hann sýndi mér fullt af merkjum sem ég áttaði mig ekkert á, eðlilega. Þetta er það síðasta sem manni dettur í hug.“

Thelma segir að atburðarrás hófst um viku fyrir andlát hans, um haustið 2019. „Ég kenndi mér lengi vel um dauða hans fyrir að hafa ekki séð þessi merki og að ég hafi ekki verið nógu góð við hann fyrst hann valdi að fara frá mér og dóttur okkar sem var þá 11 mánaða gömul.“

Hann var til dæmis nýbúinn að kaupa sér tölvu og kvöldið áður en hann fór kenndi hann Thelmu að komast inn í hana, en nota þurfti fingrafar til þess. Hún skutlaði honum í skólann þennan morgun og hann kvaddi hana innilegar er vanalega en hún tók ekkert eftir neinu svona fyrr en eftir á, eins og gefur að skilja.

Daginn sem hann hvarf skutlaði Thelma honum í skólann en tók eftir að hann var bara með húfu og vettlinga með sér en ekki tölvuna fyrir skólann. Hann sagðist ekki þurfa tölvuna þennan daginn og hélt til skólans. Hann hinsvegar mætti ekki í skólann heldur gekk upp í Grafarvog þar sem hann tók sitt eigið líf í nágrenni við Geldinganes.

Eftir umfangsmikla leit fannst hann svo um 6 um morguninn daginn eftir að hann hvarf. Hann var látinn, aðeins 26 ára gamall.

Thelma segir að hún hafi upplifað mikinn hrylling, rétt eftir andlátið. Hún var uppfull af kvíða og vonleysi en hafi fengið hjálp frá foreldrum sínum og foreldrum sambýlismannsins heitins, sem og frá Séra Eysteini.

Í dag hefur Thelma fundið ástina á ný og gerðist það um 8 mánuðum eftir andlátið: „Sumum fannst þetta of snemmt og ég var hrædd um hvað fólki fannst en ég var búin að vinna rosalega vel í þessu áfalli. Þetta er verkefni sem mun fylgja mér allt mitt líf. Fyrst um sinn leið mér eins og ég væri að halda framhjá, við vorum aldrei hætt saman.“

Samskiptin milli allra, fjölskyldu sambýlismannsins heitins og fjölskyldu hennar eigin séu svakalega góð og segir Thelma að það skipti ofsalega miklu máli.

Hlustið endilega á þáttinn í fullri lengd hér að neðan.

SHARE