Systurnar Jóhanna og Aníta reka búðina Vintage Store í Hamraborg 7 í Kópavogi.
Þar selja þær notaðan vel með farin fatnað, skó og fylgihluti en eru einnig með þá nýjung að bjóða upp á umboðssölu fyrir almenning. Oft leynast fallegar flíkur inn í skápum sem fólk tímir kannski ekki alveg að gefa en vill samt losna við og þá er þetta hentug lausn. Eins segjast þær vera með fáránlega gott verð!
Jóhanna er leikkona, ferðamálafræðingur og þriggja barna móðir og Aníta er lögreglukona, líkamsræktarþjálfari og tveggja barna móðir svo þær hafa í nógu að snúast.
„Samvinnan á milli okkar er góð og því ganga hlutirnir einstaklega vel fyrir sig. Okkur hefur alltaf dreymt um að reka búð saman en samt án þess að demba okkur í skuldapakkann, svo við fórum að smá og „spegulera“ og áttuðum okkur á því að við sætum á gullnámu inn í skápunum okkar og vinkvenna,“ segir Jóhanna í spjalli við hún.is.
„Umboðssalan virkar á þá leið að viðkomandi kemur með flík/ur til okkar sem við svo metum og í samráði við viðkomandi ákveðum við raunhæft verð. Við tökum eingöngu við heilum vel með förnum flíkum. Flíkin hangir svo uppi í búðinni en ef hún selst ekki innan 21 daga þá getur eigandinn lækkað verðið eða tekið hana til baka, það er algjörlega eigandanum að kostnaðarlausu ef hún selst ekki en við tökum 50% í sölulaun þegar hún selst.
Skartið og fylgihlutirnir koma frá Aha market en við erum í samstarfi við þá,“ segir Jóhanna að lokum.
Opnunartími Vintage Store verður til að byrja með 15:30-18:00 alla virka daga og Laugardaga frá 12:00-16:00 en með sumrinu munum við lengja opnunartímann frá 13:00-18:00 virka daga.