Æ það er þessi streita og stress sem ætlar allt að yfirtaka á þessum síðustu og verstu, er það ekki? Er ekki ráð að reyna að slappa svolítið af og anda rólega? Hér eru nokkur ráð sem hjálpa þér að komast gegnum stressandi tímabil með stóískri ró. Það þarf ekki mikið til að minnka áhrif streituvalda töluvert.
*Ekki fara í matvörubúð þegar þú veist að það er allt kjaftfullt ef þú þolir ekki áreiti, mannmergð og biðraðir.
*Verslunarmiðstöðvar geta verið afar streituvaldandi. Forðastu þær eins og heitan eldinn.
*Veldu þrasið þitt vel. Munu börnin aldrei bíða þess bætur ef þau horfa einu sinni á sjónvarpið meðan þau borða kvöldmatinn eða fá súkkulaðikex í morgunmat? Líklega ekki.
*Líður þér eins og þú sért ein/n í harkinu og áhyggjur heimsins að sliga þig? Talaðu um það við einhvern. Stundum er eins og þungu fargi sé af þér létt þegar þú segir hlutina upphátt.
*Taktu þér mínútu í að loka augunum og anda. Alveg ofan í maga.
*Ekki einangra þig frá umheiminum. Hausinn getur farið með þig um víðfeðmar lendur áhyggjulands ef þú hefur of mikinn tíma með sjálfri/sjálfum þér. „Minglaðu“ við fólk sem þér líður vel í kringum og dreifðu huganum.
*Hættu að hafa áhyggjur af draslinu á heimilinu. Í guðanna bænum – það fer ekki neitt. Áfanganum sem verður náð þegar þú hættir að pirra þig yfir ryki og þvottahrúgum verður ekki öðruvísi lýst en sem alsælu.
*Vertu með stressbolta meðferðis þegar þú ert á leiðinni í uggvekjandi aðstæður. Boltinn hjálpar þér að dreifa huganum.
*Drekktu te. Það er ekkert víst að það hjálpi sem slíkt en athöfnin að laga teið og drekka það hefur slakandi áhrif.
*Hlustaðu á tónlist sem kætir þig, uppáhaldslagið getur haft mjög róandi áhrif.
*Farðu í kvöldsund. Ekkert betra en að liggja í nuddpottinum láta stressið sogast inn í háværan svelginn.
*Minnkaðu áreitið í kringum þig. Eru börnin hvert í sínu snjalltækinu, kveikt á sjónvarpinu og makinn að blaðra í símann? Í öllum bænum skelltu heyrnartólum á börnin, slökktu á sjónvarpinu og segðu makanum að tala úti á svölum. Fáðu þér rauðvínsglas meðan þú eldar einhvern góðan mat í rólegheitum. Spennustigið minnkar til muna.
Heimildir: Fréttatíminn