Sex megingerðir fyrrverandi kærasta

Hversu oft hefur ekki ástin heltekið okkur og jafn oft höfum við hugleitt “hvað EF hann er sá eini?” en vaknað upp við vondan draum þann næsta dag. Sambandsslit eru erfið og sár í eðli sínu, oftar en ekki virðist sorgin jafnvel óyfirstíganleg um tíma.

En hvaða tilgang hafa stefnumót og misheppnaðar tilraunir okkar í einkalífinu, annan en þann að færa okkur nær okkar eigin þörfum og óskum? Það má mikinn lærdóm draga af feilsporum í tilhugalífinu. Sjálf er ég sammála því sem hér fer á eftir. Og fyrir kemur að ég rita eitthvað í þessa veru sjálf. Að þessu sinni hef ég þó snarað orðum   yfir á íslensku, sem hefur tekið saman sex misjafnar manngerðir sem allar eiga það eitt sameiginlegt að hafa eitt sinn verið elskhugar.

 

173255192

 

1. Fyrsta ástin / Eina ástin

Þessi karakter kennir þér meira um eðli ástarinnar en nokkur sem á eftir kemur. Fyrsti kossinn, fyrsta faðmlagið; fyrsta “allt”. Og sá var enda tíminn að þú gerðir þér vonir um að fyrsta ástin yrði einnig þín síðasta – að ástin myndi vara að eilífu. Veröldin hófst og endaði með nærveru “hans” og á einhverju augnabliki var sem lífið hefði náð hámarki sínu. En allt er breytingum undirorpið. Bæði tóku að vaxa úr grasi. Nándin tók að fjara út og að lokum rann upp fyrir báðum að sambandinu yrði að ljúka því þægindin ein héldu ykkur saman. Ef heppnin hefur verið með ykkur, þá þekkist þið enn og elskið hvort annað – bara á aðra vegu en í upphafi.  

Lærdómurinn: Bara einn? Alls ekki. Fyrsta ástin kennir þér hvað ástin snýst um, hvernig er að upplifa ástríður og vera heltekin/n af tilfinningunni einni saman. Fyrsta ástin er kynningarstefið sem leiðir að  litríkri veröld ástarinnar.  

 

 

85537367

2. Hækjan (Rebound-ið)  

Þessi gerir fyrst vart við sig þegar sambandinu við “Fyrstu Ástina” er nýlokið. Þú hefur verið í föstu sambandi um árabil, finnur þig skyndilega mitt í óútreiknanlegri hringiðu stefnumóta og það án þess að hafa nokkra hugmynd um hvernig þú átt að hegða þér. Þessi karakter býður þér öxl til að gráta á, einhvern til að tala við; hann veitir þér svigrúm fyrir útrás. Þó hugmyndin virðist frábær í byrjun, þá fer fljótt að læðast að þér sá grunur að jafnvel ættirðu ekki að halda lengra. “Ekki eyðileggja vináttuna!” æpir lítil rödd í bakhöfðinu á þér. En þú gefur hugmyndinni engu að síður séns, ákveður að þú eigir ævintýrið skilið. Samt sem áður smellur þetta bara ekki saman og sambandið fjarar út á byrjunarstigi.

Lærdómurinn: Þú lærir að sættast við þá staðreynd að þú ert einhleyp. Þó þú hafir verið í föstu sambandi um langt skeið merkir það eitt ekki að þú þurfir að hlaupa beint í faðminn á næsta manni og ganga umsvifalaust í hjónaband. Gefðu þér tíma til að finna út hver þú í raun og veru ert, án þess að vera í föstu sambandi. 

 

 

125141451

3. Góði gaurinn

Þessi maður býr yfir öllum eiginleikum sem þú þráir í fari karlmanns. Hann hefur allt til að prýða til að geta orðið góður eiginmaður einn góðan veðurdag. Á pappírum er hann hinn fullkomni karlmaður. Þér þykir ægilega vænt um hann, elskar hann jafnvel. En neistinn er bara ekki til staðar! Þú ferð engu að síður út með honum því kannski, bara kannski, gætir þú þvingað tilfinningar þínar í rétta átt. En með tímanum fer þér að lærast að það mun ekki gerast. Þú getur ekki búið til ást úr engu. Að lokum lærist þér að þessi látbragðsleikur er ekki sanngjarn og þú ákveður að slíta samskiptunum til að koma í veg fyrir tilfinningalegt stórslys.

