Arnór Bjarki Blomsterberg er prestur í Ástjarnarkirkju og skrifaði pistil á dögunum sem hittir í mark á svo marga vegu, með það sem á gengur í íslensku þjóðfélagi í dag. Við fengum leyfi hans til að birta pistilinn hér:
Samfélag í samkenndarkrísu
Mér finnst eins og einhverskonar tilfinningalegt tómarúm hafi myndast í íslensku samfélagi. Mér finnst ég sjá það þegar ég horfi í samfélagsspegilinn – í augu ungmenna sem hafa mörg tapað áttum, í andlit foreldra sem hafa áhyggjur af framtíðinni og í mitt eigið hjarta þegar ég heyri hvern fréttaflutning af öðrum um aukið ofbeldi og aukna hörku á meðal ungs fólks. Mér líður eins og ég sé að vakna upp í veröld sem hefur afmáð mannleg tengsl með vaxandi ofbeldi, í samfélagi sem eitt sinn var talið það öruggasta í heimi.
Ég velti fyrir mér hvað fór úrskeiðis þegar ég las niðurstöður nýlegrar PISA könnunar, sem sýnir að íslensk ungmenni skora lægst í mælingum á samkennd á meðal OECD ríkja. Hvað breyttist í íslenskri menningu sem hefur þær afleiðingar að börn og ungmenni eiga erfiðara með en jafnaldrar þeirra innan annarra OECD ríkja að finna til með öðru fólki? Hvers vegna finna börnin okkar ekki lengur þessa tengingu, sem ætti að vera innrætt í okkur öll frá fæðingu?
Það er auðvelt að benda á samfélagsbreytingar, áhrif netmiðla og brotthvarf hefðbundinna samskipta sem skýringar á þessu. En raunveruleg skýring á þessum vanda hlýtur að liggja dýpra; að einhverju leyti, vafalaust – í menningu sem hefur fjarlægst siðferðisgildin sem áður mynduðu burðarstoðir samfélagsins. „Sannleikanum“ sem áður var miðlægur í lífum flestra, hefur verið ýtt til hliðar. Í dag virðist siðferði hafa færst frá því að vera sameiginlegur rammi yfir í að verða einstaklingsbundið, eitthvað sem hver og ein manneskja getur lagað að eigin þörfum. Ég óttast að við höfum misst sjónar á þeirri helgu taug sem áður tengdi okkur hvert öðru, að við höfum fjarlægst grunneðli mennskunnar.
—
Tilfinningalegt tómarúm
—
Skólakerfið sem áður var hornsteinn innleiðingar siðferðisgilda og -þroska, virðist hafa dregist inn í þetta tómarúm. Við erum hætt að kenna börnunum okkar siðferðislega færni. Siðferðisáttavitar sem eitt sinn fléttuðust inn í menntun grunnskólabarna hafa nú verið aflagðir og í þeirra stað verið lögð megináhersla á að bæta mælanlegan árangur. En hvað er verðmætara en mannssálin? Hvað er verðmætara en lífið? Hvað er mikilvægara en að kenna börnunum okkar að haga lífi sínu með virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, að sjá náungan sem manneskju en ekki sem keppinaut?
Tæknin hefur snert nútíma samskipti sem við eigum hvert við annað meira en við gerum okkur grein fyrir. Tæknin hefur smám saman deyft mannlegar tilfinningar og mótað veröld þar sem við tengjumst í gegnum skjái en ekki hvert öðru. Samfélagsmiðlar, sem eitt sinn lofuðu auknum tengslum hafa einangrað okkur enn frekar. Við eigum samtöl í formi „like-a“ og „emojis“, þar sem við horfum ekki lengur í augu hvers annars. Grundvallar tengingarnar, mannlegu samskiptin hafa verið höggvin upp, svona hér um bil.
Í þessu tómarúmi, þar sem tækni og einstaklingshyggja ráða ríkjum, hafa íslensk ungmenni glatað þeirri einföldu, en um leið djúpu færni, að finna til með öðru fólki. Kynslóð er að komast á legg sem upplifir eigin tilfinningar mikið til í gegnum „reels“ og „posts“ en ekki í gegnum raunveruleg samskipti. Kynslóð sem hefur týnt þessari mikilvægu tilfinningu að eiga raunveruleg samskipti sem byggja á samkennd og væntumþykju.
—
Krísuástand?
—
Það sem hræðir mig einna mest ekki aðeins aukið ofbeldi og harðræði sem við fáum fréttir af, heldur þessi tilfinninga- og siðferðilegi doði sem hefur tekið sér bólfestu í okkur. Við höfum fjarlægst sannleikanum, við höfum misst sjónar á þeirri grundvallarmeðvitund að við séum öll tengd, að við séum hluti af sömu fléttu. Ef við horfumst ekki í augu við það þá er hætta á að við töpum því sem gerir okkur mennsk. Mögulega erum við að nálgast þann tímapunkt að mikilvægt sé að viðurkenna og horfast í augu við að siðferðileg endurvakning sé nauðsynleg. Við þurfum að kenna börnunum okkar – og sjálfum okkur – að lífið er meira en velgengni á mælanlegum sviðum. Lífið er meira en viðurkenning á samfélagsmiðlum. Lífið er heilög gjöf sem okkur ber að fara vel með. Þann skilning þurfum við að endurvekja og átta okkur á að við tengjumst öll í sameiginlegri tilvist og sú tenging er mikilvægari en allt annað.
Við þurfum að læra að horfast í augu við annað fólk, ekki sem keppinauta heldur sem systkin. Við þurfum að hætta að líta á siðferði sem valkost. Siðferði er ekki val. Siðferði er grunnurinn að lifandi samfélagi og án þess verður ekkert nema tómarúm og í tómarúminu þrífst ofbeldið. Við verðum að grafa okkur niður og hlúa að rótinni sem gerir okkur að manneskjum. Það er verkefni sem við verðum að ráðast í af fullum krafti. Ef ekki, þá er ég hræddur um að við týnum okkur sjálfum og börnunum okkar.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.