Segist hafa sigrast á sykursýki 2 með því að svelta sig í 11 daga – Umdeild aðferð

Tæplega sextugur maður, Richard Doughty fór í eftirlit til heimilislæknisins og þá kom í ljós að blóðsykur hans var allt of hár. Þetta kom honum mjög á óvart því að líkamsþyngdin var rétt, hann vissi ekki af sykursýki í fjölskyldu sinni, hann borðaði hollan mat, reykti ekki og var hreint ekki fyrir sætindi. Samt var hann greindur með sykursýki 2.

Maðurinn ákvað að finna lausn á þessum vanda. Hann skrifaði um aðferð sína á Dailymail en hann heldur því fram að hann hafi sigrast á sykursýki tvö með því að svelta sig.

Hann las sér til um það, að hann myndi lenda í verulegum vandræðum ef hann gæti ekki snúið ástandinu við. Læknir hans sagði honum til um mataræði, hann ætti að borða mikið af grænmeti og draga verulega úr kolvetnum. Þetta gerði hann og grenntist en blóðsykurinn lækkaði lítið.

Enn hélt hann áfram að leita lausna, las allt sem hann náði í á netinu og rakst á grein frá vísindamönnum við háskólann í Newcastle þar sem mjög róttæk lausn var kynnt. Hér getur þú séð umfjöllun um aðferðina.

 Mátti aðeins neyta 800 hitaeininga á dag.

Í greininni var boðað að fullorðinn karlmaður mætti aðeins neyta 800 hitaeininga á dag ( talið er að hæfilegt magn sé 2,500) og ættu 600 hitaeiningar að koma úr súpum og 200 úr grænu hrámeti. Þá ætti viðkomandi að drekka þrjá lítra af vatni á dag.

Hugmyndafræðin að baki þessara leiðbeininga er sú að með því að fara eftir þeim brenni líkaminn upp fitu sem hefur safnast á lifrina og miltað, jafnvel þó fólk sé í eðlilegri líkamsþyngd. Þegar þessi fita hverfur muni blóðsykurinn verða eðlilegur. Fullyrt var að ekki tæki nema í mesta lagi átta vikur að laga ástandið og ná tökum á sykursýki 2.

 Átti í miklum erfiðleikum með að fara eftir fyrirmælunum.

Maðurinn sem hér greinir frá ákvað að reyna þetta og átti vægast sagt í miklum erfiðleikum að fara eftir fyrirmælunum. Hann sótti vinnuna áfram en barðist brátt við svima og máttleysi.

Þó að fólkið á skrifstofunni væri að kvarta um hita var manninum kalt og dofi í fingrum.

Þegar hann var búinn að fara eftir fyrirmælunum í ellefu daga hætti hann og fór að borða aftur venjulega fæðu. En þegar  hann að tveimur mánuðum liðnum fór í skoðun til heimilislæknisins kom í ljós að blóðsykursgildin voru orðin alveg eðlileg. Eftir þetta ellefu daga svelti hafði líkaminn náð að leiðrétta blóðsykursmagnið að hans sögn.

 

 Verið er að rannsaka áfram hvort svelti eins og þessi maður gekk í gegnum er leiðin til að ná tökum á sykursýki 2.

 

Ritstjórn www.hun.is spurði mann sem hefur tekist á við sykursýki 2 í mörg ár hvaða aðferðum hann beitir.

Hann sagði að hann svelti sig ekki og teldi það ekki neinum til heilla. Hins vegar athugi hann vel hvað hann borðar og sneiði alveg hjá sykri (nema þeim sem fæst úr ávöxtum) og taki yfirleitt heilhveiti og grófar korntegundir fram yfir hvítt hveiti. Hann segist með öðrum orðum velja hvað hann borðar og  takmarka magnið við u.þ.b. 2.500 hitaeiningar á dag. Rétt er að taka fram að mikill hluti þessara hitaeininga fær hann úr grænmeti, ávöxtum, kjöti og fiski.     

En hreyfing er annar þáttur sem getur ráðið úrslitum um hvernig tekst til að ráða við sykursýki 2. Hann velur að ganga daglega og synda. Öðrum henta aðrar æfingar en þetta hentar mér, segir hann og þess vegna vel ég þessar æfingar. Þegar maður hefur hemil á neyslunni og hreyfir sig daglega léttist maður, aukafita sem hefur safnast á líkamann brennur burt. Það er einmitt mjög mikilvægt atriði í baráttunni við sykursýki 2.

 

Mín reynsla er að maður nær ekki tökum á sykursýki 2 með einhverjum skyndilausnum, verkefnið leysist ekki í eitt skipti fyrir öll, maður verður alltaf að vera á verði og vinna með líkama sínum, segir hann að lokum.

Aðferðin sem Richard notaði er mjög umdeild og sumir segja að hún geti ekki gagnast neinum vel og að aðferðir sem þessi losi þig ekki við sykursýki 2.

 

SHARE