Lærdómurinn:  Innsæið lýgur aldrei. Hlustaðu á eigin tilfiningar og mundu að þú getur ekki þvingað lostann fram, búið til ást úr engu. 

 

185181132

 

4. Dóninn sem heltekur þig 

Oh, hann er lúmskur þessi og getur skotið uppi kollinum á hvaða tímapunkti sem er. Þegar það gerist, hellist þráhyggjan yfir þig. Allt sem hann gerir og segir heltekur hugsanir þínar frá morgni til kvölds. Þú eyðir öllum deginum í smáskilaboð, kvöldinu í símanum og átt jafnvel erfitt með að opna augun daginn eftir. Hann sviptir þig svefni, ráði og rænu, þessi. Svo upptekin ertu og áráttukennd í hugsun að þú neitar að kyngja hinni augljósu staðreynd; að hann er hrokafullur dóni sem kemur illa fram við þig. Allir vinir þínir eru lifandis löngu búnir að vara þig við, en sjálf þráast þú við. Ferlið tekur smá tíma en þegar þú rankar loks við þér, lærist þér um leið að þú átt betra skilið. Þú slítur að lokum sambandinu.

Lærdómurinn: Ekki hunsa aðvaranir vina þinna! Ekki gera það! Ef þú hlýðir röddu almennrar skynsemi, lærist þér líka að spara þér heilmikinn sársauka þegar upp er staðið.  

 

182031124

 

5. Háskólakærastinn:  

 Þessi er æðislegur. Í fyrsta sinn á ævi þinni ertu komin í samband við karlmann án þess að foreldrar þínir hafi stöðug afskipti af samskiptum ykkar. “Ertu að meina að ég geti þá bara sofið heima hjá honum? Og þurfi ekki að hafa áhyggjur af útskýringum þegar ég heim? Vá! Frábært! Förum í partý og látum eins og vitleysingar!” En bara vegna þess að þér líður loks eins og þú eigir í fullorðnu tilfinningasambandi við annan einstakling, er ekki þar með sagt að þú getir látið allt flæða og vaða. Það getur líka verið erfitt að standa á eigin fótum og ótrúlega kalt að þurfa að axla ábyrgð á eigin mistökum án nokkurs stuðnings frá foreldrum þínum, sem voru jafnvel vön að bjarga þér út úr öllu, sama hvað gekk á. 

Lærdómurinn: Það eitt að taka allar ákvarðanir hjálparlaust þegar málefni hjartans eru annars vegar getur verið spennandi í byrjun, en það eitt felur líka í sér ómælda ábyrgð. Þess utan verðum við alltaf börn í hjarta okkar þegar að málefnum hjartans kemur og allir þurfa á hlýjum móðurfaðmi að halda þegar eitthvað hefur farið aflaga í ástarlífinu.

173821901 

6. “Það-hefði-getað-orðið” gaurinn

Oh, þessi. Hann er fjarlægur. Jafnvel hálf ókunnugur. En þú elskar að velta því fyrir þér um hvernig það hefði orðið að vera með honum. Þið hittist og eitthvað bara smellur saman. Neisti, dýpri tengsl, nánd sem er ekki venjuleg. Þú finnur það og hann líka. Kannski verður eitthvað úr því, en þó er líklegra að um einnar nætur kynni verði að ræða og að sambandið kafni í byrjun vegna lélegrar tímasetningar og aðstæðna sem eru hvorugu ykkar í hag.  Þú lætur af og til hugann reika og veltir því fyrir þér hvernig sambandið hefði orðið ef aðstæður ykkar beggja hefðu verið hagstæðari. 

Lærdómurinn: Robin Scherbatsky orðaði þetta svo vel: “Ef neistinn er til staðar þá þarf bara eitt til viðbótar að smella og það er tímasetningin. Og tímasetningin getur verið fjandi erfið að eiga við.” Einfalt en satt.  

 Og þar hefurðu það; sex vofur fyrrverandi kærasta í sinni tærustu mynd. Hver og einn heltekur þig á sinn einstaka máta, en allir fela þeir ákveðna lexíu í sér. Framtíðin felur meira í sér fyrir okkur öll. En ekkert okkar veit þó hvenær þessar vofur verða á vegi okkar, fyrr en skaðinn er þegar skeður og sambandið hefur runnið sitt skeið. 

 

   ritaði fyrir vefmiðilinn Huffington Post

SHARE