Samkvæmt TMZ.com hefur Carissa Capeloto, 22 ára gömul kona stigið fram og ásakað rapparann Sean Kingston, lífvörð hans og vin um hópnauðgun.
Stúlkan segir að atvikið hafi átt sér stað í Seattle í júlí árið 2010. Í yfirlýsingu sinni segir hún að henni hafi verið boðið að koma upp á hótelherbergi í partý. Stúlkan hélt að hún væri á leið í eftirpartý eftir tónleika Justin Bieber en þar hafði Sean Kingston troðið upp ásamt Justin Bieber fyrr um kvöldið.
Þegar hún kom upp á hótelherbergið lá Sean nakinn í rúmi sínu og lífvörður hans reif í stúlkuna og þrýsti henni ofan á söngvarann. Í framhaldi af þessu veittust tveir aðrir menn að henni, lífvörður söngvarans og annar maður og þvinguðu hana til kynferðislegra athafna.
Stúlkan segir að hún hafi reykt gras fyrr um kvöldið og drukkið að minnsta kosti sjö vodkaskot. Hún var því augljóslega undir áhrifum og ófær um að veita samþykki. Vinur stúlkunnar er sagður hafa komið henni til bjargar og undir læknishendur þar sem hún fékk aðhlynningu. Hún hafði áverka á líkamanum eftir nauðgunina.
Stúlkan lagði fram kæru árið 2010 en málið var fellt niður. Söngvarinn sagði að stúlkan hefð gefið samþykki sitt og að engin nauðgun hefði átt sér stað. Málið hefur verið tekið upp aftur og verður tekið fyrir í nóvember.